Íris Róbertsdóttir skrifar:

Að komast leiðar sinnar

29.Júlí'18 | 15:23
herj_akranes

Framtíðarlausnin gæti falist í háhraða fólksflutningaferju sem gengi á móti bílaferjunni, segir bæjarstjóri í grein sinni. Mynd/TMS

Á stærstu ferðahelgum sumarsins hér í Eyjum búum við heimamenn - og raunar gestir okkar líka - við skert ferðafrelsi; umfram það sem við þurfum að þola venjulega. Þetta er ekkert nýtt - svona hefur þetta verið um langt skeið.

Allir þessir skemmtilegu viðburðir sumarsins - Pæjumót, Orkumót, Goslok og núna Íslandsmót í golfi - hafa það í för með sér að fólk ræður ekki nema að litlu leyti för sinni til og frá Eyjum. Þetta gildir auðvitað sérstaklega um þá sem þurfa að hafa bílinn með á ferðlaginu; sem sagt Eyjamenn sjálfa. Og núna er að hefjast alversta vikan að þessu leyti - sjálf Þjóðhátíðarvikan.

Það gefur auga leið að það er ekki hægt að una við þetta til frambúðar. Og hér bjargar nýja ferjan engu. Það verður að búa þannig um hnútana að hægt sé að auka við flutningsgetuna á annasömustu tímum ársins. Í fyrra tókst að fá fólksflutningaferju, sem verið var að prófa í siglingum upp á Skaga, til að taka almesta kúfinn af eftirspurninni á Þjóðhátíðinni. Engu slíku er til að dreifa núna. Á undanförnum vikum hefur verið kannað hvort hægt sé að útvega eitthvert skip á Íslandi sem unnt er að nota í þessu skyni en niðurstaðan er neikvæð.

Framtíðarlausnin gæti falist í háhraða fólksflutningaferju sem gengi á móti bílaferjunni - og vonandi verður hægt að gera tilraunir með slíka ferju sem allra fyrst. Einnig þarf að taka flugið með í reikninginn þegar horft er til heildarlausna á samgöngum við Vestmannaeyjar. En við getum kannski leyft okkur að vera bjartsýn á að þetta horfi til betri vegar strax næsta sumar. Nú liggur fyrir að gamli Herjólfur verður áfram á Íslandi eftir að nýja ferjan kemur - og nú síðast var orðið við óskum okkar um að hann verði staðsettur í Vestmannaeyjahöfn en ekki á Akranesi eins og áformað var.

Við munum auðvitað gera þá sjálfsögðu kröfu að framvegis verði hægt að grípa til gamla Herjólfs til að anna álagstoppum á stærstu ferðahelgum ársins á meðan aðrar lausnir eru ekki fyrir hendi.

Gleðilega Þjóðhátíð!

 

Íris Róbertsdóttir 

Bæjarstjóri 

Má bjóða þér að auglýsa hér?

15.Janúar'18

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Glæný fýlsegg

17.Maí'22

Er kominn með glæný fýlsegg. Upplýsingar í síma 8693499, Georg.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.