Berglind Sigmarsdóttir skrifar:

Við þurfum að hafa hugrekki til þess að horfa fram á við

30.Júlí'18 | 13:51
ferdamenn

Eins og staðan er núna er ferðatímabilið bara um þrír mánuðir af tólf, segir greinarhöfundur. Ljósmynd/TMS

Sagt er að það sé mikilvægt að hafa ekki öll eggin sín í sömu körfu og á meðan störfum hefur fækkað í sjávarútvegi þá fjölgar störfum hratt í ferðaþjónustu hér í Eyjum. Eyjamenn hafa því á undanförnum árum fengið sístækkandi körfu með nýjum eggjum. 

Unga kynslóðin sem áður vann í fiski starfar nú í ferðaþjónustu. Sjávarútvegsbærinn er núna líka ferðamannabær og hefur það fært Eyjamönnum margt gott, atvinnu, fjölbreytt úrval af veitingastöðum og gistiheimilum, blómlegri verslunarrekstur, meiri afþreyingu sem auk sjávarútvegsins hafa skapað mikilvægar tekjur inn í samfélagið.  Það kemur nefnilega ótrúlega á óvart hversu margir starfa við ferðaþjónustu í Eyjum, það eru yfir 40 fyrirtæki rekin af eyjamönnum sem treysta á einhversskonar viðskipti við ferðamenn og ef bara eru teknir 7 veitingastaðir af þessum fyrirtækjum þá starfa þar yfir 150 starfsmenn yfir sumarið, þá eigum við eftir að telja öll hin. Svo þið sjáið að þetta er ekki lítið.

En til þess að geta horft fram á við verðum við að að vera óhrædd við breytingar. ÞÓR og TÝR urðu að ÍBV og þó svo að margir héldu að það myndi skapa heimsendi, þá hefur sú sameining orðið okkur til góðs. Grunnskólinn gerði breytingar og sameinaði unglingabekki öðru megin og yngri bekki hinu megin og fólk grét í örvæntingu við þessar breytingar. Í dag  dytti engum í hug að breyta til baka.  Allir kannast við hræðsluna og lætin við þær breytingar sem þjóðhátíðin okkar hefur tekið í gegnum tíðina sem hefur þó í flestum tilfellum bara verið gerð til að auka öryggi gesta.  Og ekki mátti nýja skipið heita annað en Herjólfur, þó svo að koma skipsins boði nýja tíma. Nýtt nafn á nýju skipi hefði getað verið dauðafæri til að skapa nýja umgjörð og jákvæðara umtal og auðveldað sóknarleikinn í allri markaðassetningu. Nú, þegar á að nýta gamla skipið, erum við þá í staðinn með tvo Herjólfa eins fyndið og það nú hljómar.  Ég held að engu hafi jafn mikið verið bölvað eins og Landeyjahöfn þó svo að hún hafi umbylt svo ótal mörgu til góðs fyrir okkur. Hún er ekki fullkomin, en hver er það og hver segir að við eigum að fá allt fullkomið upp í hendurnar.

Í þessu lífi getur enginn lofað því. Það eina sem fólk getur gert er að gera sitt besta, vinna með það sem er og leggja sitt af mörkum við að gera hlutina betri. Það auðveldasta í heimi er að vera sjálfskipaður sérfræðingur og gagnrýna. Það er ekkert mál að hafa allt á hornum sér og finna að því sem gert er án þess að koma með lausnir eða kynna sér málin til hlítar. Það eina sem þarf er lyklaborð og vont skap. Auðvitað þurfum við öll að geta tekið gagnrýni en mas og þras byggt á misskilningi og vanþekkingu er ekki bara leiðinleg heldur getur líka verið skaðleg.

Á meðan við pössum upp á okkar gildi og hefðir hér í Eyjum þurfum við samt líka að þora að horfa fram á veginn og taka næstu skref, annars er raunverulega hætta á að við sitjum eftir og eyjan okkar verður minnisvarði um blómlega byggð sem var, svo alvarlegt er það. Til þess að ferðaþjónustan nái að blómstra þurfum við öruggar samgöngur alveg eins og hin venjulegi eyjamaður sem þarf að komast á milli á einfaldan og öruggan hátt án hnökra og úrvals þjónustu. Það þarf að vera hægt að bóka sig í skipið fram í tímann og farþegar þurfa að vita hvort þeir eru að fara eða ekki.

Eins og staðan er núna er ferðatímabilið bara um þrír mánuðir af tólf. Hjá okkur er high season og svo no season. Þessu þarf að breyta. Ef ferðaþjónustan á að blómstra gengur ekki að fyrirtæki í ferðþjónustunni séu í tapi meirihlutann af vetrinum og þurfi svo að reyna að ná því upp á þremur mánuðum með blóði svita og tárum. Allur rekstur þafnast einhversskonar jafnvægis ef vel á að ganga.  Með nýju skipi eru að koma nýir tímar. Við vitum ekki nákvæmlega hvernig þeir fara af stað en það eina sem er í boði fyrir okkur er að vera jákvæð, hjálpast að við að láta hlutina ganga, þrýsta á að þjónustan verði framúrskarandi og að hlutirnir verði unnir þannig að þeir séu með heimamenn og gesti okkar í algjörum forgangi.

Við verðum að vanda okkur í allri framsetningu því viðbrögð okkar heimamanna skipta miklu máli upp á ásýnd allra á stöðu mála. Komandi gestir og ferðaþjónustuaðilar sem senda til okkar ferðamenn fylgjast vel með. Ef við erum jákvæð og vinnum vel úr þeim aðstæðum sem koma upp fer þetta allt vel. Við verðum að átta okkur á því að hér er mikilvægt að hafa hugrekki til þess að horfa fram á við því það er mjög mikið í húfi. Það er enginn ferðamaður að fara að leggja sig í koju í gömlu skipi í þrjá tíma til Þorlákshafnar, við verðum að stíga næsta skref. 

Ferðaþjónustan gæti svo auðveldlega orðið gulleggið í gullkörfunni okkar. Við höfum upp á svo ótrúlega margt að bjóða. Stórkostlega náttúrufegurð, vel þekkta gestrisni heimamanna sem er mjög mikilvægur þáttur, fjölbreytt söfn, stórkostlegan golfvöll, góða veitingastaði, fjölbreytta gistimöguleika, spennandi afþreyingu. Ég  gæti endalaust talið áfram. Við eigum svo mikið inni.

Takk kæru Eyjamenn fyrir gestrisni ykkar, það hefur sýnt sig að það viðmót sem ferðamaðurinn fær á þeim stað er hann heimsækir er honum afar mikilvægt.

Verum jákvæð og gerum þetta saman.

 

Berglind Sigmarsdóttir

Formaður ferðamálasamtaka Vestmannaeyja

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.