Viðtal

Opna nýja og glæsilega íbúðagistingu

12.Júní'18 | 06:58
ibud_eldey

Íbúðirnar eru allar rúmgóðar og bjartar. Ljósmyndir/Guðbjörg Guðmannsdóttir

Nú í vikunni opnar ný og glæsileg íbúðargisting í Goðahrauni. Nafnið á fyrirtækinu er Eldey-gisting og eru það hjónin Arndís María Kjartansdóttir og Ómar Steinsson, sem áður höfðu keypt suðurhluta hússins undir aðra starfsemi, sem keyptu norðurhlutann með þeim Ingunni Arnórsdóttur og Svani Gunnsteinssyni undir íbúðargistinguna.

Þau ásamt fjölda iðnarmanna hafa unnið baki brotnu undanfarnar vikur að breytingum á húsnæðinu og er það allt hið glæsilegasta í dag. Ritstjóri Eyjar.net settist niður með þeim Arndísi og Ingunni eftir skoðunarferð um húsið og ræddi við þær um framkvæmdina.

,,Við keyptum húsið síðasta sumar og byrjuðum ekki fyrr en tveimur mánuðum síðar af einhverri alvöru, þar sem við vildum hafa öll leyfi á hreinu áður en byrjað var.” segir Ingunn.

Aðspurðar segja þær að framkvæmdirnar hafi gengið lygilega vel, enda með frábæran mannskap á bakvið okkur.  

Hvað var til þess að þið fóruð í þessa framkvæmdir

Við Ómar áttum hluta hússins fyrir, þar sem við erum með bílaumboð, fasteignasölu, veislusal og hýsum Verðanda, allt í Eldey og draumurinn var alltaf að eignast það allt, þó fjarlægur væri.  Þegar við sáum að húsið var að drabbast niður og  möguleikar væru á að rekstur kæmi hinum megin sem hentaði okkar rekstri engan veginn, þá viðruðum við þessa hugmynd við okkar góðu vini Svan Gunnsteinsson og Ingunni Arnórsdóttur í kaffiboði, enda höfðum við lengi haft þá hugmynd í maganum að henda okkur útí einhverskonar íbúðarrekstur og þá fór boltinn að rúlla.  Það liðu ekki margir dagar þar til við stukkum út í djúpu laugina og keyptum húsnæðið, segir Dísa.

Í húsinu eru 9 íbúðir. 5 tveggja herbergja og svo 4 stúdíóíbúðir. Dísa segist geta ábyrgst að íbúðirnar séu með þeim stærri sem hægt er að fá leigt, allar glænýjar og glæsilegar.  Rúmlega 37 fm2 stærri og eitthvað í kringum 25 fm2 minni.  Öll eru með mjög rúmgóðum baðherbergjum.”  Og sem dæmi má nefna er að við tókum allar hurðir breiðari en tíðkast svo aðgengi yrði sem best fyrir alla. 

Ingunn bætir við að þau geti hýst 28 manns, en svo má vera með börn yngri en 6 ára með sér, t.d. á milli í hjónarúmi. Alls eru þetta 456,3 fm2.

Aðspurðar um hvenær þau muni opna formlega segja þær að opnunardagur sé í dag, þann 11.06.2018, því þá komu öll leyfi í hús og hægt var að flagga fána Eldeyjar.   

Afhverju Eldey gisting? 

Ég valdi nafnið á okkar fyrsta fyrirtæki  sem og lógóið og taldi þau hjón á að hafa það bara á öllu, en með mismunandi seinna nafni.  Það er ósk okkar að Eldeyjarnafnið festist í sessi fyrir þetta hús, í stað Kjarvals, Goðahrauns eða Kaupfélagsins eins og áður var. Eldey tengist líka við Heimaey og eyjunum hérna í kring, þetta er næsta eyja hérna sunnan við Vestmannaeyjarklasann og að auki fannst okkur Eldey vera mjög lýsandi nafn fyrir eyjuna okkar sem byggðist upp af eldi þegar við völdum það í upphafi, svo er það bara fallegt og enn mikilvægara er að það er fallegt að skrifa það, sjáðu til allt hefur þetta dýpri og merkilegri merkingu en fólk gerir sér grein fyrir, segir Dísa.

Nöfnin á herbergjum eru eftir eyjunum í kringum Heimaey – afhverju var það fyrir valinu? 

Til að tengjast Eldey og eyja nafninu.  Einnig er ég algjör íslenskuaðdáandi og kom ekkert annað til greina en að þetta væri allt á íslensku.  

Þegar þær eru spurðar útí stöðuna á gistimöguleikum í Eyjum segja þær að þeim hafi fundist vöntun á stærri íbúðum sem gætu hýst fjölskyldur og þá vantar mjög oft rúmgóð herbergi.

,,Svo fannst okkur einnig frábært hvar húsið er staðsett, á allt öðrum stað en vanalegt er. Náttúran allt í kring, golfvöllurinn í 3. mínútuna göngufjarlægð, fótboltavellirnir og íþróttahúsið með sundlauginni innan seilingar, þetta er friðsælt og fallegt allt hérna í kring.” segir Ingunn.

Aðspurðar um hvar sé hægt að bóka hjá þeim gistingu segja þær að Eldey Gisting sé á booking.com, svo er einnig hægt að senda okkur póst á facebook eða hringja í 624-1616.

Er mikið bókað hjá ykkur í sumar? 

Já, það er búið að bóka töluvert, aðallega í kringum stærstu viðburðina en það er enn fullt laust, þannig að það er um að gera að hafa samband og skella sér til eyja með fjölskylduna eða vinina í smá frí og njóta nátturunnar, frábærra veitingastaða, skella sér í golf eða bara hafa það notalegt í nokkra daga.    

,,Við erum ótrúlega bjartsýn á framtíðina og erum stolt og ánægð með að hafa drifið í þessu. Auðvitað eru fullt af hindrunum sem munu mæta okkur en við höfum trú á Vestmannaeyjum og þeim möguleikum sem búa í ferðaþjónustunni hérna.   Við gætum ekki verið ánægðari með húsnæðið og hvernig til tókst, við vonum bara að fólk taki vel á móti þessari nýjung og prófi að gista hjá okkur.”

Hér að neðan má sjá fleiri myndir frá íbúðunum. Auk þess eru nokkrar myndir frá því í upphafi, þegar framkvæmdir voru að hefjast. (Smelltu á myndir til að sjá þær stærri). Hér má sjá fleiri myndir.

Þess má geta að það verður opið hús fyrir almenning í Eldey frá kl.11-12 næstkomandi laugardag.  ATH - breyttur tími.

 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.