Hrefna Óskarsdóttir skrifar:

Hvað kostar að berja barnið sitt?

21.Október'17 | 11:53

Skoðanir eru erfitt fyrirbæri því það virðist sem þær séu ýmist réttar eða rangar og ekkert þar á milli. Ég hef stjórnmálaskoðun og trúarskoðun, ég hef skoðun á samgöngum þar sem ég bý í Vestmannaeyjum en hef ekki skoðun á því hvort eigi að leyfa konum yfir ákveðinni þyngd að fara í ungfrú Ísland eða hvort það eigi að lögleiða kannabis.

Yfirleitt erum við hrædd um að tjá skoðanir okkar opinberlega því það er orðin þjóðarlist á Íslandi að upphrópa fólk sem fávita ef þeir hafa ekki „réttu skoðunina“. Hver sem þessi rétta skoðun er.

Hvernig aðrir ala upp börnin sín er eitthvað sem við öll höfum sterka skoðun á. Sérstaklega ef börn eru beitt illri meðferð eins og að verða fyrir kynferðislegu eða líkamlegu ofbeldi, ef þau eru vanrækt eða ef þau alast upp á alkóhólistum eða fíklum og jafnvel þegar þau eru ofdekur (sem er ein tegund af vanrækslu).

Kannski réttilega. En hneykslun okkar og vanþóknun eru samt ekki að skila betra uppeldi eða minna af illri meðferð á börnum. Tilkynningum um illa meðferð er nefnilega að aukast og hefur ekki verið meiri síðan árið eftir hrun.

Á hverjum degi verða milljónir barna um allan heim fyrir ofbeldi, vanrækslu, þrælkun og öðrum erfiðum aðstæðum – hvort sem er á heimilum, í skólum, í samfélaginu eða í vinnu.

Fjöldinn allur af rannsóknum síðustu tuttugu ára hafa sýnt fram á að ofbeldi, vanræksla og erfiðar uppeldisaðstæður (t.d. skilnaður, dauðsföll eða veikindi í fjölskyldunni, heimilisofbeldi, áfengis- og/eða fíkniefnaneysla á heimilinu eða nákominn í fangelsi) hefur bæði bein og óbein áhrif á andlega og líkamlega heilsu, hegðun, námsgetu og almenn lífsgæði.

Núna í október kom út skýrsla breska fræðasetursins ODI (Overseas Development Institute), kostnaður og efnahagsleg áhrif ofbeldis gegn börnum þar sem markmið þeirra var að meta kostnað ofbeldis og vanrækslu á börnum.  

Í örfáum orðum var niðurstaðan sú að bara ofbeldi á börnum kostar ógeðslega mikið. Það kostar þann sem fyrir því verður alveg ógeðslega mikið. Það kostar samfélagið, ríkistjórnir og hagkerfi hvers lands alveg ógeðslega mikið.

Viltu vita hversu mikið mér finnst alveg ógeðslega mikið?

Ógeðslega mikið er tala sem er einhversstaðar á milli 2-8% af vergri þjóðarframleiðslu.

  • 2% af vergri landsframleiðslu Íslands eru um 49 milljarðar.
  • 8% af vergri landsframleiðslu eru 196 milljarðar.

Og við erum að tala um að þessa tæpu 50-200 milljarða þurfum við að borga árlega einungis vegna ofbeldis því inni í þessum tölum er ekki skoðaður kostnaður vegna vanrækslu. Í fyrra voru tæplega 40% tilkynninga til Barnaverndarnefnda á Íslandi vegna vanrækslu.  

Við skulum hafa það á hreinu að hér er einungis verið að skoða fjárhagslegan kostnað. Ekki öll skertu lífsgæðin sem ill meðferð kostar einstaklinginn og fjölskyldu hans, ekki alla sjúkdómana og alla geðrænu erfiðleikana sem hann þarf að kljást við í framhaldinu, ekki  heldur alla skelfinguna og örvæntinguna sem fylgir því að reyna að lifa af aðstæður sem alltof margir ná einfaldlega ekki að lifa af.

