Rýnt í nýjan rekstrarsamning Herjólfs

- Vestmannaeyjabær tekur við rekstri nýrrar ferju í haust að öllu óbreyttu

21.Maí'18 | 11:26
herjolfur_nyr_cr_sa_c

Stefnt er á að nýja ferjan verði farin að ganga á milli lands og Eyja í október á þessu ári. Mynd/Crist S.A

Í nýgerðum þjónustusamningi Vestmannaeyjabæjar og Vegagerðarinnar um rekstur nýrrar Vestmannaeyjaferju kemur fram að samningurinn sé gerður við sveitarfélagið, sem er óheimilt að framselja hann. Gerður er staðlaður þurrleigusamningur milli Vegagerðar sem eiganda og Vestmannaeyjabæjar sem leigutaka. 

Í grein 2.8 í samningnum segir að sveitarfélaginu sé heimilt að stofna opinbert félag um reksturinn sem yfirtaki skuldbindingar félagsins samkvæmt samningi þessu. Leigutaki skal þó ætíð vera endanlega ábyrgur fyrir öllum skyldum og kvöðum leigutaka í samningi. Ábyrgðin stoppar því ekki við ohf. heldur er sveitarfélagið ábyrgt, en Vestmannaeyjabær leggur nýstofnuðu hlutafélagi til 150 milljón króna stofnfé.

Fram kemur að sveitarfélagið taki við skipinu út í Póllandi og sér sveitarfélagið um mönnun skipsins ásamt því að annast alla þjálfun, fræðslu og öryggismál áhafnar. Þá kemur fram að ríkið þurfi að samþykkja breytingar á þjónustu og gjaldskrá og getur látið framkvæma úttekt á bókhaldi.

Siglt verður alla daga ársins samkvæmt nýja samningnum, en í dag er siglt alla daga ef jóladagur er frátalinn. Í fundargerð bæjarráðs Vestmannaeyja, frá 26. september 2017 var gert ráð fyrir allt að 8 ferðum í sumaráætlun og 6 í vetraráætlun. Í samningi þessum er gert ráð fyrir 5-7 ferðum yfir daginn í þrískiptum áætlunum, þ.e. vetraráætlun, sumaráætlun 1 og sumaráætlun 2. 3-4 ferðir verði farnar á hátíðadögum og óbreyttar 2 ferðir á dag þegar siglt er í Þorlákshöfn.

Farþegafjöldi

Það vekur athygli að í spá farþegafjölda er spáð aðeins 1,6% aukning á fyrsta heila ári samningsins. Með útboðsgögnum árið 2016 setti Vestmannaeyjabær fram spá sem gerði ráð fyrir 40% aukningu á fyrsta ári, líkt og neðangreind tafla sýnir. Hvað varð um þessa 40 % aukningu? Er nú verið að spá færri farþegum vegna samdráttar í ferðaiðnaðinum eða eru aðilar tvístíga um að skipið ráði við aukningu í fjölda farþega. Engar skýringar hafa verið gefnar á þessum mun frá fyrri farþegaspá, eftir því sem heimildir Eyjar.net herma.

Mönnun

Í samningnum er gert ráð fyrir 9 manna áhöfn og 3 vöktum. Í dag er mönnun skipsins stighækkandi þegar siglt er í Landeyjahöfn, þ.e. án farþega 7, 1-288 farþegar þarf  9 manna áhöfn, 356 farþegar skal vera 11 manna áhöfn og 390 farþegar þarf 12 manna áhöfn.

Til Þorlákshafnar, þarf 7 manns ef engir farþegar eru um borð, en alltaf 12 manna áhöfn til Þorlákshafnar, ef farþegar eru um borð - óháð fjölda farþega. Starfsmannafjöldi hjá gamla Herjólfi réðist meira af fjölda farþega og þurfti þá að bæta við mannskap vegna öryggiskrafna. Því er eðlilegt að spyrja hvort það eigi ekki við lengur?

 

Gert ráð fyrir 131 degi í frátafir til Landeyjahafnar á næsta ári

Í samningnum er gert ráð fyrir 17% frátöfum í siglingum til Landeyjahafnar og árið 2019 alls 71 dagar + 60 dagar það árið vegna þess að vinnu við Landeyjahöfn verður ekki lokið þ.e. gert ráð fyrir að frátafir árið 2019 verði alls 131 dagur þar sem gert er ráð fyrir því að sigla til Þorlákshafnar. Kostnaður árið 2019 vegna þessara auka 60 daga er 50 mkr. Í frétt RÚV frá október 2014 er talið að um 10 daga á ári verði höfnin ófær fyrir skipið. Upplýsingar um forsendur fyrir áætluðum frátöfum kemur fram að í 3,5m kenniöldu þarf vatnsdýpið að vera 6,0m í hafnarmynni en 6,5m á rifi við sömu aðstæður til að ferðir falli ekki niður. Vestmannaeyjabær ábyrgist að sá aðili sem stjórnar skipinu hverju sinni þekki til ákvæða tryggingasamnings.

