Hildur Sólveig Sigurðardóttir, fyrsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins fer yfir áherslur flokksins fyrir komandi kosningar og á næsta kjörtímabili:

„Er þakklát fyrir það traust sem mér er sýnt”

- Sjálfstæðisflokkurinn í Vestmannaeyjum er þegar á botninn er hvolft ekki skilgreindur eftir einstaklingum heldur sameiginlegri stefnu

18.Apríl'18 | 06:52
IMG_1290

Hildur Sólveig Sigurðardóttir.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir skipar fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum í komandi bæjarstjórnarkosningum. Hún svaraði nokkrum spurningum frá ritstjóra Eyjar.net um kosningar og um stöðu flokksins í Eyjum.

Hvernig líst þér á kosningabaráttuna sem framundan er?

Ég er mjög spennt fyrir vikunum framundan. Það er mikill hugur í frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins, gleðin og eftirvæntingin er ríkjandi og andinn er verulega góður. Framboðslisti Sjálfstæðismanna er sterkur, nýtt fólk í bland við reynslubolta og verður virkilega gaman að vinna með þessari öflugu liðsheild sem er tilbúin að taka þátt í baráttunni af lífi og sál.

 

Hvaða málefni telur þú að verði efst á baugi í kosningabaráttunni?

Almennt verður að segjast að samgöngumál og heilbrigðismál eru þeir málaflokkar þar sem skóinn kreppir mest að í Vestmannaeyjum og helsta neikvæða umræðan tengist en þetta eru einmitt þeir málaflokkar sem eru á ábyrgð ríkisvaldsins en ekki bæjarstjórnar. Bæjarstjórn hefur þó vissulega gert tilraunir til að reyna að komast nær ákvörðunartöku í þessum málaflokkum og þannig seilst út fyrir sínar lögbundnu skyldur, m.a. með því að bjóða á sínum tíma heilbrigðisráðuneytinu að gera samning við Vestmannaeyjabæ um rekstur bæði Hraunbúða og sjúkrahússins og hins vegar núna með samningaumleitunum við samgönguráðuneytið varðandi rekstur Herjólfs. Hvað varðar málefni á vegum bæjarfélagsins þá eru amk. samkvæmt skoðanakönnunum sorpmálin sá málaflokkur sem minnst ánægja er með, enda sorpgjöld há og fyrirkomulag í sambandi við sorplosun ekki ásættanlegt þá fyrst og fremst með flutningi sorps með Herjólfi en sökum reglugerðarbreytingar var eldri sorpstöð okkar gerð ónothæf en nú er undirbúningsvinna á lokametrunum við nýja sorpbrennslustöð.

 

Nú er ljóst að framboðin verða þrjú í Eyjum í komandi kosningum. Hvernig líst þér á það?

Mér líst bara vel á það. Það er alltaf ánægjulegt þegar fólk hefur áhuga á að bæta samfélagið sitt og vill leggja lóð sín á vogarskálarnar.

 

Er Sjálfstæðisflokkurinn klofinn í Eyjum, að þínu mati?

Það hafa vissulega verið hoggin skörð í Sjálfstæðisflokkinn á undanförnum vikum sem má að vissu leyti rekja til ákvörðunar um röðun á lista sem að lokum endaði í uppstillingu. Hins vegar voru slíkar ákvarðanir teknar á lýðræðislegum fundum félagsins eins og lög félagsins gera ráð fyrir. Skoðanir einstaklinga innan félagsins geta verið jafn ólíkar og félagarnir eru margir en þær rúmast hins vegar allar innan flokksins. Ef fólk einhverra hluta vegna er ekki tilbúið að una sameiginlegri niðurstöðu þá hefur það alltaf þann kost að leita annað. Sjálfstæðisflokkurinn í Vestmannaeyjum er þegar á botninn er hvolft ekki skilgreindur eftir einstaklingum heldur sameiginlegri stefnu.

 

Nú ert þú í fyrsta sæti listans. Leiðir þú listann?

Ég er þakklát fyrir það traust sem mér er sýnt enda ábyrgðarhlutverk að sitja í efsta sæti. Elliði Vignisson bæjarstjóri óskaði eftir því sjálfur að sitja í 5. sæti listans til að tryggja m.a. að ungir bæjarfulltrúar hefðu möguleika á að sitja áfram og til að tryggja valddreifingu og opinberlega gefa í ljós það traust sem við nýir bæjarfulltrúar höfum fundið fyrir undanfarin ár. Elliði verður áfram oddviti og leiðtogi framboðsins enda bæjarstjóraefni hans.

 

Af hverju ættu kjósendur að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, fremur en aðra flokka?

Reynslan hefur sýnt okkur að á undanförnum kjörtímabilum með Sjálfstæðisflokkinn í meirihluta hefur gengið frábærlega við skuldaniðurgreiðslu lána sveitarfélagsins, þrátt fyrir að þjónusta við bæjarbúa sé á sama tíma að aukast verulega og framkvæmdagleði sveitarfélagsins mikil og allt framkvæmt án þess að taka svo mikið sem eina krónu að láni.  Rekstrarstaða sveitarfélagsins er mörgum öðrum sveitarfélögum öfundsverð. Samstarf hefur jafnframt gengið vel með Eyjalistanum og andrúmsloft innan bæjarstjórnar gott og vinnufriður góður eins og verkin bera með sér. Ekki er það verra þegar tveir reynslumiklir stjórnendur á stórum vinnustöðum gefa kost á sér til starfa fyrir sveitarfélagið líkt og í ár og óska ég þess heitt að Helga Kristín Kolbeinsdóttir og Eyþór Harðarson fái tækifæri til að sitja sem bæjarfulltrúar fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins og komi þannig að stjórnun sveitarfélagsins á næsta kjörtímabili.

 

Viltu koma einhverju á framfæri við bæjarbúa – nú í upphafi kosningabaráttunnar?

Ég hvet íbúa til að eiga í opnum, hreinskiptum og málefnalegum skoðanaskiptum við frambjóðendur. Ég persónulega kann mikið að meta hreinskilni og vill þakklát fá að svara öllum þeim spurningum sem til mín er beint. Það fylgir vissulega stjórnmálaþátttöku að staðreyndir vilja stundum bjagast eða eru teknar úr samhengi eða jafnvel hreinlega hlutir skáldaðir sem enginn fótur er fyrir. Nýjasta dæmið um slíka spurningu sem að mér var beint var hvort bæjarstjórinn væri ekki alltaf búinn að semja allar bókanir og ræður fyrir bæjarfulltrúa og nefndarformenn. Vissulega þótti mér það í fyrstu hrós ef að skrif manns og orð væru nægilega góð til að vera mistekin fyrir orð bæjarstjórans en auðvitað er það leitt þegar fólk telur að sú mikla vinna sem fjölmargir ólíkir einstaklingar hafa lagt á sig sé framlag einhvers annars. Að endingu vil ég óska bæjarbúum öllum innilega til hamingju með allt það frambærilega fólk sem hefur stigið fram og er tilbúið að leggja sitt nafn og vinnu við að gera Vestmannaeyjabæ betri. Ég legg glöð hin mörgu verk Sjálfstæðisflokksins í dóm kjósenda um leið og ég hvet bæjarbúa til að koma að málefnastarfi okkar en það verður í fullum gangi á næstu dögum í Ásgarði. Vestmannaeyjar tilheyra okkur öllum, hjálpumst að við að gera góðan bæ enn betri.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).