Arndís Bára Ingimarsdóttir skrifar:

Vönduð stjórnsýsla?

18.Maí'18 | 18:59

Loforð um vandaða stjórnsýslu hljóma vel í eyrum kjósenda í aðdraganda kosninga. Kjósendur vilja að lýðræðislega kosnir fulltrúar þeirra vandi til verka og fari eftir lögum og reglum við framkvæmd og ákvörðunartöku innan stjórnsýslunnar með hagsmuni samfélagsins í heild að leiðarljósi sem er auðvitað lykillinn að hinni vönduðu stjórnsýslu.

Loforð um vandaða stjórnsýslu missa hins vegar marks þegar þau eru andstæð lögum og reglum.

Hið nýja framboð H-listans hefur nú lofað, fái það til þess umboð bæjarbúa, að oddviti þeirra muni segja sig frá því umboðinu sínu sem hún sækist nú eftir sem bæjarfulltrúi og taka að sér launað starf sem bæjarstjóri. Sem lögfræðingur og áhugamanneskja um vandaða stjórnsýslu þykir mér skjóta hér skökku við enda sveitarstjórnarlögin skýr hvað þetta varðar, en þar kemur fram að:

„Sveitarstjórnarmanni ber skylda til að taka þátt í öllum sveitarstjórnarfundum og fundum í nefndum og ráðum sem hann hefur verið kjörinn til nema lögmæt forföll hamli.“

Í frumvarpi því sem síðar varð að lögunum segir einnig um þetta að:

„Þessi starfsskylda er grundvöllur að tilvist og skipulagi sveitarstjórnarstigsins. Þegar einstaklingur hefur verið kjörinn til að gegna stöðu sveitarstjórnarmanns er það hans borgaralega skylda að gegna því starfi af alúð og samviskusemi. Frá þeirri skyldu getur hann ekki vikist nema á grundvelli eðlilegra og réttmætra ástæðna.“

Telji einhver að fara megi frjálslega með það hvað teljist „lögmæt forföll“ í skilningi laganna er það á misskilingi byggt en um það segir í frumvarpinu:

„Mikilvægt er af tilliti til festu í störfum sveitarfélaganna að þeir sem kjörnir eru í sveitarstjórn geti ekki vikið úr þeim af geðþóttaástæðum einum.“

Segja má að sveitarstjórnarlögin leggi grunninn að vandaðri stjórnsýslu sveitarfélaganna og kosningaloforð sem eru andstæð lögunum geta ekki boðað vandaða stjórnsýsluhætti út kjörtímabilið. Lögin eru skýr hvað þetta varðar hvort sem litið er til bókstafs laganna sjálfra, frumvarpsins sem síðar varð að lögunum eða anda þeirra almennt. Lýðræðislega kosnir fulltrúar til setu í sveitarstjórn geta ekki vikið úr sæti sínu að ástæðulausu eða eftir atvikum til að taka að sér starf bæjarstjóra.

Umboð kjörinna fulltrúa er sótt til okkar bæjarbúa. Það er ekki persónuleg eign fulltrúanna sem þeir geta ráðstafað að vild með pólitískum gerningum innan framboða sem koma og fara.

Vönduð stjórnsýsla er ekki bara fögur orð og göfugt loforð í kosningabaráttu. Vönduð stjórnsýsla er fyrst og fremst að fara eftir lögum og reglum og sætta sig við að eðli málsins samkvæmt ber öllum sem starfa fyrir sveitarfélagið, hvort sem þeir eru kjörnir til þess eða ekki, að fara eftir og framfylgja lögunum. Það býður því H-listans að breyta kosningaloforði sínu eða halda sig við gefið loforð og sína það í verki að vönduð stjórnsýsla er bara eitthvað sem öðrum stjórnmálaöflum ber að fara eftir.

 

Arndís Bára Ingimarsdóttir, lögfræðingur.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).