Leigutaki skal útvega skip ef fjarvera er lengur en nokkra daga. Leigutaki ber allan kostnað.

Mæla á ánægju með reglulegum þjónustukönnunum

Sveitarfélagið skal bregðast við með fullnægjandi hætti og gera viðeigandi útbætur innan eðlilegra tímamarka komi fram athugasemdir um frávik í úttektarskýrslum. Mælikvarðar sem eru lagðir til grundvallar við eftirlit með starfseminni er að a.m.k. 70% farþega séu ánægð með ferðatíðni og þjónustu sem verið er að veita.

Um borð í skipinu skal sveitarfélag veita þjónustu við farþega á siglingaleið til og frá Vestmannaeyjum og Landeyjahöfn/Þorlákshöfn, þ.e.a.s. veitingar og þess háttar, gegn eðlilegu gjaldi sem farþegi greiðir. Allur slíkur rekstur skal vera í umsjá sveitarfélagsins og án skuldbindinga fyrir ríkið á nokkurn hátt.

 

Það sem ekki er minnst á í samningnum

Samkvæmt lið 3.3. í samningnum er sveitarfélagið að fullu ábyrgt fyrir rekstri skips og alls þess sem til þarf við þjónustu samkvæmt samningi. Ekkert er minnst á breytingar á bókunarkerfi, bryggju t.d. innrukkunarhlið o.fl. Ekkert er minnst á staðsetningu á núverandi skipi og hvort það verði til taks samhliða nýju skipi og þá með hvaða fyrirvara. Ekkert er sagt til um að ríkið taki þátt í nýju bókunarkerfi sem kostar samkvæmt heimildum Eyjar.net tugi milljóna króna. Þá hlýtur það að vera krafa íbúa - að bókhald ferjurekstur félags Vestmannaeyjabæjar verði opið.

 

Fjórir mánuðir til stefnu

Í samningnum segir að verði hagnaður af siglingum ferjunnar, skuli honum varið í þágu þjónustunnar en þó verður það alltaf ákvörðun ríkisins að fengnum tillögum frá sveitarfélaginu. Leiði hins vegar aukin þjónusta til kostnaðar umfram fjárheimildir ár hvert ber sveitarfélagið þann kostnað. Í grein 4.1.2 segir jafnframt „Sveitarfélaginu er heimilt að auka þjónustuna verði svigrúm til þess í rekstri ferjusiglinga. Leiði aukin þjónusta til kostnaðar umfram fjárheimildir ár hvert ber sveitarfélagið þann kostnað. Ekkert er hins vegar í samningum sem segir hvernig skuli bregðast við verði tap af rekstri ferjunnar. Athygli vekur einnig að í lið 2.6 kemur fram að sveitarfélagið á ekki kröfu á ríkissjóð eða rétt á bótum þótt framlag til samningsins verði lækkað eða fellt niður.

Ef áætlun skipasmíðastöðvarinnar gengur eftir fær íslenska ríkið skipið afhent eftir einungis rúma fjóra mánuði. Þá tekur Vestmannaeyjabær við rekstrinum og mun að óbreyttu reka ferjuna næstu tvö árin að lágmarki.

 

Vegagerðin búin að skrifa undir – beðið er undirskriftar Vestmannaeyjabæjar

Vegagerðin hefur þegar skrifað undir samninginn sem Eyjar.net hefur undir höndum. Vestmannaeyjabær á enn eftir að skrifa undir og má vænta þess að það gerist í þessari viku. Það bíða Vestmannaeyjabæ, nýrrar bæjarstjórnar og nýstofnuðu félagi mikil verkefni á næstu vikum því eins og áður segir eru ekki nema um fjórir mánuðir þar til gert er ráð fyrir að nýja ferjan verði afhent ríki og bæ.

 

Meðal verkefna sem bíða, til að uppfylla samninginn, lög og reglugerðir eru:

  1. Sveitarfélagið skuli uppfylla kröfur siglingaverndar.
  2. Sveitarfélagið skal skila ársáætlun til ríkisins fyrir 15. október ár hvert sem tekur á mönnun, rekstri, farþegaspám o.s frv
  3. Ráða rekstrarstjóra Herjólfs og manna starfstöðvar í Landeyjum, Þorlákshöfn og í Eyjum. 
  4. Vinna við að bjóða út tryggingar. 
  5. Vinna við nýja samninga varðandi þau verkalýðsfélög sem standa á bakvið starfsmenn s.s Sjómannafélagið vegna breyttrar vinnutilhögunar og vaktafyrirkomulags.
  6. Vinna við útboð á olíusamningi. 
  7. Vinna við að semja við áhöfn og tryggja að áhöfn hafi öll tilskilin réttindi umfram þau tilskildu sem fylgja þeirra starfi. 
  8. Það er opið ákvæði um að Eyjamenn geti ráðið undirverktaka til að sinna þjónustu ef ríkið samþykkir. 
  9. Ekkert er fjallað um meðferð vöruflutningavagna og hver beri ábyrgð á að taka á móti vögnum eða setja í skip. 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).