Lóa Baldvinsdóttir skrifar:

Við áramót er við hæfi að líta um öxl.....

31.Desember'17 | 07:48

Mér finnast áramótin oft svo erfið, en um leið svo frábær, æ það er erfitt að útskýra þetta. Um áramótin finnst mér gott að líta yfir árið, skoða hvað það bauð mér upp á bæði í gleði og sorg. 

Hvert ár færir mér verkefni, sum skemmtileg, önnur algerlega frábær og enn önnur svo erfið að ég held að ég geti ekki leyst þau. Verkefnin eru samt öll þannig gerð að ég læri eitthvað af þeim, þau styrkja mig, þroska mig og flest þeirra gera mig hæfari til þess að takast á við verkefni nýs árs.

Árið sem nú er að kveðja okkur reyndist mér svo hrikalega erfitt á margan hátt. Í apríl var ég við það að missa yngri dóttur mína úr andlegum veikindum sem hún hafði glímt við á annað ár. Ég var búin að gera bókstaflega allt sem í mínu valdi stóð til að fá úrlausn hennar mála. Baráttan fyrir hennar réttindum og meðferð fór meira að segja alla leið með mig á Alþingi þar sem ég reyndi að koma því til skila að andleg veikindi eru jafn alvarleg og þau líkamlegu.

Í apríl vorum við báðar komnar á endastöð, hún var búin að gefast upp og ég var á góðri leið með að gera það líka. Ég hafði tekið þá ákvörðun að þar sem kerfið var gersamlega búið að bregðast henni og okkur þá ætlaði ég með hana heim í íbúðina okkar, loka og læsa og gera ekkert nema halda henni á lífi og vona að batinn kæmi einhverntímann. En ég var satt að segja nánast búin að sætta mig við það að örlög okkar yrðu þau að saman myndum við sigla í gegnum lífið, hún týnd í myrkrinu og ég á kantinum að halda í henni lífinu.

En þá tók eitthvað æðra yfir, mamma var að ákveða hvort það yrði ég eða Emma sem hún yrði að fara með á spítala til að fá aðstoð þegar síminn hringir og Litla kvíðamiðstöðin boðar okkur í tíma til Ingu sálfræðings. Ég ætlaði ekki að fara því ég hreinlega hélt að við værum komnar á endastöð og ekkert og engin gæti bjargað henni. Arnar bróðir næstum grátbað mig að fara í þennan tíma, hann lofaði mér að þetta væri það sem myndi bjarga stelpunni minni. Fyrir hann fór ég með Emmu í þennan tíma og þarna hófst bataferlið, þarna loksins kom glufa sem hleypti ljósinu inn og blikið kom í augun hennar Emmu. Í ágúst útskrifaðist Emma frá Litlu kvíðamiðstöðinni og hefur verið á stöðugri uppleið síðan. Enn einu sinni var ég minnt á að gefast aldrei upp, það er alltaf lausn og það birtir alltaf til, við verðum bara að leita og leita þar til við finnum okkar stað, okkar fólk sem hjálpar.

Ég hét mér því þegar Emma var orðin frísk að ég myndi gera allt sem ég get til að vekja athygli á andlegum veikindum, hversu algeng og alvarleg þau eru og hvað við erum skammt á veg komin í úrlausnum fyrir fólk sem glímir við þessi veikindi. Fólk er ábyggilega orðið hundleitt á skrifum mínum um þessi málefni en það verður bara að hafa það því hjartað mitt slær fyrir þessi málefni.

Ég enda þetta ár í mikilli baráttu við gamla drauga, ég valdi það að takast á við þá í stað þess að troða þeim innst í innstu kima og geyma þá þar þangað til þeir myndu endalega sigra mig. Ég nefnilega vil sigra, ég vil vera við stjórnvölin og ég vil að gleði, hamingja og ást sé það sem einkennir lífið mitt. Vinnan við að kveða þessa drauga niður er rétt að byrja en trúið mér, ég mun standa uppi sem sigurvegari, ég mun leggja allt sem ég á í sölurnar til þess að ég endurheimti allt það sem þessir draugar tóku frá mér.

Nú þegar árið 2017 kveður vel ég að horfa til baka með jákvæðu gleraugunum, ég ætla að horfa á öll erfiðu verkefnin, loka augunum og þakka fyrir að þeim var hent í mig. Án þeirra væri ég ekki eins sterk og einbeitt og ég er í dag. Ég ætla að ylja mér við allar frábæru minningarnar sem ég skapaði með fólkinu mínu, án þeirra væri ég ekkert. Ég ætla að þakka fyrir það að dætur mínar eru einstaklega vel gerðar, hamingjusamar og heilbrigðar - Jú vissulega erum við mægður að glíma við okkar dásamlegu andlegu veikindi en með húmor fyrir sjálfum okkur og virðingu fyrir því sem veikindin hafa fært okkur tökumst við á við þau og sigrum.

Elsku fólkið mitt, verum þakklát fyrir að hafa fengið að upplifa árið 2017, það voru ekki allir svo heppnir. Munum að það sem skapar hamingju er fólkið okkar, gleðin, húmorinn, brosin, söngurinn, dansinn og samveran. Dauðir hlutir skapa aðeins hamingju í smá stund (nema Stevie the TV sem kvaddi mig á Aðfangadag, hans er sárt saknað).

Gleðistundir ársins 2017 eru svo margfalt fleiri en erfiðu stundirnar og gleðina ætla ég að taka með mér inn í nýtt ár. Ég ætla að skilja eftir erfiðleikana og fólkið sem særði mig. Ég ætla að taka á móti nýju ári í faðmi þeirra sem ég elska mest, í faðmi þeirra sem gera það að verkum að ég á eins yndislegt líf og ég á. Ég ætla inn í nýtt ár með hjartað fullt af kærleika og þakklæti, þannig vil ég byrja nýtt ár. Því nýtt ár býður upp á nýja möguleika og ný verkefni og með gleðina og kærleikann að vopni verður þetta allt svo miklu auðveldara og betra.

Guð gefi ykkur öllum hamingjuríkt komandi ár og megi ástin, hamingjan og gleðin umvefja ykkur öll.

 

Ykkar Lóa (sem er óvenju væmin og meyr).

 

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).