Ríkisstjórnir bera ábyrgð á því að vernda börn gegn illri meðferð og að veita þeim börnum aðstoð sem hafa orðið fyrir ofbeldi eða vanrækslu. Það hefur hins vegar verið lítill sem enginn árangur hjá ríkisstjórnum í þessum málum á undanförnum árum, hvort sem það er að reyna að koma í veg fyrir eða bregðast við illri meðferð á börnum.

Okkur er einfaldlega að mistakast í þessum efnum. Forvarnir eru takmarkaðar og alltof, alltof litlum fjármunum er varið í að takast á við afleiðingarnar. Barnaverndarnefndir eru fjársveltar og starfsfólk er oft sett í skelfilega erfið verkefni á skelfilega lágum launum, með skelfilega lítinn stuðning.

Ef reykingar, offita eða fíkniefnaneysla myndi kosta hvert um sig milli 3-8% af vergri þjóðarframleiðslu – heldurðu að ráðamenn hér á landi myndu kannski líta á það sem lýðheilsuvandamál? Að þeir myndu líta á það sem vanda sem snertir almannahagsmuna og að jafnvel, kannski, hugsanlega yrði farið að setja landsátak í forvörnum?

En hvað ef ég segi þér að reykingar eru taldar kosta aðeins um helminginn af því sem ill meðferð á börnum kostar? Samt er um 100 milljónum á ári varið til forvarna á reykingum og fjöldinn allur af forvarnarátökum hefur verið settur í gang á síðustu 20 árum sem skilaði því að það tókst að fækka daglegum reykingum 10. bekklinga úr 21% niður í 3%.

Ofbeldi og vanræksla er lýðheilsumál. Það er alveg hægt að koma í veg fyrir það. Sko, málið er að við þurfum ekki að berja börn, misnota þau eða vanrækja. Þetta eru allt aðstæður sem hægt er að koma í veg fyrir. Fyrirbyggja. Svona eins og með reykingar.

Þess má geta að ofbeldi, vanræksla og erfiðar heimilisaðstæður eykur áhættu á reykingum, offitu, sjálfsvígum, líkamlegum sjúkdómum, geðrænum erfiðleikum, áfengis-og fíkniefnaneyslu, svo fátt eitt sé nefnt.

Forvarnir gegn illri meðferð á börnum er þannig um leið forvarnir gegn öllum þessum lýðheilsuvanda sem við erum svo mikið að reyna að koma í veg fyrir.

Nýlegar rannsóknir hafa sýndi fram á að ill meðferð á það til að ganga í erfðir. Þeir sem verða fyrir ofbeldi eða vanrækslu sem börn eru líklegri til ala þau upp við erfiðar heimilisaðstæður vegna heilsufarsvanda, geðrænna erfiðleika og fátæktar. Þetta er einfaldlega vítahringur sem verður að stoppa.

Við gerum það ekki með því að úthrópa fólk sem fávita. Við gerum það með því að veita fjölskyldum viðeigandi aðstoð og með því að efla úrræði fyrir börn sem verða fyrir illri meðferð. Til að stoppa vítahringinn.

Ill meðferð á börnum er málefni sem skiptir alla máli, mig og þig, stjórnmálamenn, og ráðuneytisstjóra og allt samfélagið. 

Við viljum auðvitað öll gera það sem er best er fyrir börnin okkar. Ég er bara ekki viss um að allir átti sig á því hversu gríðarlega dýrt og umfangsmikið vandamál ill meðferð á börnum er.

Með því að lesa hingað langt ertu orðin sam-ábyrgur mér á því að draga úr þessu vandamáli. Þú veist núna einfaldlega of mikið til að láta þig málið ekki varða, svo spurningin mín til þín er þessi:

Hvað ætlar þú að gera og hvenær?

 

Heimildir:

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).