Guðlaugur Ólafsson skipstjóri á Herjólfi:

Verður að tryggja skipinu skjól fyrir brotsjó

- við þurfum að tryggja að Landeyjahöfn og nýtt skip verði sú samgöngubót sem væntingar okkar allra standa til og sitjum ekki uppi með verri samgöngur yfir vetrarmánuðina en við höfum í dag

20.Október'17 | 06:59
_DSCNýr Herjólfur í brotum í Landeyjahöf

Ný ferja á að hefja siglingar á milli lands og Eyja næsta sumar. Mynd/samsett.

Guðlaugur Ólafsson skipstjóri á Herjólfi var fulltrúi Vestmannaeyjabæjar í stýrihópi um þarfagreiningu um nýsmíði Herjólfs á sínum tíma. Hann skilaði inn skýrslu til bæjarstjórnar Vestmannaeyja í febrúar 2013 um hans sýn á málið. Eyjar.net birtir hér skýrslu skipstjórans í heild sinni.

„Mér var falið það verkefni af bæjarstjórn Vestmannaeyja að vera fulltrúi bæjarins í stýrihópi um þarfagreiningu um nýsmíði Herjólfs. Miklar væntingar eru bundnar við hvernig hægt er að tryggja siglingar á heilsársgrunni um Landeyjahöfn og í því ljósi tel ég mikilvægt að upplýsa bæjarstjórn Vestmannaeyja um hver staðan á málinu er samkvæmt mínu mati.

Nýtt skip eitt og sér nægir ekki heldur verði að gera úrbætur á höfninni sjálfri

Ég hef innan stýrihópsins komið þeirri skoðun minni á framfæri að nýtt skip eitt og sér nægi ekki heldur verði að gera úrbætur á höfninni sjálfri. Þá er ég ekki einungis að tala um að tryggja að dýpið verði nægjanlegt heldur tel ég að það þurfi að tryggja skipinu skjól fyrir brotsjó. Ég ásamt fleiri fulltrúum úr stýrihópnum fórum til Danmerkur til að prófa mismunandi skipsskrokka í samlíki hjá Force.

Þarf að setja fyrirvara við þessa niðurstöðu

Eins og komið hefur fram áður á opinberum vettvangi, þá leiddu þær prófanir í ljós að Herjólfur kom verst út. Þó ber að hafa í huga að samlíkir bauð ekki uppá siglingu við þær verstu aðstæður sem Herjólfur hefur siglt í Landeyjarhöfn og þá sérstaklega m.t.t. brotsjóa. Því þarf að setja fyrirvara við þessa niðurstöðu.

Ekki í vafa um að nýtt skip bætir ástandið til muna

Ég er ekki í vafa um að nýtt skip bætir ástandið til muna. Hins vegar óttast ég að frátafir verði mun meiri heldur en Siglingastofnun Íslands heldur fram. Hef ég rætt þessar efasemdir mínar á fundum í stýrihópnum. Fulltrúi Siglingastofnunar fullyrðir að einungis veðri ófært í Landeyjahöfn fimm daga á ári vegna ölduhæðar og fimm daga vega ónógs dýpis. Ég efast um þessa fullyrðingu og hef af því áhyggjur. Til að mynda fylgdist ég með ölduduflinu í Landeyjahöfn 25. -28. Janúar 2013 þrisvar sinnum á dag. Á þessu tímabili var ölduhæðin oftast um eða yfir 4 metrar og fór hæst í 6,2 metra. Var ekki fyrr en eftir þrjá og hálfan dag að duflið sýndi ölduhæð undir 3,5 metrum sem er hið reiknaða viðmið sem hámarks ölduhæð fyrir nýja ferju. Áhyggjur mínar beinast því fyrst og fremst að því að sigla þurfi mun oftar til Þorlákshafnar en Siglingastofnum gerir ráð fyrir í sínum áætlunum.

Þorlákshafnarsiglingar taki jafnvel lengri tíma en það sem við þekkjum í dag og  erfiðari sigling fyrir farþega

Ný ferja kemur til með að uppfylla öll skilyrði fyrir siglingar til Þorlákshafnar, enda er um sama hafsvæði að ræða. Hinsvegar tel ég að aðbúnaði fyrir farþega verði ábótavant á nýju skipi á þeirri siglingaleið. Öll hönnun nýrrar ferju tekur mið af siglingum til Landeyjahafnar enda mun hún verða aðalhöfn ferjunnar. Verði ófært í Landeyjahöfn í einhverja daga hlýtur skipið að þurfa að sigla til Þorlákshafnar.

Sú ferð tæki jafnvel lengri tíma en það sem við þekkjum í dag og sigling erfiðari fyrir farþega. Ástæður eru þær helstar að skipið ristir minna og kemur til með að velta meira auk þess er ekki gert ráð fyrir kojum fyrir farþega*. Spurning er hvort það sé ásættanlegt? Tel ég því nauðsynlegt að fá álit fleiri aðila en Siglingastofnunar við mat á hugsanlegum frátöfum í Landeyjahöfn. Meðal annars hef ég bent formanni stýrihópsins á að hafnarstjórinn í Landeyjahöfn, Sigmar Jónsson, hefur haldið dagbók um ölduhæð, veður og sjólag ásamt því að taka fjölda ljósmynda frá því að siglingar hófust um höfnina. Ég hef trú á því að hans athuganir séu mikilvægt innlegg í þessa umræðu og hvet ég bæjarstjórn Vestmannaeyja til að setja sig í samband við hann.

Við þurfum að tryggja að Landeyjahöfn og nýtt skip verði sú samgöngubót sem væntingar okkar allra standa til og sitjum ekki uppi með verri samgöngur yfir vetrarmánuðina en við höfum í dag.” sagði Guðlaugur Ólafsson, skipstjóri á Herjólfi í bréfi sínu til bæjarstjórnar Vesmannaeyja.

 

*Síðan þessi skýrsla var skrifuð var bætt inn í hönnun ferjunnar rúmlega 30 kojum fyrir almenning.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).