Elís Jónsson skrifar:

Hvað býr að baki?

15.Desember'17 | 10:58
herjolfur_nyr_cr_sa_c

Tölvumynd af nýsmíði Herjólfs fyrir seinni lengingu skipsins. Mynd/Crist SA

Laugardaginn 9. desember sl. var haldinn kynningarfundur í Eldheimum undir fyrirsögninni ,,Upplýsingafundur um nýja ferju‘‘ þar sem Andrés Þorsteinn Sigurðsson fulltrúi Eyjamanna í smíðanefnd fór yfir ,,smávægilegar breytingar‘‘ á nýju ferjunni. 

Þessu framtaki ber að fagna, þ.e.a.s. að haldinn sé fundur til að kynna þessa framkvæmd og stöðuna á því. Því miður hafði ég ekki tök á að mæta á þennan fund en nýtti mér þó að horfa á hann á netinu.  Fundargestur skrifaði svo nokkrar línur daginn eftir undir yfirskriftinni ,,Ekki benda á mig‘‘ og hittir kannski naglann svolítið á höfuðið. Því þar kemur eiginlega fram það sama og margir sem horfðu eða sóttu fundinn upplifðu og rætt er svo víða um bæinn eftir þennan fund.

Áður en lengra er haldið vil ég jafnframt benda öllum sem hafa áhuga og vilja setja sig inn í stöðuna, auka vitneskju sína um Landeyjahöfn og sjósamgöngur við Vestmannaeyjar að lesa opið bréf sem Alfreð Tulinius skipatæknifræðingur og MBA skrifaði 23. maí 2008. Þó þetta opna bréf sé nokkuð langt, þá á þetta eiginlega að vera skyldulesning. Veitið því einnig athygli að því var aldrei svarað… en bréfið segir allt um stöðuna sem blasir við okkur í dag og það eru að verða 10 ár síðan það var skrifað!

Nú er það ekki svo að ég sé eitthvað persónlega á móti smíðanefndinni eða smíði nýrrar ferju og í raun langur vegur frá. Það sem ég er ósáttur við er nálgun á þessu verkefni, forsendur, forgangsröðun og verklag. Í mínum huga er svo algjörlega skýrt að satt og rétt sé sagt frá svo ekki sé talað um þá meðvirkni sem á sér stað í þessu verkefni.

Þessi fundur byrjaði kannski ekki vel og orðrétt var sagt: ,,Hjörtur Emilsson hann er fyrir Vegagerðina líka, hann er skipaverkfræðingur‘‘ hið rétta er að hann er skipatæknifræðingur og framkvæmdastjóri NAVIS.  Stuttu seinna kom svo aftur orðrétt fram ,,við fengum Polarkonsult frá Noregi sem að stóðu sig bara mjög vel, þeir hönnuðu Herjólf sem er að sigla núna og eru bara mjög góðir‘‘. Við þetta kannast enginn og það er áhugavert að benda lesendum á að lesa bls. 31 í skýrslu um ,,Stuðning ríkisins við ferjur og flóabáta‘‘ síðan febrúar 1993.  Þar kemur fram: ,,Eftir að fyrir lá að smíði 79 m skipsins yrði ekki samþykkt, hannaði Skipatækni hf., að eigin frumkvæði, nýtt 70,5 m langt skip. Dwinger Marineconsult A/S átti þar ekki hlut að máli ef frá er talið að þeir framkvæmdu þyngdarútreikninga vegna skipsins og heimiluðu auk þess að teikningar að stærra skipinu yrðu lagðar til grundvallar við hönnunina.‘‘ Hið rétta er að sögn þeirra sem til þekkja að Polarkonsult hafi útbúið einhverjar vinnuteikningar fyrir skipasmíðastöðina Simek í Noregi og því langt í frá að þeir geti talist hönnuðir skipsins sem Skipatækni hf. hannaði.

Á miðjum fundinum kemur svo orðrétt fram hjá smíðanefndarmanninum: ,,nei höfnin er vandamálið, það er alveg hárrétt. Ég er alveg klár á því að skipið er ekki að bjarga öllum vandamálum varðandi þessa höfn, alls ekki. Lagar stöðuna en vandamálin við höfnina halda áfram ef ekkert er gert‘‘ þetta er umhugsunarefni og rétt að rifja upp grein sem Sigurður Áss Grétarsson og Andrés Þorsteinn Sigurðsson skrifuðu 2. október 2015 þar sem segir ,,Landeyjahöfn verður heilsárshöfn þegar ný, hentug ferja kemur‘‘. Þetta hljómar því ekki mjög sannfærandi og rétt að rifja upp viðtöl við fjóra skipstjóra í Vestmannaeyjum í Eyjafréttum 11. september 2013 en þar kemur m.a. fram ,,Þeir telja réttara að tekinn verði tími í að gera höfnina klára áður en farið verði að huga að nýju skipi.‘‘

Undir lok fundarins er svo talað um veltiugga og orðrétt sagði smíðanefndarmaðurinn ,,það sem við gerum er að við erum með veltiugga á skipinu sem eru hannaðir til að ráða við þetta skip þetta var ekki gert svona þegar Herjólfur var smíðaður þá voru bara pantaður veltiuggar og þeir voru settir í. Það myndi enginn setja þessa veltiugga í Herjólf í dag því þeir eru alltof litlir.‘‘ Uggar á núv. Herjólfi eru frá framleiðandanum Sperry að gerðinni SRA3-75, úttektaraðilar og tæknimenn sem vélstjórar skipsins hafa hitt gegnum árin hafa sagt að uggarnir taki mið af skipinu, sama segja þeir sem komu að hönnun skipsins á sínum tíma. Uggarnir á nýju ferjunni eru frá Rolls-Royce að gerðinni Aquarius A50 og flatarmál þeirra 3,03m2. Eftir því sem ég best veit eru uggarnir á nýja skipinu með minna flatarmál en á núverandi skipi.

 

Ég saknaði þess svo að ekki skyldi vera komið inná hvers vegna burður á nýju skipi hefur minnkað. Við útboð var miðað við 2,8m djúpristu þegar farmþungi væri 350 tonn eins og meðfylgjandi mynd sýnir, í dag er þetta komið niður í 315 tonn.

Nú vita allir hvað núverandi skip getur og það hefur þjónustað Eyjamenn frá 1992 með stakri prýði og skipið í mjög góðu ástandi m.v. aldur og það upplegg sem lagt var upp með á sínum tíma ,,allur aðbúnaður og frágangur væri vandaður en þó ekki í hæsta gæðaflokki.‘‘ eins og kemur fram á bls. 20 í skýrslu sem vitnað er í hér á undan.

Í Eyjafréttum í þessari viku er haft eftir smíðanefndarmanninum ,,Viljum við sem vinnum að nýsmíðinni að fólk sé upplýst og fái réttar upplýsingar‘‘,  deilur séu ekkert nýtt og eðlilegt því fólk þekki ekki skipið sem í boði er: ,,Það er líka vegna fullyrðinga manna sem ekkert hafa komið að málum, en telja sig vita best.‘‘

Það er fleira sem kom fram á þessum fundi sem má klóra sér í höfðinu yfir og mögulega vantar okkur einhver púsl og vitneskju sem smíðanefndarmaðurinn býr yfir en þangað til spyr ég: Hvað býr að baki?

 

 

Elís Jónsson, vélfræðingur, rafmagnstæknifræðingur og MPM.

 

 

 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).