Ásmundur Friðriksson skrifar:

Minning: Sigurlás Þorleifsson

5.Maí'18 | 07:25

Sigurlás Þorleifsson var Týrari í húð og hár, sonur Öllu Óskars pípó og Lilla á Reynistað sem voru eðal Týrarar. Hann fæddur Týrari og bar nafn sigurvegarans. Lási var því afkomandi afreksíþróttamanna sem voru holdi klæddir grænum Týsbúningi með grænt blóð í æðum. 

Föðurfrændurnir, Lautarpeyjarnir á Reynistað, Eggó, Helgi og Geir Sigurlássynir og föðurfrændurnir Dolli pípó, Óli og Örn Óskarssynir og Kári bróðir hans, allt frábærir knattspyrnumenn á sínum tíma.

Þegar við ólumst upp skiptist samfélagið í Eyjum í Týrara og Þórara, í grænt og blátt. Týspúka á tunnubotni eða Þórspúka á tunnubotni, allt eftir því hverjum menn tilheyrðu. Lási var leiðtogi Týrara á vellinum, yfirburðarmaður upp alla flokka, fyrirliði sem leiddi sína menn til margra sætra sigra. Oft máttum við Þórarar lúta í gras fyrir sprækum Týrurum leiddum af Lása, einum besta knattspyrnumanni Eyjanna fyrr og síðar.

Leiðir okkar lágu saman í ÍBV þegar við fögnuðum Íslandsmeistaratitli í 2.flokki árið 1975. Lási náði alla leið, lék landsleiki fyrir hönd Íslands, spilaði sem atvinnumaður í Svíþjóð og seinna var hann virtur þjálfari. Þegar við Þórarar vorum í þjálfaraleit fyrir yngri flokka félagsins datt okkur Friðbirni Valtýssyni að fá Lása í starfið.

Á þeim árum var hitinn á milli Týs og Þórs eins og nýrunnið hraun úr Eldfelli. Félögin nýbúin að byggja hús yfir starfsemi sína og hverjum gat dottið í hug að leita yfir í Týsheimilið eftir þjálfara, það var óðs manns æði. Þær voru því bundnar mesta trúnaði viðræður okkar Bibba við Lása um yfirþjálfarastarfið hjá Þór. Við fórum leynt á fundi og meira að segja veltum fyrir okkur hvernig þessu yrði tekið í fjölskyldu Sigurlásar þegar Týsstjarnan klæddist Þórsgallanum.

Reynistaðafjölskyldan var álíka langt frá bláa litnum á skala litrófsins eins og fjölskylda Bibba frá þeim græna. Lási var alvöru maður, keppnismaður og þjálfari sem sá tækifærið, óhræddur við áskorun sem var samanlagt eins og allar þrettándabombur Týraranna hefðu sprungið í einni bombu. Hann tók starfið og allt skalf, en hann var ekki síður farsæll þjálfari en leikmaður, leiðtogi og síðar skólastjóri sem lærði að lægja öldurnar.

Sigurlás kom mér fyrir sjónir sem hægur maður í sínu daglega lífi, viljasterkur og vel gerður. Lási gat verið kæruleysislegur í fasi, vaggaði aðeins í göngulaginu og leit leiftrandi augum viðmælendur sína, dökkur á brá og brún, viðræðugóður og sagði skoðanir sínar.

Á lokadegi vildi hann standa við orð sín þrátt fyrir að honum gæti liðið betur. Keppnismaðurinn tæki enn eina ferðina á Heimaklett og fylgd foreldrum erlendra nemenda á Hettu til að sýna þeim fegurðina alla, Eyjarnar sem höfðu verið leikvöllur hans alla ævi. Á Heimakletti stóð hann stoltur og þakkaði Eyjunum samleiðina. Sigurlás var á toppi lífs síns þegar hann lagðist í faðm Heimakletts þar sem grasið er grænast og hann tók á móti kalli Drottins.

Lokastund sigurvegarans á hæsta tindi æskustöðvanna var minnst á viðeigandi hátt. Ég votta foreldrum Sigurlásar, Karen, börnum og fjölskyldu samúð.

 

Ásmundur Friðriksson, alþingismaður.

 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.