Hildur Sólveig Sigurðardóttir skrifar:

Opinn íbúafundur um framtíðarþróun ferðamála á Suðurlandi

- verður í dag kl. 17.00

1.Febrúar'18 | 07:54
bryggja_folk

Ferðamenn að koma til Eyja. Ljósmynd/TMS

Í dag, fimmtudaginn 1. febrúar kl. 17.00 verður opinn íbúafundur í nýju húsnæði Þekkingaseturs Vestmannaeyja. Þar gefst íbúum og hagaðilum færi á að koma hugleiðingum sínum á framfæri og eiga samtal um ferðaþjónustuna.

Vinna við stefnumótun og framtíðarsýn fyrir ferðaþjónustu á Suðurlandi hefur verið í gangi frá síðasta hausti.

 

Hvað er áfangastaðaáætlun DMP fyrir Suðurland?

Áfangastaðaáætlun DMP (destination management plan) er heildstætt ferli þar sem litið er til skipulags og samhæfingar í þróun og stýringu allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á viðkomandi svæði/áfangastað, þar með talið þarfir gesta, heimamanna, fyrirtækja og umhverfis. Með áfangastaðaáætlun fyrir Suðurland verður til heildræn stefna sem lýtur að ferðaþjónustunni sem atvinnugrein, sveitarfélögum, íbúum, umhverfi sem og samfélaginu í heild seinni.  Þar er m.a. fjallað um kortlagningu á þjónustu á svæðinu, skipulagning á upplýsingaveitu til ferðamanna, forgangsröðun í uppbyggingu áfangastaða, hversu mikinn fjölda getur áfangastaðurinn borið á hverjum tíma, áætlun um tekjuöflun og gjaldtöku, áætlanir á sviði gæða-, umhverfis- og öryggismála osfrv.

 

Hvaða máli skiptir þátttaka í slíkri stefnumótun fyrir Vestmannaeyjar?

Áfangastaðaáætlunin er fyrst og fremst hugsuð til að ná fram heildstæðri stefnu í ferðaþjónustu fyrir svæðið, þannig er með starfinu tengdir saman hagaðilar ferðaþjónustu og raddir þeirra sem þjónustuna snerta fá að heyrast. Með vinnunni er verið að skerpa á því hvar við erum að standa okkur vel, hvað þarf að bæta og hvaða leiðir er hægt að fara til að ná fram þeim markmiðum sem við setjum okkur. Með þessari vinnu er verið að tryggja að svæðin séu að róa í sömu átt, þrátt fyrir að ógnanir og tækifæri svæðanna séu ólík þá verður til aukinn skilningur á sérstöðu svæðanna og með þessari vinnu fá yfirvöld frá einni röddu svart á hvítu hvaða heildrænu stefnu svæðin vilja taka í sameiningu og hvaða þætti þarf að bæta og breyta til að við komumst á réttan kjöl. Niðurstöðurnar munu koma ríki, sveitarfélögum og rekstraraðilum í ferðaþjónustu vel þar sem með vinnunni verður skapaður grundvöllur og væntanlega nokkurs konar leiðarvísir til sóknar í ferðaþjónustu fyrir framtíðina.

 

Ferðaþjónustan eykur lífsgæði íbúa og bætir búsetuskilyrði

Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein í Vestmannaeyjum þrátt fyrir að samgöngumál hafi verið okkur mikill þröskuldur í möguleikum á auknum vexti. Með tilkomu Landeyjahafnar hafa tækifæri fyrir ferðaþjónustufyrirtæki vaxið verulega. Ferðaþjónustan er mikilvæg stoð í okkar samfélagi m.a. þar sem sú þjónusta sem verið er að veita að mörgu leyti ferðamönnum hefur mikil áhrif á lífsgæði heimamanna. T.d. hefur úrval veitingastaða aukist verulega sem við heimamenn fáum að njóta og möguleikum í afþreyingu fjölgar. Lykilatriðið er þó það að ferðaþjónustan hefur í för með sér fjölbreyttara atvinnulíf þar sem atvinnutækifæri verða fleiri og eggjunum í körfunni okkar fjölgar en fjölbreytt atvinnulíf er forsenda blómlegrar byggðar í Vestmannaeyjum til framtíðar og því mikilvægt að hlúa vel að þeim sóknartækifærum sem felast í ferðaþjónustunni.

 

Sóknartækifæri í ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum

Við sjáum fram á spennandi hluti í ferðaþjónustunni og gríðarleg tækifæri m.a. með Beluga hvalaverkefninu sem Merlin entertainment, eitt stærsta nafn í skemmtanaiðnaðinum, er komið á fremsta hlunn með hér í Vestmannaeyjum. Með bættum samgöngum og þá sérstaklega með nýrri ferju sem von er á næsta sumar er það mín einlæg von að ferðaþjónustunni vaxi áfram fiskur um hrygg og við náum að lengja smátt og smátt ferðaþjónustutímabilið og auka stöðugleikann þannig að fyrirtæki í ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum geti miðað rekstur sinn í auknum mæli að heilsársgrundvelli.  

Ef þú ert áhugasöm/-samur um ferðaþjónustu eða málefni þeim tengdum endilega kíktu við kl. 17.00 í nýju húsnæði Þekkingaseturs Vestmannaeyja

 

           Hildur Sólveig Sigurðardóttir  

           Fulltrúi í vinnuhóp um áfangastaðaáætlun DMP á Suðurlandi


 

Vilt þú ná til Eyjamanna?

17.Ágúst'19

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).