Helga Jóhanna Harðardóttir skrifar:

Viljum að kennarar fái tækifæri til þess að koma til móts við þarfir allra nemenda

23.Apríl'18 | 12:04
helga_johanna_elisti

Helga Jóhanna Harðardóttir.

Skólamál eru mér ofarlega í huga. Ekki bara vegna þess að ég er grunnskólakennari að mennt og starfa sem slíkur í Grunnskóla Vestmannaeyja, heldur er ég einnig þriggja barna móðir og vil búa á stað þar sem börnin mín fá fyrsta flokks þjónustu.

En er Vestmannaeyjabær að veita skóla- og leikskólabörnum toppþjónustu? Þessari spurningu hef ég velt vel fyrir mér og er á þeirri skoðun að alltaf megi gera betur.

Nú er ég, kennarinn, nýkomin heim af skóladegi Barnaskólans. Þar voru verkefni nemenda til sýnis ásamt fullt af skemmtilegri afþreyingu fyrir fjölskyldur. Ég gekk heim úr vinnunni stolt af verkum nemenda minna og stolt af verkum annarra nemenda í skólanum. Ég fylltist líka stolti að vera minnt á hversu öflugt starfsfólk vinnur við skólann og hversu fjölbreytt og skemmtileg verkefni kennarar eru að leggja fyrir nemendur. Það er jú eitt af því sem við kennarar erum sífellt að keppast við.

Á málefnafundum Eyjalistans í vikunni kom fram að fólk er almennt ánægt með starfsemi grunnskólans og leikskólanna. Taldi það að skólarnir væru að spila vel úr þeim spilum sem þeir hafa á hendi. En hafa skólarnir nógu mörg spil á hendi? Það var spurning sem við veltum fyrir okkur.

Við viljum að kennarar fái tækifæri til þess að koma til móts við þarfir allra nemenda með því að efla stoðkerfið þannig að kennarar geti sinnt kennslu og nemendur fái bestu mögulegu þjónustu sem völ er á.

Af umræðunni á fundinum að dæma þá höfum við áhyggjur af álagi í starfi kennara. Mögulega er álagið meira á kennara þar sem stoðkerfi skólans er ábótavant. Þegar skólarnir voru sameinaðir á sínum tíma var deildarstjórum fækkað úr 5 niður í 2. Grunnskólinn hefur námsráðgjafa í 80% stöðuhlutfalli en staða námsráðgjafa þyrfti að vera 100%. Á þessu skólaári var starfshlutfall skólahjúkrunarfræðings lækkað úr 85% í 75% og deila tveir hjúkrunarfræðingar þeirri stöðu. Þeir þurfa svo að deila tíma sínum í hvoru skólahúsnæði fyrir sig í þessu hlutfalli.

Kallað hefur verið eftir því að ráðinn verði deildarstjóri sérkennslu. Það er mikilvægt að hafa fagaðila innan skólans sem stjórnar og skipuleggur sérkennslu nemenda með náms- og hegðunarörðugleika. Það kæmi til með að létta á því mikla álagi sem er á stjórnendum og umsjónarkennurum skólans. Deildarstjóri sérkennslu kæmi að því að skipuleggja og stjórna framkvæmd nýbúakennslu í skólanum. Við vitum að sá hópur er ört stækkandi í samfélaginu og við þurfum að vinna betur í að koma til móts við þessa íbúa. Þá erum við einnig með hugmyndir um að hafa manneskju í starfi sem sér um móttöku nýbúa í Vestmannaeyjum.

Eitt er víst að stoðkerfið þarf að bæta og hjá Eyjalistanum er mikill hugur í fólki að hella sér að fullum krafti í það verkefni.

Á fundinum var rætt um að spjaldtölvuvæða Grunnskólann. Þetta væri hægt að gera í áföngum og byrja á bekkjarsetti fyrir hvern árgang, einn árgang í einu. Ör þróun hefur átt sér stað í kennslu með spjaldtölvum og við viljum halda í við aðra skóla á landinu hvað þetta varðar.

Ennfremur viljum við skoða þá hugmynd að hafa skólabíl fyrir nemendur yngsta stigs í Hamarsskólanum. Þetta kæmi ekki bara til þess að auka þjónustu við nemendur og foreldra heldur er þetta einnig umhverfisvænn kostur og gæti hjálpað til við að greiða úr því umferðaröngþveiti sem stundum myndast á morgnana við Hamarsskólann.

Við ræddum líka þá hugmynd, sem vel var tekið í, að gefa foreldrum meira svigrúm í vali á sumarlokunum í leikskólanum. Hugmyndin var þá að gera eins og tíðkast í mörgum leikskólum á höfuðborgarsvæðinu. Þá yrði lokað á leikskólanum í tvær vikur og foreldrar gætu svo valið frí fyrir börnin, tvær vikur sitthvoru megin við þessar tvær vikur. Með þessu móti geta foreldra að einhverju leiti stjórnað sjálfir sumarleyfi barnanna sinna. Þá yrði þetta til þess að stærri vinnustaðir í Vestmannaeyjum lendi ekki í því að allt barnafólk þurfi frí á sama tíma.

Hér hafa verið teknar saman nokkrar af mörgum góðum ábendingum og hugmyndum sem hafa komið upp hjá Eyjalistanum. Þetta er alls ekki tæmandi listi en við leggjum mikla áherslu á að byggja undir stoðkerfið með hag allra að leiðarljósi.

 

Helga Jóhanna Harðardóttir  

 

Höfundur skipar 2. sæti á Eyjalistanum í komandi bæjarstjórnarkosningum.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).