Gunnlaugur Grettisson rekstrarstjóri Herjólfs:

Viðgerð á Herjólfi gengur vel

Gunnlaugur ræðir um viðgerðina, reksturinn og nafngift nýrrar ferju í ítarlegu viðtali við ritstjóra Eyjar.net

31.Janúar'18 | 10:49
IMG_4238

Herjólfur er væntanlegur aftur í áætlun á næsta miðvikudag. Ljósmynd/TMS

„Unnið er út frá því að Herjólfur komi aftur í áætlun næsta miðvikudag þ.e. 7. feb. sem er samkvæmt upphaflegu plani. Við vonum að það gangi eftir.” segir Gunnlaugur Grettisson rekstrarstjóri Herjólfs í samtali við Eyjar.net. 

„Okkar vélstjórar og fleiri Eimskipsstarfsmenn svo og MAN sérfræðingar bæði frá Danmörku og íslenskir vinna við verkið í Hafnarfirði.”

Siglingar Bodo hafa einnig gengið mjög vel

Aðspurður segir Gunnlaugur að þau sjái ekki neina sérstaka breytingu á fjölda farþega þegar tvær síðustu vikur eru skoðaðar þ.e. vikan áður en Herjólfur fór úr áætlun og svo þessi fyrstu vika þar sem BODO er hér. Fyrstu tvo dagana voru aðeins færri farþegar en svo hefur þetta verið eins og „eðlilegt“ er á þessum árstíma þ.e. um hávetur.

„Ég hef fullan skilning á umræðunni um skort á kojum og klefum en hef einnig mikinn skilning á stöðu Vegagerðarinnar varðandi afleysingaskip. Ferjur sem geta siglt hér á milli liggja ekki á lausu, hvort heldur sem er til siglinga til Landeyjahafnar eða Þorlákshafnar svo ekki sé talað um ferju sem gerir hvoru tveggja. Farþegafjöldi er nánast sá sami en svo er staðan á bílaþilfarinu mun betri þar sem það er töluvert stærra en bílaþilfarið í Herjólfi.”

Mikilvægast að skilgreina þá þjónustu sem veita á

„Þegar spurt er um stöðuna varðandi rekstur á nýju ferjunni, hvað svo sem hún á að heita, þá er því til að svara að við hjá Eimskip vitum svo sem ekkert um það mál eða hvernig viðræður milli Vestmannaeyjabæjar og Innanríkisráðuneytisins ganga eða hvort þær séu yfir höfuð í gangi. A.m.k hef ég ekki séð að þeim hafi verið slitið formlega.

Væntingar okkar hjá Eimskip snúa að því að því að verkið verði einfaldlega boðið út, það sé besta leiðin fyrir ríkið. Fyrst þarf auðvitað að skilgreina þá þjónustu sem veita á og það er það mikilvægasta, svo þarf að ákveða gjaldskrá og fyrirkomulag afsláttarfargjalda o.s.frv. Út frá því er verkið boðið  út og svo gerður samningur við þann sem býður best. Við samninginn þarf svo auðvitað að standa eins og við hjá Eimskip höfum gert alla tíð ogGunnlaugur Grettisson rúmlega það.

Krafan er að siglt sé meira

„Krafan er að siglt sé meira og því get ég verið sammála en um það þarf að semja. Einn góður sagði við mig um daginn að þetta væri svipað og ef Vestmannaeyjabær gerði samning við bakarí í Eyjum um að kaupa td. 20 rúnstykki á dag fyrir Hraunbúðir en svo kæmi í ljós að þörf væri á 25 rúnstykkjum. Auðvitað þarf að gera samning um það auka 5 rúnstykki, blessaður bakarinn betur ekki tekið tekið það á sig „af því bara“ þ.e. um þetta þarf að semja.” segir Gunnlaugur.

