Guðrún Jónsdóttir skrifar:

Kosningaréttur ungmenna

24.Mars'18 | 22:09
Gudrun_Jons_litil

Guðrún Jónsdóttir

Umræðan um hvort færa eigi kosningaaldur í sveitarstjórnarkosningum niður í 16 ár er búin að vera nokkuð fyrirferðarmikil undanfarna daga en svo virðist sem þeim íhaldssömustu á þinginu hafi tekist að svæfa málið að sinni.

Ég hef verið mjög hugsi yfir mörgu því sem hefur komið fram í þessari umræðu. Ég tek fram að ég er í sjálfu sér ekki að leggja mat á hvort þetta sé framkvæmanlegt fyrir kosningarnar í vor en bendi þó á að ég er örugglega ekki eini opinberi starfsmaðurinn sem þarf stundum að vinna hratt og örugglega að óvæntum verkefnum. Hvort það að uppfæra kjörskrá á nokkrum vikum sé óyfirstíganlegt á tölvuöld er eitthvað sem hlýtur að vera auðvelt að svara.

Röksemdir þeirra sem voru málinu mótfallnir voru oftast þær að þetta skapi ósamræmi í lagasetningu, það sé ófært að fólk geti kosið án þess að geta boðið sig fram eða stofnað til fjárskuldbindinga, jafnvel var nefnt að það sé ófært að fólk geti kosið án þess að mega drekka áfengi, hversu rökrétt sem sú samlíking er. Kannski rökréttari en liggur í augum uppi í fyrstu?

Sjálfri hefur mér stundum þótt vera ákveðið ósamræmi í ýmis konar lagasetningu sem snýr að börnum og að e.t.v. væri betra að miða bara allt við 18 ára aldurinn. Með aukinni eigin reynslu og þekkingu, m.a. á þroskaferli barna og ungmenna hallast ég hins vegar æ meir að því að börn og ungmenni eigi að fá stigvaxandi aukin réttindi og skyldur en að þeim sé ekki öllum dembt á þau í einu. Við getum ekki búist við því að ungmennin okkar vakni upp á 18 ára afmælisdaginn sinn með fullmótuð viðhorf, skoðanir og siðferði, reiðubúin að takast á við þátttöku í lýðræðissamfélagi, án þess að hafa fengið þjálfun, fræðslu og eftir því sem þau eru tilbúin til, sífellt aukin tækifæri og réttindi.

Ósamræmið er sannanlega til staðar nú þegar og án þess að ég ætli að leggja mat á réttmæti hvers fyrir sig ætla ég að tína hér til nokkur atriði sem sýna fram á það (alls ekki tæmandi upptalning).

