Veiðum á norsk-íslenskri síld að ljúka

8.Nóvember'17 | 20:41
isleifur_nyi

Ísleifur VE landar í heimahöfn. Ljósmynd/TMS.

Ísleifur VE, uppsjávarskip Vinnslustöðvarinnar, hefur lokið veiðum á norsk-íslenskri síld að þessu sinni og Kap VE var í sínum síðasta róðri í byrjun síðustu viku. 

Helgi Geir Valdimarsson skipstjóri á Ísleifi segir veiðar á íslensku síldinni framundan en þar verði rennt nokkuð blint í sjóinn eins og oft áður. Helgi var í viðtali hjá Fiskifréttum.

„Við vorum að landa úr síðasta túrnum. Þetta hefur gengið alveg ágætlega en höfum reyndar þurft að fara austur í færeysku lögsöguna. Við fengum bara einn túr hérna heima í Héraðsflóanum en færðum okkur svo í færeysku lögsöguna því þar var meira um síld. Það hefur líka verið síld norður við Smugu og Norðmenn eru að veiðum þar. Við þurftum ekki að leita þangað,“ segir Helgi Geir.

Líka farið langt eftir makrílnum

Hann segir veiðina hafa verið ágæta í færeysku lögsögunni og síldina væna. „Þetta er um 400 gramma síld, væn og góð.“

Vertíðin nú sé ólík þeirri í fyrra þegar einungis var farinn einn túr vegna lítils kvóta. Alls urðu túrarnir núna þrír og samanlagt bárust því um 6.000 tonn til Vinnslustöðvarinnar að þessu sinni frá uppsjávarskipunum.

Áður höfðu menn verið á makrílveiðum og segir Helgi Geir að byrjað hafi verið á þeim mun seinna en vant er. „Við þurftum að fara eftir makrílnum austur í Smugu þannig að það var dálítið langt að sækja hann. Vertíðin var frábrugðin að þessu leyti því nánast alltaf höfum við fengið mestan hluta okkar afla við Vestmannaeyjar. Venjulega höfum við lokið makrílveiðum í byrjun september. Nú var ákveðið að fara seinna af stað til þess að ná makrílnum betri og fastari í holdinu.“

Aflaheimildir Vinnslustöðvarinnar í íslensku síldinni eru um 3.000 tonn sem er minna en verið hefur. Helgi Geir segir menn renna fremur blint í sjóinn með þær veiðar. Verið er að búa skipið að fara til veiða og verður Eyjólfur Guðjónsson skipstjóri í þeim túr.

Galin aðferðafræði

„Ef það er svona lítið af henni eins og fiskifræðingar telja þá getur orðið erfitt að finna hana og veiða. Svo er sjórinn ennþá heitur og það hefur oft verið erfitt að veiða síldina fyrr en sjórinn fer að kólna. Það munar talsvert miklu á hitastigi sjávar núna miðað við sama tíma í fyrra og skeikar þar alveg heilli gráðu. Það getur skipt miklu máli.“

Helgi Geir segir markað fyrir síld talsvert erfiðan um þessar mundir. Verðið sé lágt og ástæðan er eflaust mikil veiði hjá öðrum þjóðum. Hann var nokkuð hugsi yfir stöðu stjórnmála í landinu og segir nokkra af flokkunum ekki virðast vera í miklum tengslum við það sem er að gerast innan sjávarútvegsins.

„Sumir þeirra líta á greinina einungis sem skattaandlag og það kann ekki góðri lukku að stýra. Það dregur alveg úr vilja manna til að gera nokkurn skapaðan hlut ef gengið er svo hart að þeim að þeir mega sig hvergi hræra. Þeir sem eru í smáútgerð eru að gefast upp. Aðferðafræðin í kringum veiðigjöldin er alveg galin. Það er nánast vitað upp á hár hvað fæst fyrir sjávarafurðir á erlendum mörkuðum. Veiðigjöldin ættu að vera hlutfall af þeim verðmætum og þau á að greiða strax. Það gengur ekki að leggja á veiðigjöld vegna veiði fyrir tveimur árum. Það sér hver maður,“ segir Helgi Geir.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%