Skilgreina þarf fleiri ferðir í grunnáætlun í útboði

„Á síðasta ári sigldum við 153 aukaferðir í sumaráætlun sem var 100 ferðum fleira en 2016. Alls var aukning farþega 2016 vs 2017 yfir þessa fjóra sumarmánuði þó aðeins 401 farþegi (238.146 farþegar árið 2016 vs 238.547 árið 2017) í 200 leggjum milli Eyja og Landeyjahafnar en viðbótarplássið sem skapaðist með þessum 200 leggjum var um 78.000 sæti. Nú segja einhverjir að þetta eigi ekki að snúast um nýtingu og það er að hluta til rétt en þetta er staðan. En svo það verið ekki misskilið þá tel ég að það eigi að skilgreina fleiri ferðir í grunnáætlun í útboði en verið hefur og ég held að flestir séu því sammála en svo er fólk örugglega með misjafna sýn á hve mikla aukningu.

Varðandi útboð, ef það verður raunin sem ég vona að verði, er mín sýn á það sú að bjóða eigi út 6 ferðir á dag í sumaráætlun og að hún verði lengd um a.m.k 1 mánuð (maí-sept) og svo verði boðnar út 5 ferðir alla daga í vetraráætlun (okt-apr). Einnig þarf að vera inni eitthvað fyrirkomulag varðandi aukaferðir, t.d. sjöundu ferðina að sumri og einnig  möguleiki á fleiri ferðum yfir vetrartíman ef með þarf. Ég tel í raun óþarfi að lengja siglingatímann en kannski er vilji til þess en það gæti líka komið síðar inn á tímabilinu en þörf verður á.”

Hefur miklar væntingar til nýju ferjunnar

„Með tilkomu nýju ferjunnar mun að sögn bílapláss aukast um 17-20 bíla pr. ferð sem eru þá í sumaráætlun um 100-120 bíla aukning á dag til Eyja og það saman frá Eyjum og farþegafjöldi fer í 3.300 pr dag til Eyja (6.600 farþegar á dag til og frá Eyjum) en er í dag 1.950 svo aukningin verður veruleg.

Þegar svo rætt er um nýju ferjuna sem á að koma í haust þá hef ég persónulega miklar væntingar til hennar. Ég held að enginn sé í dag að lofa 12 mánaða stöðugum siglingum til Landeyjahafnar en vonandi ca. 9½ -10 góðum/stöðugum mánuðum þangað og svo verði restin flakk milli hafna en ekki klosslokað í Landeyjahöfn eins og t.d. nú er.” segir Gunnlaugur og heldur áfram:

Báðar Breiðarfjarðarferjurnar áttu mun auðveldara með að sigla til Landeyjahafnar en Herjólfur

„Þegar ég er að spá í möguleika og getu nýju ferjunnar hugsa ég annars vegar um núverandi Herjólf og hins vegar Baldur sem nú siglir á Breiðarfirði og þann sem var þar á undan. Báðar Breiðarfjarðarferjurnar áttu mun auðveldara með að sigla til Landeyjahafnar en Herjólfur. Ýmsar ástæður eru nefndar s.s. skrokklag, djúprista o.fl. en það eru ferjur sem voru smíðaðar um 1980 fyrir allt aðrar aðstæður en hér eru og því segir ég að far í helv… að ferja sem sérhönnuð er árin 2015-2017 fyrir þessar ákveðnu aðstæður og smíðuð 2017-2018 geri ekki mun betur en Baldur karlinn eins góður og hann nú er.

Ég tel að málið hafi verið kominn í ákveðið öngstræti fyrir jól a.m.k eins og hægt var að lesa um það í fjölmiðlum. Við hjá Eimskip höfum ekkert komið að því máli. Það hefur svo sem ekkert enn tapast ja nema tími og hann getur verið dýrmætur. Núna eru skv. því sem ég best veit aðeins 7 mánuðir í komu nýju ferjunnar og sá tími fer hratt sama hvaða leið verður valin þ.e. samið við Vestmannaeyjabæ eða útboð eins og tel réttast að gera, skilgreina þjónustuna ofl. og bjóða út og fá besta verðið en láta verktakann svitna yfir rekstrinum eins og verið hefur.”

Eyjafólk á að fá aðkomu að því að velja nafn

„Og loks nafnið, Eyjafólk á að fá aðkomu að þeirri ákvörðun þ.e. ef ferjan verði þá einfaldlega ekki látin heita Herjólfur sem er ansi gott nafn.” segir Gunnlaugur Grettisson.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).