Lóa Baldvinsdóttir Andersen skrifar:

Ljósmæður, þið eruð okkur afar mikilvægar

3.Júlí'18 | 18:53

Þegar ég eignaðist stelpurnar mínar, það mikilvægasta í mínu lífi, stóðu ljósmæður vaktina fyrir mig og með mér. Já ég segi ljósmæðUR því eldri Drottningin tók sér góða 20 tíma til þess að koma í heiminn og endaði sú veisla í bráðakeisara. 

Að hennar fæðingu komu því að minnsta kosti 5 ljósmæður og án þeirra væri dóttir mín ekki hér og örugglega ekki ég heldur. Eftir fæðingu lá ég inni í 5 daga og fékk sólarhrings ummönnun og gleymum ekki yndislegu ljósmæðrunum sem komu og þjónustuðu okkur þegar heim var komið.

Þegar yngri Drottningin mætti á svæðið fór ég í fyrirfram ákveðin keisaraskurð þannig að í það skiptið kom aðeins ein ljósmóðir að fæðingunni. En sú ljósmóðir kom og náði mér niður úr dramakastinu þegar ég hélt ég væri að deyja því blóðþrýstingurinn féll.

Allar þessar mögnuðu konur þekktu mig ekki neitt. Allar þessar konur gáfu mér allt sem þær áttu þann tíma sem þær eyddu með mér. Þær knúsuðu mig þegar ég var að missa kúlið af hræðslu. Þær héldu fast í hendina mína þegar ég var farin að gráta eftir 15 tíma af hríðum. Þær hvöttu mig áfram þegar mér fannst ég ekki geta meira og þær voru þær fyrstu sem héldu á stúlkunum mínum þegar þær komu í heiminn. Fyrir mér er það svo ofsalega dýrmætt.

Ég man ekki eftir að neinn bankastjóri hafi komið að fæðingu dætra minna. Ég minnist þess ekki að fjármálaráðherra hafi hjálpað eitthvað til þegar ég var skorin keisaraskurði. Ég fékk ekki heimaþjónustu frá forsætisráðherra og ég hringdi pottþétt ekki grátandi í heilbrigðisráðherra nóttina sem litla dóttir mín rauk upp í hita og fékk hitakrampa. Allar þessar aðstæður tækluðu ljósmæður af fagmennsku, hlýju og yfirvegun.

Einhverra hluta vegna eru þessir ráðherrar og stjórar samt á himinháum launum, fá alls kyns styrki og nefndarlaun og eru að minnsta kosti með einn aðstoðarmann hvert. En það er ekki með nokkru móti hægt að veita ljósmæðrum launin sem þær eiga svo innilega skilið.

Ljósmæður eru hjá foreldrum á þeirra mestu hamingjudögum en einnig í þeirra sárustu sorg þegar litlir englar fæðast andvana eða mikið veikir. En ráðamenn sjá sér ekki fært að meta störfin þeirra eins og þær eiga skilið. Ráðamenn koma fram með hroka og segja kröfur ljósmæðra allt of miklar......Þetta eru ekki kröfur, þetta eru þeirra sjálfsögðu réttindi og það minnsta sem hægt er að gera fyrir þessar yndislegu manneskjur sem helga sig því að koma framtíðinni okkar í heiminn.

Ég fyllist vanmátti og fæ óbragð í munninn þegar ráðamenn segja að ljósmæður séu allt of kröfuharðar og verði að hugsa um að hækkun þeirra launa komi af stað óðaverðbólgu........ Í sömu svipan eru ráðamenn að hækka sín laun og peningafólksins um 30-50%...... Við erum ekki fávitar.

Ég stend með ljósmæðrum alla leið og miklu lengra en það. Trúi því ekki fyrr en ég tek á því að þau sem öllu ráða ætli sér virkilega að halda áfram elns og , afsakið orðbragðið(samt ekki), hrokafullir hálfvitar.

 

Baráttukveðjur

Lóa

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.