Íris Róbertsdóttir skrifar:

Svarað og spurt

12.Ágúst'18 | 06:30
iris_rob

Íris Róbertsdóttir

Það er ástæða til að bregðast stuttlega við nokkrum atriðum sem komu fram í viðtali við Trausta Hjaltason hér á Eyjar.net. Trausti heldur áfram að kvarta sáran yfir því að kosin hafi verið ný stjórn í hið opinbera hlutafélag bæjarins um rekstur Herjólfs. 

Eins og margoft hefur verið bent á er hér um fullkomlega eðlilega og lýðræðislega framvindu mála að ræða. Líkt og í öllum öðrum nefndum, stjórnum og ráðum á vegum bæjarins á þessi stjórn auðvitað að endurspegla lýðræðislega samsetningu bæjarstjórnar á hverjum tíma.

Næsta umkvörtunarefni Trausta er að honum finnst látið eins og félagið sé ''...eitthvað einkamál bæjarstjórans...''. Þetta er skrýtin kvörtun frá manni sem stóð að þeirri ákvörðun við stofnun félagsins að bæjarstjórinn skyldi aleinn fara með eina hlutabréfið í félaginu. En líklega gerði þó Trausti ráð fyrir því þegar hann tók þessa ákvörðun að það yrði annar bæjarstjóri en raunin varð. Ég get hins vegar fullvissað Trausta, og alla aðra, um að það verður farið með eigandavaldið í þessu félagi með lýðræðislegri hætti en gert er sérstaklega ráð fyrir í samþykktum þess. Þannig verða allar eigandaákvarðanir teknar á vettvangi bæjarráðs og fyrir opnum tjöldum og fundargerðir stjórnar félagsins verða sömuleiðis aðgengilegar fyrir bæjarbúa alla.

Trausti telur að að það séu næg verkefni framundan fyrir bæjarstjórann og nefnir kojumál og bókunarkerfi nýju ferjunnar sem dæmi um það. Ég verð að játa að hér svelgdist mér aðeins á teinu. Var það ekki Trausti sjálfur sem var með í ákveða að þetta væru einmitt alls ekki verkefni bæjarstjórans? Var hann ekki einmitt með í að stofna heilt félag, kjósa því stjórn sem ráða á framkvæmdastjóra til að sjá um þetta?

Og best að bæta við einni spurningu til Trausta úr því að ég er byrjuð: Af hverju tilnefnduð þið ekki aftur í nýja stjórn félagsins sjálfan stjórnarformanninn, Grím Gíslason, sem þið sjálf settuð í stjórnina á sínum tíma? Öllum ber saman um að hann hafi leitt þetta verkefni - sem þið hafið marglýst yfir að hafi gengið svo vel og verið í svo góðum höndum. Af hverju tilnefnduð þið hann þá ekki aftur?

Ég er hins vegar sammála Trausta um að það er eftirsjá að Kristínu Jóhannsdóttur úr stjórn félagsins. Hún hefur yfirburðaþekkingu á málum er varða ferðaþjónustuna og við munum sannarlega kalla hana til að leiða mikilvæg verkefni á þeim vettvangi.

Að lokum þetta: Ég biðla enn til allra bæjarfulltrúa um gott samstarf og samstöðu þegar kemur að þessu gríðarlega hagsmunamáli sem samgöngurnar eru. Við þurfum ekkert endilega að vera alltaf sammála þegar kemur að einstökum úrlausnarefnum en við skulum takast á um þau með málefnalegum og rökstuddum hætti. Ef við teljum okkur hafa þörf fyrir einhverskonar pólitískar flugeldasýningar skulum við halda þeim utan við samgöngumálin.

 

Íris Róbertsdóttir

 

Höfundur er bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%