Fréttatilkynning frá stjórn Herjólfs ohf.

Gunnar Karl ráðinn í stöðu verkefnastjóra

- verða ekki við beiðni fjölmiðla um nafnbirtingu umsækjenda í störf yfirvélstjóra og skipstjóra á Herjólfi

12.Júní'18 | 18:38
gunnar_karl

Gunnar Karl Guðmundsson

Gunnar Karl Guðmundsson hefur verið ráðinn í stöðu verkefnastjóra/framkvæmdastjóra hjá Herjólfi ohf. Gunnar býr yfir mikilli reynslu úr íslensku atvinnulífi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn Herjólfs ohf. 

Þá segir í tilkynningunni að stjórnin lýsi yfir mikilli ánægju með að hafa fengið Gunnar til starfans, en Capacent hafði milligöngu um ráðninguna. Um er að ræða tímabundna ráðningu sem gildir til 31. október nk. Gunnari er fyrst og fremst ætlað að leiða það starf að undirbúa komu nýju ferjunnar og yfirtöku félagsins á rekstri ferjusiglinga milli lands og Eyja.

Sjá einnig: Gunnar Karl nýr verkefnastjóri Herjólfs ohf.

Áætlað er að nýja ferjan hefji siglingar um miðjan október, þ.e. ef allt gengur að óskum. Stjórn Herjólfs ohf. hefur ákveðið að auglýsa opinberlega starf framkvæmdastjóra félagsins í júlí nk., með það að leiðarljósi að sá og/eða sú sem yrði ráðinn/n geti losað sig tímanlega úr sínu fyrra starfi eftir atvikum og tekið við starfi framkvæmdastjóra félagsins eigi síðar en 1. nóvember nk. Stjórn Herjólfs ohf. hefur þegar auglýst eftir skipstjóra og yfirvélstjóra á hið nýja skip. Er það gert svo þeir sem ráðnir verða geti fengið undirbúningsþjálfun og verið til taks við móttöku skipsins.

Umsóknarfrestur um störfin er liðinn. Þar sem fjölmiðlar hafa óskað eftir því að fá uppgefin nöfn þeirra sem sótt hafa um störfin, vill stjórn Herjólfs ohf. taka fram að almennt er sú regla við lýði að birta ekki nöfn einstakra umsækjenda í störf. Er það ekki síst gert af tillitssemi við umsækjendur sem oft eru í öðru starfi þegar að þeir sækja um. Það að trúnaður gildi um starfsumsóknir er ein af grunnforsendum þess að fá marga einstaklinga til að sækja um.

Stjórn Herjólfs ohf. hefur í þessu ljósi tekið ákvörðun um að verða ekki við beiðni fjölmiðla um nafnbirtingu umsækjenda í störf yfirvélstjóra og skipstjóra á Herjólfi. Þar sem væntanlegir starfsmenn félagsins eru ekki opinberir starfsmenn í skilningi laga nr. 70/1996, á nafnabirting umsækjenda ekki við í þessu tilfelli. Af þeirri ástæðu hefur félagið ákveðið að fylgja þeirri meginreglu sem gildir um að birta ekki nöfn umsækjenda og halda þannig trúnaði við umsækjendur um umrædd störf, enda hafa þeir sent inn sínar umsóknir í þeirri trú að um þær myndi ríkja trúnaður.

Capacent mun svo hafa umsjón með því að vinna frekar úr þeim umsóknum sem hafa borist um umrædd störf, segir enn fremur í tilkynningunni sem Grímur Gíslason stjórnarformaður Herjólfs ohf. skrifar undir.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.