Ágreiningur um boðun hluthafafundar hjá Herjólfi ohf

1.Ágúst'18 | 06:51
herjolfur_nyr_cr_sa_c

Nýtt félag Vestmannaeyjabæjar, Herjólfur ohf mun reka nýja Vestmannaeyjaferju. Mynd/Crist S.A

Trausti Hjaltason, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði gerir alvarlegar athugasemdir við framkvæmd boðunar hluthafafundar hjá Herjólfi ohf. Meirihlutinn telur hins vegar engan vafa á að boðað hafi verið til hluthafafundarins með lögmætum hætti. 

Þetta kemur fram í bókunum sem gengu á víxl á milli fulltrúa meiri- og minnihluta á fundi bæjarráðs í gær undir liðnum „Umræða um samgöngumál”.

Þar segir að samkvæmt eftirlitsaðila Vegagerðarinnar í Póllandi dregst afhending nýja skipsins til 30. október n.k. og kæmist ferjan þá í fyrsta lagi í áætlun seinni partinn í nóvember n.k. 

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins lýsir yfir fullkomnu trausti á núverandi stjórn Herjólfs ohf.

Trausti Hjaltason fulltrúi D-lista í bæjarráði bókaði fyrstur, þar segir að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum geri alvarlegar athugasemdir við framkvæmd boðunar hluthafafundar hjá Herjólfi ohf. Bæjarstjóri óskaði eftir hluthafafundi við stjórnarformann Herjólfs ohf. án nokkurrar formlegrar opinberrar samþykktar þar að lútandi, hvorki frá bæjarstjórn né bæjarráði þar sem umræða um fyrirhugaðan hluthafafund og/eða dagskrárefni hans gætu hafa farið fram.

Fundurinn var að auki boðaður með afar skömmum fyrirvara og án vitundar allra bæjarfulltrúa. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins telur hluthafafundinn því eðli málsins samkvæmt ekki lögmætt boðaðan. Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins telur að í ljósi viðkvæmrar stöðu verkefnisins þar sem verkefnastjóri Herjólfs ohf. lét nýverið af störfum, að breytingar á stjórn félagsins líkt og dagskrárefni fundar gerir ráð fyrir sé eingöngu til þess fallnar að tefja verkefnið enn frekar þar sem stjórnarmeðlimir hafa eytt miklum tíma og mikilli orku í framgang verkefnisins.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins lýsir yfir fullkomnu trausti á núverandi stjórn Herjólfs ohf. og telja ótímabært að ráðast í breytingar á henni á þessum viðkvæma tímapunkti í undirbúningi verkefnisins sem gætu að öllum líkindum valdið verkefninu óafturkræfum skaða. 
 

Algild lýðræðisleg hefð að stjórnir, nefndir og ráð á vegum sveitarfélaga og ríkis endurspegli pólitíska niðurstöðu kosninga

Bókun fulltrúa D-lista vekur nokkra furðu því fyrir því er nánast algild lýðræðisleg hefð að stjórnir, nefndir og ráð á vegum sveitarfélaga og ríkis endurspegli pólitíska niðurstöðu kosninga. Þetta gildir líka um stjórnir opinberra hlutafélaga og nægir í því sambandi að nefna Ríkisútvarpið og ISAVIA þar sem kosið er í stjórnir í samræmi við styrk á Alþingi að loknum kosningum. Skipað er í núverandi stjórn Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. í samræmi við þá hefð og skýtur því skökku við að þeir sem það gerðu mótmæli sama vinnulagi nú, segir í bókun Njáls Ragnarssonar frá E-lista og Jónu Sigríði Guðmundsdóttur frá H-lista. 
 

Segir stjórnarkjör á dagskrá boðaðs hluthafafundar í andstöðu við samþykktir félagsins

Í framhaldinu bókaði Trausti Hjaltason um að aðalfundur félagsins kjósi árlega fimm menn í stjórn félagsins og tvo menn í varastjórn skv. 21. gr. samþykkta félagsins. Aðalfundur er haldinn í lok maí árlega skv. 14. gr samþykkta félagsins. Þess vegna er liðurinn stjórnarkjör á dagskrá boðaðs hluthafafundar í andstöðu við samþykktir félagsins. 

Telja engan vafa um að boðað hafi verið til hluthafafundarins með lögmætum hætti

Njáll Ragnarsson og Jóna Sigríður Guðmundsdóttir bókuðu þá. Í bókun þeirra segir að til hluthafafundar hafi verið boðað með tæplega tveggja vikna fyrirvara og var það bæjarstjóri sem fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar heldur á hlutabréfinu, sem óskaði hluthafafundi. Áður en það var gert var leitað til lögmanna bæjarins varðandi boðun til hluthafafundar og eftirfarandi svör fengust frá frá þeim. 

Varðandi boðun til hluthafafundar þá kemur fram í 88. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 að til hluthafafundar sal boða lengst fjórum vikum fyrir fund, sé ekki mælt fyrir umlengri frest í félagssamþykktum og skemmst viku fyrir fund. Þá kemur fram að boða skal til funda með þeim hætti sem félagssamþykktir ákveða. Boðun skuli vera skriflega til allra þeirra hluthafa sem þess hafa óskað og skráðir eru í hlutaskrá. Í þessu tilviki er Vestmannaeyjabær einn hluthafi og hefur ekki gert sérstaka kröfu um skriflega boðun. Almennt eru lögin ófrávíkjanleg. Stjórn boðar til fundarins skv. 87. gr. laganna. 

Í samþykktum kemur fram að boða skuli til aðalfundar (gildir það sama um hluthafafund) með ábyrgðarbréfi, símskeyti eða á annan sannanlegan hátt. Aðalfundi með minnst tveggja vikna fresti en hluthafafundi með eigi lengri fresti en 7 sólarhringar. Tel að tölvupóstur eigi að duga sem annan sannanlega hátt og síðan gott að óska eftir staðfestingu um móttöku. Hluthafi myndi staðfesta um móttöku. 

Í ljósi þessa teljum við engan vafa á að boðað var til hluthafafundarins með lögmætum hætti. Að auki var fulltrúa D-lista gert grein fyrir áformum um boðun hluthafafundar með óformlegum hætti áður en til hans var boðað, segir í bókun meirihlutans.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...