Sólrún Gunnarsdóttir deildarstjóri í málefnum aldraðra skrifar:

Ný álma ætluð einstaklingum með sértækar þarfir opnuð á Hraunbúðum

7.Febrúar'18 | 17:10
solrun_hraunbudir.is

Sólrún Gunnarsdóttir. Ljósmynd/hraunbudir.is

Í gær var vígð ný álma við Hraunbúðir sem ætluð er einstaklingum með sértækar þarfir.  Fjöldi gesta mætti til að vera viðstaddir vígsluna þar sem Elliði Vignisson bæjarstjóri ávarpaði gesti, Séra Viðar Stefánsson blessaði nýja húsnæðið og Sólrún Gunnarsdóttir hélt ræðu.   

Að því loknu stigu í pontu Sigmar Georgsson frá Lions, Edda Ólafsdóttir frá Kvenfélaginu Líkn, Guðný Bjarnadóttir frá Alzheimer stuðningsfélagi, Freyja Stefanía Jónsdóttir eldri borgari og Þór Vilhjálmsson formaður félags eldri borgara. Síðan bauðst gestum að þiggja léttar veitingar og skoða húsnæðið. 

Alls telur nýsmíðin 5 ný herbergi ásamt setustofu og sólstofu. Aðstaðan er öll hin ákjósanlegasta, brautir og lyftarar eru í loftinu sem auðvelda umönnun. Herbergin eru stór og rúmgóð og byggð samkvæmt nýjustu stöðlum. Stefnt er að því þegar fram líða stundir að þarna verði 8 herbergja deild og að eldri herbergi verði gerð upp og tengd við deildina.
 
Við bætum töluvert við mönnun við þessa breytingu þrátt fyrir að við höfum ekki enn fengið leyfi frá ráðuneytinu til að taka inn fleiri einstaklinga. Við bindum þó vonir við að í náinni framtíð fáum við leyfi til þess því þó Vestmannaeyjabær sé rekstraraðili að Hraunbúðum að þá er það ríkið sem ákvarðar fjölda einstaklinga sem má taka inn, leggur fjármagn í starfsemina (þó aldrei nægjanlega mikið) og við verðum að vinna eftir þeim lögum og reglum sem ríkið setur okkur. 

En fyrst og fremst býður þessi nýja álma upp á bætta aðstöðu fyrir heimilisfólk, betri vinnuaðstöðu fyrir starfsfólk og leysir úr þeim herbergjavanda sem fyrir var. Ánægja er með hvernig til hefur tekist en nú hefst vinna við að þróa enn betur innra starf bæði í nýju álmunni og á hjúkrunarheimilinu öllu.

Við viljum í það minnsta gera þetta þetta vel og komum til með að leggja okkur fram við það enda höfum við á að skipa afburðarstarfsfólki sem vinnur að því markmiði alla daga að fólki líði sem best hjá okkur.  Verið er að innleiða umönnunarstefnu sem heitir Namaste sem er í stuttu máli persónuleg vellíðunarmeðferð. Markmiðið með þeirri stefnu er betri líðan, meiri ró og vonandi minni þörf á lyfjanotkun.  Komið verður til með að vinna með tónlist, kærleika og snertingu.
 
Það er svo á heimsmælikvarða hversu ótrúlegum hlýhug og velvilja við höfum mætt frá einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækum hér í bæ fyrir þessu verkefni. Það er greinilegt að fólk í þessu samfélagi er allt af vilja gert til að standa við bakið á eldri kynslóðinni. 
 
Alzheimerfélagið gaf okkur til að mynda allt sem tengist Namaste meðferðinni, ilmolíur og lampa, stól, heyrnartól, hátalara, ipad, teppi ofl. Félagið greiðir svo fyrir sérfræðing sem kemur í lok mánaðarins með fyrirlestra og kennslu í meðferðinni fyrir starfsfólk og fleiri sem málinu tengjast.  Alzheimerfélagið gaf okkur einnig tvö dúkkubörn sem heita Soffía og Benni, ásamt glæsilegum myndum af gömlum kvikmyndastjörnum sem hanga upp á veggjum í nýju álmunni. 

Lionsklúbbur Vestmannaeyja gaf okkur öll raftæki í nýju álmuna s.s ísskáp, eldavél, örbylgjuofn, ofn og öll smærri raftæki sem notuð eru í eldhúsi ásamt nýjum ísskáp inn í býtibúrið. Rebekkustúkan Vilborg gaf okkur hægindastóla til að hafa í sólstofunni ásamt 12 stólum og 3 borðum til að hafa í setustofunni.  Slysavarnarfélagið Eykyndill gaf okkur ný rúm í öll herbergin. Geisli gaf 65 tommu flatskjá með snúningsfestingu.  Volare gaf stóra körfu með margvíslegum kremum og vörum frá þeim. 

Kvenfélagið Líkn styrkir okkur með garð sem búið er að hanna og verður við austurenda hússins og tilbúinn verður næsta sumar. Þar verður sérhönnuð róla, ræktunarbeð, bekkir ofl.  Kvenfélagið hefur gefið garðinum nafnið Hilmarslaut en Hilmar Sigurðsson sem var heimilismaður á Hraunbúðum erfði félagið að talsverðum fjármunum eftir sinn dag.
 
Við erum þessu aðilum öllum óendanlega þakklát fyrir stuðninginn, segir Sólrún Gunnarsdóttir deildarstjóri í málefnum aldraðra í grein á heimasíðu Hraunbúða - hraunbudir.is.

Myndir frá opnuninni má sjá hér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla.