Anna Rós Hallgrímsdóttir er nýráðinn skólastjóri GRV

Starfið leggst vel í nýjan skólastjóra

10.Júlí'18 | 11:59
anna_ros_h_sh

Anna Rós Hallgrímsdóttir, skólastjóri GRV.

Anna Rós Hallgrímsdóttir er nú nýkomin heim úr fríi og má segja að hún hafi verið að hlaða batterýin áður en hún tekur við krefjandi starfi sem skólastjóri við Grunnskólann í Vestmannaeyjum. Anna Rós hefur síðustu árin gengt starfi deildarstjóra við skólann. 

Ritstjóri Eyjar.net ræddi við nýráðinn skólastjóra um starfið og hvaða sóknarfæri hún sjái til að gera góðan skóla betri.

„Starfið leggst mjög vel í mig, ég er mjög spennt að takast á við nýjar áskoranir.” Anna Rós segir sóknarfærin innan skólans liggi fyrst og fremst í starfsfólkinu. „Við erum með frábært starfsfólk í öllum störfum. Við erum með vel menntaða kennara í nánast öllum stöðum, sem er ekki alveg gefið eins og skólaumhverfið er í dag.” Hún bendir einnig á að margir kennarar hafi sótt sér frekara nám og hafa verið duglegir í starfsþróun.

Vill sjá íþróttakeppnisskapið meira inn í skólann

„Ef við náum að nýta þessa þekkingu vel, með fjölbreyttum kennsluháttum og náum þannig til nemenda mun það skila sér í góðum árangri. Annað sem ég vil sjá er að metnaður fyrir skólanum sé meiri. Við höfum rætt þetta mikið í skólanum undanfarin ár, það er mikill metnaður fyrir íþróttum í Vestmannaeyjum og foreldrar sýna íþróttaiðkun barna sinna mikinn áhuga sem er frábært. Ég vil sjá þetta meira inn í skólanum, bæði hjá nemendum og foreldrum. Við erum íþróttasamfélag með mikið keppnisskap og ég vil sjá þetta keppnisskap inn í skólann. Að nemendur finni að það er jafngaman að standa sig vel í skóla og í íþróttum og að foreldrar finni það líka, þetta er nefnilega verkefni sem við þurfum að vinna saman, skólinn, heimilið og í raun allt bæjarfélagið.”

Síðan tiltekur nýi skólastjórinn tæknina. „Við þurfum að halda áfram á þeirri braut. Við erum komin vel af stað í þeim málum. Höfum bætt við okkur spjaldtölvum og tölvum og bætt aðstöðuna í Barnaskólanum, en við þurfum að halda áfram, vera á tánum og fylgja þróuninni í þessum málum.

Miklar breytingar á stjórnendateyminu undanfarin ár

Er Anna Rós er spurð útí miklar breytingar á stjórnendateymi skólans uppá síðkastið tekur hún undir það. „Já það hafa verið miklar breytingar á stjórnendateyminu undanfarin ár, í raun síðan að ég byrjaði sem stjórnandi árið 2010.”

Hún segir að í vetur verði miklar breytingar þar sem inn koma margir nýir stjórnendur. „Auðvitað koma alltaf einhverjar áherslubreytingar með nýju fólki, en það verða kannski ekki miklar breytingar til að byrja með því það mun taka tíma að slípa saman nýtt teymi og koma öllum inn í ný störf. Ég sé helst að það verði tækifæri til að fara yfir starfslýsingar og sníða þær að nýju fólki, nú bætist t.d. við deildarstjóri á miðstigi og það þarf að útbúa starfslýsingu fyrir hann. Ég held líka að lykilatriðið sé að einbeita sér að fáum hlutum í einu og gera þá vel.”

Faglegt starf á miðstigi verður markvissara

Aðspurð um þá breytingu að færa 5. bekk yfir í Barnaskólann segir hún að með henni ætti að skapast meiri heild á miðstiginu. „Faglegt starf á miðstigi verður markvissara og það ætti að nást betri yfirsýn yfir nám og kennslu á miðstigi ef allir aldurshópar á miðstigi verða í sömu byggingu. Þ.e. 5.,6. og 7. bekkur. Það eru einnig tækifæri í til að efla faglegt starf á miðstigi og það var lögð áhersla á að með þessari breytingu myndi fylgja staða deildarstjóra miðstigs. Það verður góð breyting því nú verða starfandi deildarstjórar á hverju stigi, sem auðveldar allt utanumhald t.d. varðandi stuðning ofl.”  

Anna Rós vill að lokum þakka fyrir traustið og tækifærið til að taka við þessu starfi. ,,Ég hef mikinn metnað fyrir GRV og trú á nemendum og starfsfólki í skólanum. Ég vil að við séum stolt af skólanum okkar, þá meina ég við öll í Vestmannaeyjum.”

 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.