Lóa Baldvinsdóttir skrifar:

Baráttan getur orðið þreytt......

29.Ágúst'18 | 19:34
loa_bald_cr-001

Lóa Baldvinsdóttir

Ég átti langt og gott spjall við góðan vin minn um daginn. Við vorum að ræða samfélagið sem við búum í, kosti þess og galla. Eins og gjarnan vill vera vorum við alls ekki alltaf sammála og allavega tvisvar var ég næstum því búin að labba frá þessum samræðum því skoðanir hans fóru svo hrikalega í taugarnar á mér. Já ég veit að ég er 39 ára og já ég  veit að ég á að bera virðingu fyrir skoðunum annarra en þarna bara talaði frekjan í mér.

Eitt sem við ræddum er mál sem skiptir mig miklu máli, það er hvernig tekið er á málunum þegar um veikindi er að ræða. Eins og margir vita gekk ég og mínir í gegnum eld og brennistein þegar Emma mín var lasin, í 18 mánuði komum við að lokuðum dyrum. Það vantaði ekki að alls staðar fengum við samúð, fólk reyndi að hughreysta okkur en enginn vissi hvert við áttum að leita, ekki einu sinni ráðamenn okkar á Alþingi.

Þá komum við að því sem ég bara get ekki skilið og það er af hverju grípur kerfið ekki einstaklinga sem eru að glíma við veikindi. Ég og flestir aðrir borgum okkar skatta og skildur og er það tæplega helmingur af laununum okkar. Það finnst mér ofsalega mikill peningur en er meira en tilbúin að borga hann......ef það skilar sér í góðri þjónustu þegar ég þarf á að halda. Veikindin hennar Emmu Rakelar læddust aftan að okkur, eins og oft vill gerast. Þau voru ósýnileg og hægt og bítandi dróu þau hana lengra og lengra inn í myrkrið. Af stað hélt ég í leit að bata fyrir barnið mitt,  við flæktumst á milli lækna í marga mánuði, hittum magasérfræðinga, sálfræðinga, barnalækna og geðlækna. Alla þessa ,,þjónustu" sóttum við upp á land þar sem þetta er ekki til staðar í okkar heimabæ og alla þessa ,,þjónustu" þurfti ég að gera svo vel að borga, þrátt fyrir að tæplega helmingur launanna minna fari í skatta sem eiga þá að dekka meðal annars heilbrigðis,,þjónustuna" okkar.

Þegar barnið mitt fékk loks bót meina sinna stóð kostnaðurinn í rúmlega milljón því kerfið greip hana ekki, tvær fríar ferðir á ári, við fórum aðeins meira en það eða svona tvær ferðir í mánuði. Sálfræðikostnaður og geðlæknakostnaður er ekki niðurgreiddur því það eru bara 4 sálfræðingar á landi með samning við Sjúkratryggingar Íslands......Allt eðlilegt við það, enda varla nokkur sem glímir við andleg veikindi. Ég sé ekki eftir einni krónu sem fór í að lækna barnið mitt og það gera foreldrar mínir ekki heldur (því ég stóð ekki undir þessu ein á leikskólakennaralaunum og hlupu þau ansi oft undir bagga) og vissulega er ábyrgðin á mínum börnum mín. Það breytir því samt ekki að ég borga skatta til þess að þurfa ekki að hafa áhyggjur af fjármálum þegar syrtir í  álinn.

Eftir að barnið mitt komst fyrir vind hrundi ég algerlega andlega og hef núna í tæplega ár verið óvinnufær og í mikilli aðstoð hjá sálfræðingi í Reykjavík. Það er það sama upp á teningnum, ég fæ niðurgreiddar tvær ferðir á ári en niðurgreiðsla sálfræðingsins er engin. Og aftur komum við að því að auðvitað ber ég ábyrgð á sjálfri mér en engu að síður finnst mér að kerfið eigi að grípa mig þegar ég lendi í þessum veikindum. Þó það væri ekki nema bara til að borga aðeins niður sálfræði,,þjónustuna". Það er nefnilega þannig að þegar manneskja veikist þá verður þrek og þol minna og fer allt meira og minna í það að halda sér á lífi, svona fyrst um sinn allavega. Orka til þess að þeytast á milli stofnana um von um hjálp er af afar skornum skammti og ég hef oft velt fyrir mér hvort kerfið sé viljandi gert svona flókið svo þeir sem þurfa á aðstoðinni að halda gefist einfaldlega upp????? Fyrir utan það að það gerir ekkert fyrir sjálfsmyndina eða geðið að þurfa sífellt að vera að leita eftir hjálp.....ég geri þetta bara frekar sjálf með aðstoð yndislega fólksins míns, en það eiga ekki allir eins gott bakland og ég.

Geðheilbrigðiskerfið okkar er svo löngu komið að þolmörkum er varðar fjársvelti. Geðræn veikindi eru alveg jafn hættuleg og önnur veikindi, þó þau sjáist ekki endilega utan á manni. Það er þyngra en tárum taki að berjast við veikindi sín en þurfa líka að berjast við ævafornt torfkofakerfi sem lítur geðræn veikindi ekki sömu augum og önnur veikindi. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá eru enn afar ríkjandi fordómar í okkar samfélagi, fordómar gegn geðrænum veikindum og fylgifiskum þeirra. Við sem glímum við þessi veikindi, hvort sem það er tímabundið eða alla ævi, skiptum jafn miklu máli og ,,venjulega" fólkið og eigum rétt á sömu heilbrigðis,,þjónustu".

Þessi eilífa barátta fyrir öllu og engu í þessu landi er að verða alveg ofsalega mikið þreytt. Við leggjum helling til reksturs þessa samfélags og eigum að fá til baka þegar við þurfum á því að halda. Alveg magnað hvað er alltaf til peningur fyrir gæluverkefnum ráðamanna en raunveruleg neyð er sniðgengin. Ég veit ekki með ykkur en mikið langar mig frekar að peningar renni til þeirra sem virkilega þurfa á þeim að halda frekar en í enn einn ráðherrabílinn......Svona er ég nú skrýtin.

Til lífs og til gleði

Lóa :-)

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Tungumálafólk óskast til vinnu sem túlkar

10.Maí'21

Alþjóðasetur leitar að fólki í Vestmannaeyjum til starfa sem túlkar.  Góð kunnátta á móðurmáli og íslensku er skilyrði, auk góðrar færni í mannlegum samskiptum, stundvísi, háttvísi og trúnaður.  Starfið er unnið í verktöku og ráðast laun af fjölda verkefna. Vinnutími er frjáls og sniðinn að óskum hvers og eins.  Boðið er upp á gjaldfrjálst starfsþjálfunarnámskeið áður en störf hefjast. Umsókn ásamt ferilskrá sendist á asetur@asetur.is  

Meiraprófsbílstjóri óskast til starfa

29.Apríl'21

Óska eftir meiraprófsbílstjóra í vinnu sem fyrst - tímabundin vinna til 1. september.  Kranapróf kostur. Upplýsingar í síma 6600250, Magnús.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...