1. Meginreglan er að börn sem orðin eru 12 ára má ekki ættleiða án þeirra samþykkis. Almennt hefur 12 ára viðmiðið verið mjög algengt í íslenskum lögum þegar kemur að því að leita álits og samþykkis barna þó vissulega eigi að leita eftir samráði við öll börn þegar kemur að þeirra málefnum, eins og fram kemur m.a. í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
2. Börn sem eru á 14. aldursári taka ákvörðun um hvort þau vilji fermast. Með þessari ákvörðun eru þau að gefa út yfirlýsingu um eigin trúar- og lífsskoðanir, nokkuð sem telst almennt vera mjög persónulegar upplýsingar. Hér í Eyjum a.m.k. er það mjög ljóst hvaða börn trúa á Guð og hver velja að láta ferma sig borgaralega eða alls ekki – því hér eru bornir í hús nafnalistar fyrir fermingarnar. Sem sagt, við ætlumst til þess af 13-14 ára börnum að þau gefi opinbera yfirlýsingu um trúar- og lífsskoðanir sínar en þau mega ekki kjósa í fullkominni nafnleynd og trúnaði um þá fulltrúa sem eiga að stýra bæjarfélaginu – ekki fyrr en 4 árum síðar. 
3. Það má stunda kynlíf með ungmennum sem orðin eru 15 ára (með þeirra samþykki og ákveðnum öðrum siðferðilegum og lagalegum skilyrðum uppfylltum!). 15 ára ungmenni þurfa því að taka yfirvegaða afstöðu í þeim málefnum ef ”tækifæri” gefst – hvort, hvenær, hvernig, með hverjum, notkun getnaðarvarna osfrv. 
4. Einstaklingar hafa sjálfsákvörðunarrétt um eigin læknismeðferð frá 16 ára aldri. T.d. geta 16 ára stúlkur fengið fóstureyðingu án samþykkis eða vitneskju foreldra. En þeim er auðvitað ekki treystandi til að kjósa í sveitarstjórnarkosningum? 
5. Ungmenni eru sakhæf 15 ára. Þau geta fengið dóm fyrir refsivert athæfi. Sem þýðir að þau eiga að hafa þroska og þekkingu til að gera greinarmun á réttu og röngu. Sem hlýtur að teljast góður kostur þegar kemur að því að kjósa fulltrúa sem eiga að stjórna sveitarfélaginu.
6. Börn eru sjálfstæðir aðilar eigin barnaverndarmáls frá 15 ára aldri. Sem þýðir m.a. að þau eru þátttakendur og skrifa undir barnaverndaráætlun í máli þeirra og það má t.d. ekki vista þau utan heimilis án þeirra samþykkis nema með úrskurði barnaverndarnefndar og eftir atvikum dómsúrskurði. 
7. 16 ára ungmenni geta byrjað að læra á bíl. Við treystum þeim fyrir vélknúnu ökutæki ári síðar (og í æfingaakstri allt 17. árið), tæki sem er stórhættulegt bæði lífi þeirra og annarra vegfaranda. En það er auðvitað hættulegra að leyfa þeim að kjósa?
8. Unglingar borga tekjuskatt á við fullorðna frá 16 ára aldri. Og allt frá því þau byrja að vinna eiga þau rétt á að eyða sínu sjálfsaflafé eins og þeim sýnist þó þau geti ekki gert fjárskuldbindingar.
9. Ungmenni sem eru á 16. ári útskrifast úr grunnskóla og þurfa að taka meiriháttar ákvarðanir um líf sitt – náms- og starfsval - á þeim tímapunkti. Þau þurfa að velja sér framhaldsnám – eða taka ákvörðun um að fara á vinnumarkað. Þetta er náttúrulega voða lítilvægt miðað við það hvort þeim sé treystandi inn í kjörklefann?
10. Hverjum þeim sem er orðinn 15 ára er skylt að koma fyrir dóm sem vitni ef þess er krafist. Enn og aftur, þú gætir þurft að bera vitni í sakamáli en þú mátt ekki fara inn í klefann með gardínunni og setja kross á kjörseðil?
11. 15 ára börn mega skrá sig í stjórnmálaflokka og taka þátt í pólitísku starfi. Ef sögusagnir eru réttar þá reynist sumum þeirra jafnvel erfitt að skrá sig úr sumum stjórnmálaflokkum síðar meir. Þau mega sem sagt gerast flokksbundnir stuðningsmenn og jafnvel hálfgerðir starfsmenn einhverra flokka – en mega samt ekki kjósa þann flokk – nú eða eftir atvikum einhvern annan flokk.

Ég held að óttinn við það að kenna ungmennum á lýðræðið og treysta þeim fyrir því hljóti m.a. að stjórnast af lífsseigum fordómum fullorðinna gagnvart unglingum. Ég hef kynnst mjög mörgum unglingum í gegnum tíðina, bæði persónulega og í gengum starf mitt og ég leyfi mér að fullyrða að unglingar séu upp til hópa mjög flottir, klárir og upplýstir einstaklingar. Þau virðast að minnsta kosti mun klárari, kurteisari og víðsýnni en obbinn af þeim (fullorðnu) einstaklingum sem hafa undanfarna daga verið að tjá sig á net- og samskiptamiðlum um þetta mál. Og þau vita miklu meira en ég vissi á þeirra aldri.

Fáránlegustu röksemdirnar í málinu held ég hafi verið eftirfarandi:

Unglingar hafa ekki áhuga
Þeim er ekki treystandi
Þau vita ekki nógu mikið um þetta
Þau eru ekki nógu þroskuð
Þau eru of viðkvæm fyrir þennan ljóta heim stjórnmálanna
Þau myndu kjósa með tilfinningunum en ekki rökhugsun 
Og jafnvel: 
Þau myndu bara kjósa eins og foreldrarnir

Það þarf nefnilega ekki mjög ítarlega heimildavinnu til að sjá að fyrir rúmum hundrað árum voru nákvæmlega sömu rök notuð um annan hóp sem vildi fá kosningarétt – með þeirri undantekningu að í stað orðins ”foreldrarnir” var orðið ”eiginmennirnir” og í stað orðsins ”unglingar” var orðið ”konur”.

 

Guðrún Jónsdóttir

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).