Lóa Baldvinsdóttir skrifar:

Töfrastundir aðventu og jóla

6.Desember'17 | 16:56

Enn á ný er aðventan gengin í garð. Þessi yndislegi tími sem gefur birtu og hlýju inn í myrkrið sem er svo svart á þessum árstíma. Aðventukransarnir eru tilbúnir, mandarínurnar keyptar, sálin er sykruð og hjartað er komið í saltpækilinn. 

Ég er persónulega krónískur jólaunnandi og hreinlega elska allt við þennan árstíma, nema kannski að pakka inn jólagjöfum en það helst í hendur við það að ég er með álíka góðar fínhreyfingar og fíll í postulínsbúð. Gjafirnar sem frá mér koma minna meira á pakka sem fundust grafnir með öndvegissúlum Ingólfs  heldur en fallegar jólagjafir. En hei það er víst hugurinn sem gildir en ekki umbúðirnar.

Ég er rétt skriðin yfir þrítugt (lesist 38 ára síðan á mánudeginum eftir Þjóðhátíð) og enn í dag fæ ég frekjukast og verð geðvond ef einhver gefur mér eitthvað til heimilisins í jólagjöf. Ég veit að jólin snúast ekki um pakkana og prjálið en ég bara get dáið úr hamingju þegar ég fæ pakka en hjálpi mér Guð og allar góðar vættir hvað það er leiðinlegt að fá eitthvað í búið. Mínir nánustu hafa tekið þessari tilætlunarsemi og frekju afar vel og öll jól bíða mín pakkar sem innihalda eitthvað sem konunni finnst skemmtilegt en ekki endilega eitthvað nytsamlegt.

Það var mér verulega erfitt að vera í sambandi um jól og allar gjafir voru handa okkur báðum, pottasett, eldföst mót, sleifar og glös. Þetta gerði nákvæmlega ekkert fyrir mig og foreldrar mínir og systkini áttuðu sig afar fljótt á því að þau yrðu alltaf að gefa mér eina gjöf sem var bara ætluð mér, ekki mér og sambýlismanninum. Og ég vissi ekki hvort ég átti að fyllast stolti eða skammast mín þegar eldra eintakið mitt sagði um daginn ,,Ég fer að heiman ef ég og kærastinn fáum allar jólagjafir saman" Þar sannaðist hið forkveðna - Það læra börnin sem fyrir þeim er haft.

En að öðru en gjöfunum og þeirri opinberun minni að ég vil fá pakka handa mér einni í jólagjöf sem gleðja mig. Það er eitthvað svo töfrandi við aðventuna og jólin. Þessi fallegu ljós alls staðar, þessi gleði sem mætir manni hvert sem maður fer, þessi kertaljós sem fylla litla heimilið mitt af notalegheitum, þessi spenna sem liggur í loftinu, þessi matur sem við borðum og leyfum okkur að njóta án samviskubits í þennan eina mánuð á ári (ég reyndar nýt þess alltaf að borða og fæ aldrei samviskubit enda er ég búsældarleg eins og Erla systir mín myndi segja).

Það einhvern veginn verður allt svo léttara í desember, allavega í kringum mig. Það gæti reyndar haldist í hendur við að ég er afar ,,tjillaður" jólaunnandi. Ég baka ekki 17 sortir, ég baka bara tvær þegar mig langar til. Ég skreyti þegar mig langar að skreyta og til dæmis í ár var allt skraut komið upp í kringum 20.nóvember. Ég keppist ekki við að komast í kjólinn fyrir jólin, ég bara kaupi mér stærri kjól ef þeir sem ég á fyrir hafa skroppið saman. Ég sendi ekki jólakort vegna þess að ég er álíka skapandi og frumleg í þeim efnum og þunglyndur steingervingur. Ég þríf ekki skápa sökum einlægrar leti og ég bý ekki til piparkökuhús því það er einfaldlega ekki á verksviði hamfarakokka eins og ég er.

