Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs:

„Eimskip er ekki aðili að neinni baráttu við bæjarstjórn”

6.Apríl'18 | 10:55
gulli_gr_her

Gunnlaugur Grettisson, rekstarstjóri Herjólfs. Samsett mynd.

Í gær ræddi Eyjar.net við Elliða Vignisson, bæjarstjóra um fund sem bæjarstjórn á með samgönguráðherra eftir hádegi í dag. Í viðtalinu fór bæjarstjóri yfir umræðuna um yfirtöku Vestmannaeyjabæjar á rekstri Herjólfs. Eyjar.net leitaði viðbragða við viðtalinu hjá Gunnlaugi Grettissyni, rekstarstjóra Herjólfs.

„Það er aðeins kómískt þegar aðilar sem sjálfir draga sjaldan eða aldrei af sér í umræðum um menn eða málefni skuli vera svo hörundsárir sem raun ber vitni.” segir Gunnlaugur aðspurður um ummæli bæjarstjóra frá í gær.

Sjá einnig: Funda um rekstur Herjólfs

Útskýrir orð sín um að óvissan sé í boði bæjarstjórnar

„Rétt til að útskýra orð mín um að óvissan sé í boði bæjarstjórnar þá er það að sjálfsögðu vegna þeirrar staðreyndar að ef Vestmannaeyjabær væri ekki á þessari vegferð þá væri fyrir löngu búið að bjóða verkefnið út svo einfalt er það enda aðeins núna 6 mánuðir í komu nýju ferjunnar og mikið verk eftir. Sá sem verkið hefði fengið væri farinn af stað að ráða starfsfólk og þar með væri óvissu starfsmanna eytt þ.e. með ráðningu eða ekki.

Í lok október skrifuðu þáverandi ráðherra samgöngumála og bæjarstjóri undir viljayfirlýsingu og átti viðræðum að vera lokið fyrir 1. des en lítið hefur gerst. Þegar viljayfirlýsingin var undirrituð var starfandi starfsstjórn enda búið að boða til kosninga. Auðvitað höfðu kosningarnar áhrif en þær lágu fyrir þegar yfirlýsingin var undirrituð.

Erfið óvissa starfsmanna snýr að sjálfsögðu að þessari staðreynd en rétt að þakka hlý orð í garð starfsmanna svo sem er það þetta með að vera í orði og á borði en látum það liggja milli hluta.”

Snýst fyrst og fremst um að skilgreina þjónustustigið sem á að veita

Í viðtali við Eyjar.net í gær talaði bæjarstjóri um að verið væri að kenna bæjarstjórn um uppsagnirnar, hverju svarar þú því?

Uppsagnirnar eru því miður eðlilegar hvort sem Eimskip, bærinn eða einhver annar taki við rekstrinum. Ný ferja kallar á breytingar, rætt hefur verið um lengri siglingatíma sem þýðir nýtt vaktakerfi, fleiri ferðir, aðra mönnun ofl. Nýja ferjan á að koma í lok september og núverandi rekstrarsamningur gildir þangað til. Það er því algjörlega eðlilegt en um leið erfitt að fara í þessar uppsagnir, það var gert árið 2012 þrátt fyrir að Eimskip hafi verið með verkefnið fyrir útboðið og fengið það aftur í kjölfar útboðsins.  

Eimskip er ekki aðili að neinni baráttu við bæjarstjórn eins og bæjarstjórinn skrifar. Eimskip hefur aldrei óskað eftir því að fá verkefnið á silfurfati heldur hvatt til útboðs enda sé það hreinlegasta og besta leiðin.

Auðvitað getur bærinn séð um þennan rekstur en ég er sannfærður um að það verður dýrara fyrir Ríkið. Eins og ég hef marg oft áður sagt snýst þetta fyrst og fremst um að skilgreina þjónustustigið sem á að veita. Megin málið er að fjölga ferðum, lengja siglingatímann yfir daginn og lækka gjaldskrá a.m.k.  fyrir stórnotendur. Þegar niðurstaða er kominn um það þá á einfaldlega að bjóða verkið út.

Tæplega 80% vildu íbúakosningu um málið

„Allt tal um að verið sé að framfylgja vilja bæjarbúa með því að bærinn taki við rekstri ferjunnar stenst engan veginn. Í prýðilegri könnun sem Eyjar.net létu MMR vinna í lok síðasta árs vildi minnihluti svarenda að bænum yrði falinn reksturinn og tæplega 80% vildu íbúakosningu um málið enda getur verið um verulega fjárhagsáhættu að ræða fyrir bæinn. Hvar er þessi sterki vilji bæjarbúa í þeirri könnun?

Það er líka sorglegt þegar verið er að vitna í einhverja skýrslu um að almennt sé þjónustan ekki uppá marga fiska. Það má ekki rugla saman þjónustu og þeirri aðstöðu sem við erum að vinna í. Rekstraraðila er sniðinn ákveðinn stakkur til að vinna með sem felst í skipi, tíðni ferða, höfn, veðurfari o.s.frv. og sem rekstraraðili værum við fyrst til að fagna því ef ríkið myndi víkka þjónustusamninginn og veita meira fjármagni til verkefnisins með fleiri ferðum og bættri aðstöðu. Það má ekki rugla saman þessum tveimur þáttum, þ.e. þjónustuframboðinu og hvernig eigi að hátta rekstrinum. 

Það er verulega mikilvægt að umræðan sé málefnanleg enda málið alvarlegt en það þýðir ekki að þeir sem eru ekki sammála bæjarstjórn eða bæjarstjóra séu ómálefnanlegir, nema síður sé.” segir Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstóri Herjólfs.

 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).