Arnar Hjaltalín skrifar:

Besti árangur allra lífeyrissjóða á Íslandi árið 2017

25.Maí'18 | 17:00

Lífeyrissjóður Vestmannaeyja hefur það eina hlutverk að varðveita sjóði eigenda hans og ávaxta þá til að greiða þeim sömu eigendum lífeyri. Sá lífeyrir er margvíslegur og til allrar lukku er það aðallega ellilífeyrir, því lífslíkur okkar eru orðnar það miklar. 

Einnig er stór þáttur örorkulífeyrir og aðrar lífeyrisgreiðslur eins og t.d. maka- og barnalífeyrir.

Á árinu 2017 greiddu 2.205 sjóðfélagar iðgjöld til sjóðsins alls  kr. 1.397.000.000 eða um 1,4 milljarða króna. En á sama tíma voru útgreiðslur lífeyris kr. 1,548.000.000 og hækkuðu um 5,8% frá fyrra ári.  Lífeyrisþegar voru alls 1.679, mest ellilífeyrisþegar. Sem þýðir að sjóðurinn er orðinn fullþroskaður og farinn að greiða meira út í lífeyri en sem nemur iðgjöldum. Og allur útgreiddur lífeyrir er sem betur fer tryggður með verðtryggingu.

Undanfarin misseri hefur stórt skref verið stigið í átt að jöfnun lífeyrisréttinda milli almenna vinnumarkaðarins og þess opinbera. Í kjarasamningi aðila almenna vinnumarkaðarins hækkaði iðgjald atvinnurekenda í lífeyrissjóði fyrst um 0,5% 1. júlí 2016 og um 1,5% 1. júlí 2017. 1. júlí n.k. hækkar mótframlag atvinnurekenda um 1,5% og verður þá samanlagt 11,5% að viðbættu 4% framlagi launþega sem verður áfram óbreytt eða alls 15,5%. Hækkunin á þó ekki við um alla kjarasamninga, sem dæmi er mótframlagið óbreytt hjá sjómönnum eða 8%. 

Mikið og strangt eftirlit er með starfsemi og fjárfestingum sjóðsins. Þar standa daglega vaktina framkvæmdastjóri og tveir starfsmenn. Eitt endurskoðunarfyrirtæki sér um ytri endurskoðun, endurskoðar sjóðinn og gerir ársreikning ásamt því að skoða reglulega ýmsa þætti er snúa að rekstrinum. Annað endurskoðunarfyrirtæki sér um innri endurskoðun og fer yfir verkferla og öryggismál eins og persónuvernd og ýmsa aðra þætti.

Endurskoðunarnefnd er starfandi í sjóðnum og fer yfir starfsemi og verklag það sem er viðhaft innan sjóðsins. Greiningarfyrirtæki fer nokkrum sinnum á ári yfir áhættuþætti í innra og ytra umhverfi sjóðsins og skilar skýrslu þar um. Seðlabanki Íslands og sérstaklega Fjármálaeftirlitið fylgist náið með starfseminni, fer reglulega yfir svo dæmi sé tekið fjárfestingar miðað við fjárfestingarstefnu, störf og fundargerðir stjórnar og láta sér ekkert er snýr að rekstri sjóðsins vera sér óviðkomandi. Þar að auki fer tryggingastærðfræðingur yfir skuldbindingar sjóðsins og hvort sjóðurinn geti staðið við þær greiðslur sem hann er að lofa.

En fyrst og fremst er það stjórn sjóðsins sem ber ábyrgð á rekstri hans, að allar fjárfestingar og rekstur uppfylli lög, reglur og samþykktir. Auk siðferðislegrar ábyrgðar þá bera stjórnarmenn persónulega fjárhagslega ábyrgð misfarist eitthvað, og ef ekki hafi verið farið eftir lögum og reglum í ákvörðunum hennar varðandi sjóðinn. Þannig er hægt að fullyrða að rekstur og eftirlit með sjóðnum er eins og best gerist hér á landi.

Lífeyrissjóður Vestmannaeyja er langtímafjárfestir og horfir til þess við stýringu á fjárfestingum sínum.  Horft er til þeirra kjara sem eru í boði hverju sinni að teknu tilliti til áhættu. Sjóðurinn hefur sérstaka áhættustefnu samkvæmt lögum, sem er varfærin og hefur skilað sjóðnum árangri til lengri tíma litið. Á þann máta eru hagsmunir sjóðfélaga Lífeyrissjóðsins best tryggðir. Sjóðurinn er einn örfárra lífeyrissjóða sem ekki skerti réttindi lífeyrisþega eftir hrun og erum við stjórnin og starfsmenn stolt af því.

Rekstur sjóðsins gekk vel á síðasta ári, árangur mældur í raunávöxtun er um 6,3%, nafnávöxtun um 8,2%. Jákvæð afkoma var af öllum flokkum verðbréfa þó mest í erlendum framtaks- og hlutabréfasjóðum og það þrátt fyrir umtalsverða styrkingu íslensku krónunnar.

Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 5 ára er 4,84% og síðustu 10 ára 2,3%, þar vega hrunárið og árin á eftir þungt. 

Hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris nam alls kr. 49.400.000.000 eða  49,4 milljörðum í árslok. Á árinu hækkaði eignin um rúmar kr. 3.600.000.000 eða 3,6 milljarða sem gerir 8% hækkun.

Af fjárfestingum sjóðsins voru 63% í íslenskum krónum og 37% í erlendum gjaldmiðlum. Gengi íslensku krónunnar styrktist árið 2017 um 0,73% gagnvart erlendum gjaldmiðlum en um 7,45% gagnvart bandarískum dollar og hafa erlendar eignir reynst sjóðnum hvað best til lengri tíma litið.

Sem betur fer eru ævilíkur þjóðarinnar að aukast og heilsufar almennt að batna, sem er mjög jákvæð þróun. Á móti kemur krefjandi verkefni að tryggja viðunandi lífsafkomu fólks á efri árum þar sem fólk lifir lengur en heildarlífeyrisréttur eykst ekki að sama skapi að óbreyttu. 

Lífeyrissjóður Vestmanneyja, stjórn hans og starfsfólk horfir til þessa krefjandi verkefnis í framtíðinni, bæði hækkun á lífeyrisaldri sem og hækkunar iðgjalda. Góður árangur er aldrei sjálfgefinn og á sér ekki stað nema fyrir góða frammistöðu stjórnenda og starfsmanna.

Þrátt fyrir að Lífeyrissjóðurinn sé í hópi minni lífeyrissjóða á Íslandi þá stendur hann framar flestum öðrum sjóðum í lágri hlutdeild rekstrarkostnaðar og það sem athyglisvert er, að sjóðurinn var með bestu ávöxtun allra lífeyrissjóða á Íslandi á síðasta ári.

 

Arnar Hjaltalín

Formaður stjórnar Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja 2017 -2018

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).