Aðventan í mínum huga er ekki ,,að vera að gera alltaf eitthvað" heldur einfalega að gera það sem mig langar til þegar mig langar til. Ég fer á jólahlaðborð ef mig langar, ekki af því að aðventan er ekki söm nema maður belgi sig út á jólahlaðborði. Ég fer ekki á jólatónleika af því það koma ekki jól nema maður fari að minnsta kosti á eina slíka, ég fer á jólatónleika til að njóta fallegra tóna og hafa það huggulegt. Ég skipti ekki út skrauti á jólatrénu því einhver trendsetter segir að jólin í ár séu silfruð og svört. Ég er með mitt jólatré alltaf eins vegna þess að þegar kemur að jólatrénu mínu er ég haldin þráhyggju og elsku stelpurnar mínar fá ekki einu sinni að skreyta tréð með mér, nema undir eftirliti og með nákvæmum leiðbeiningum. Mér líka ekki þessi jólatrésgeðveikishlið á mér en þrátt fyrir margs konar meðferðir við andlegum kvillum næst ekki utan um þessa geðveiki.

Svona er aðventan mín og skoðanir mínar á henni og þurfa þær alls ekki að endurspegla skoðanir annarra. Það sem skiptir mestu máli er að allir finni sinn takt í aðdraganda jóla og á hátíðnni sjálfri. Það skiptir máli að vera sáttur við það sem maður gerir, ekki gera það vegna þess að maðurinn í jólablaði Moggans bakar 18 sortir og konan í jólablaði Fréttablaðsins ræktar sín eigin jólatré. Það eru öll jól jafn frábær og mikilvæg, alveg sama hver takturinn er. Það eina sem þarf að vera til staðar á aðventu og jólum, að mínu mati, er gleði, hlýja, kærleikur og hamingja. Það er það eina sem raunverulega skiptir máli. Jú og eitthvað gott að borða og jólaöl.

Eitt sem er mér alltaf afar hugleikið á þessum tíma árs og það er sú staðreynd að ekki hafa allir það gott í litla samfélaginu okkar. Í dag búa allt of margir Íslendingar við sára fátækt og sár fátækt þýðir að ekki er til matur á heimilinu, ekki er til fatnaður og einstaklingar geta einfaldlega ekki fætt sig og klætt. Á Íslandi eru margir sem eiga ekki heimili, búa í tjöldum, hjólhýsum og jafnvel ruslageymslum fjölbýlishúsa og það er þyngra en tárum taki að þetta viðgangist á þessu litla ríka landi.

Því finnst mér ágætt að hugsa sem svo að  í stað þess að kaupa mér einn kjólinn enn eða bæta við einni gjöfinni enn handa stelpunum mínum að láta þann pening renna til þeirra sem minna mega sín. Finna mér málstað eða samtök sem hjálpa þeim sem minna mega sín á þessu landi og sjá ekki fram á að geta haldið jól. Mig skortir ekki neitt og börnin mín skortir blessunalega ekki neitt. Við eigum sterkasta bakland í heimi sem hefur alltaf séð til þess að jólin okkar eru þau bestu og fallegustu. Þegar ég var frekar illa stödd fjárhagslega þá tók fjölskyldan okkur í fangið og gáfu okkur yndisleg jól. En það eru ekki allir eins heppnir og ég og það er samfélagsleg skylda þeirra sem meira eiga að gefa með sér, það finnst mér að minnsta kosti.

Þannig að ef börnin ykkar eiga allt í einu 3 sett af jólafötum væri dásamlega fallegt að gefa eitt settið á heimili þar sem eru börn sem eiga ekkert. Ef vinnan ykkar gefur ykkur jólamat sem þið eruð þegar búin að kaupa þá endilega látið matarkörfuna ykkar ganga áfram til einhvers sem þarfnast matar, ekki troða henni í smekkfullan ísskápin og láta hana skemmast þar. Látum gott af okkur leiða, lítum okkur nær og réttum út hjálparhönd til þeirra sem þarfnast þess með, við skulum ekki líta undan og láta eins og það komi okkur ekki við að manneskjan við hliðina á okkur í Bónus getur ekki borgað fyrir brauðið sitt og meðan við þurfum tvo kassa til að koma okkar kræsingum út í bíl. Gefum af okkur og gefum með okkur.

Með von um að þið eigið yndislega aðventu og algerlega dásamlega jólahátíð óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla elsku fólkið mitt :-)

 

Til lífs og til gleði

Lóa :-)

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).