Lóa Baldvinsdóttir Andersen skrifar:

Vel skreytta sykurmassakakan....... Eru allir að fá sneið?????

10.Október'17 | 14:39
loa_thingmenn

Frá fundi Lóu í þinghúsinu. Mynd/ÁF.

Við göngum til kosninga (eina andskotans ferðina enn) eftir 17 daga. Loforðin vella upp úr stjórnmálamönnum og þeir keppast við að fegra sig, yfirleitt á kostnað einhverra annarra, sem mér persónulega finnst alltaf vera merki um lélegan karakter en það getur vel  verið að flestum finnist hið gagnstæða.

Nú eru tæpir 7 mánuðir síðan ég sendi neyðarkall til all flestra þingmanna þar sem dóttir mín var að deyja úr sjúkdómi, geðsjúkdómi sem var smátt og smátt að draga hana til dauða. Ég fékk all nokkur svör og er ég enn í dag þakklát fyrir það að fólk hafi gefið sér tíma til að svara mér. Svörin voru þó flest þannig að þingmennirnir okkar vissu ekki hvað þeir áttu að segja mér, þeir vissu ekki hvert þeir áttu að beina mér og þeir vissu ekki hvað var hægt að gera. Enn í dag finnst mér þetta svo skrýtið og þetta hefur setið í mér síðan. Þetta fólk er áhrifafólk í okkar þjóðfélagi, það er að vinna fyrir okkur og leiðréttið mig ef ég hef rangt fyrir mér, en valdið er þeirra til þess að breyta því sem þarf að breyta svo allir geti haft það gott.

Elskulegir Palli Magg og Ási Friðriks ásamt yndislegu Nichole Leigh hittu mig í mötuneytinu á Alþingi og þar ræddum við saman stöðuna hennar Emmu Rakelar og hvað væri hægt að gera til að hjálpa henni að halda lífi. Þetta yndislega fólk gaf mér tíma til að tala og segja frá, þau hlustuðu af áhuga og virðingu á mig, niðurbrotna mömmu sem var að missa barnið sitt inn í myrkrið.

En svörin voru fá, öll voru þau sammála um að heilbrigðisþjónustan væri of dýr, öll voru þau sammála um að allt of lítið af úrræðum væru fyrir hendi og öll voru þau sammála um að þetta gengi ekki svona.  Ég fór frá þeim með hjartað fullt af von, faðmlögin þeirra voru hlý, sönn og full af virðingu og samkennd. Elsku Palli gekk meira að segja svo langt að hringja í heimilislækninn okkar til að fá að heyra hvað heilbrigðiskerfið væri að gera fyrir barnið mitt - ég verð þessu fólki alltaf ævinlega þakklát fyrir að gefa mér tíma, hlusta og sýna skilning.

En nú vil ég sjá eitthvað gerast. Ég er svo heppin að barnið mitt er í bata, eftir langa þrautagöngu komumst við á Litlu kvíðameðferðastöðina en þar hófst bataferlið hennar og þar er hún enn að fá aðstoð. En út um allt land eru veik börn, börn sem þjást eins og Emma Rakel þjáðist, börn sem fara ekki í skólann, hitta ekki vini sína og geta ekki staðið upp úr rúminu því myrkrið er alls ráðandi. Börn sem óska þess á hverju kvöldi þegar þau sofna að þau vakni ekki næsta morgunn.

Kæru Alþingismenn, þið starfið í okkar umboði og ég heimta það að nú verði sett í gang vinna sem miðar að því að gera heilbrigðisþjónustu fría fyrir alla sem á henni þurfa að halda......líka fyrir þá sem eru að glíma við geðræn vandamál.  Kæru Alþingismenn, peningarnir eru til, Bjarni Ben er alltaf að segja okkur að stöðugleikinn sé þvílíkur og að við höfum aldrei haft það eins gott - elsku Bjarni viltu þá nýta eitthvað af þessum peningum í heilbrigðisþjónustuna okkar.  Ég vil ekki að eitt einasta barn þurfi að þjást eins og mitt barn þjáðist, ekki eitt einasta barn á að fara á mis við þá heilbrigðisþjónustu sem það þarf vegna þess að það fæddist ekki inn í ríka fjölskyldu. Barnasáttmálinn kveður á um að ÖLL BÖRN eigi rétt á heilbrigðisþjónustu og nú skuluð þið, kæru Alþingismenn, sjá til þess að öll börn á Íslandi fái það sem þeim ber.

Kæru Alþingismenn, sem eruð í vinnu hjá mér, ykkar er mátturinn til að breyta. Nýtið þennann fjandans mátt til þess að bæta og gera heilbrigðisþjónustuna okkar þá bestu í heimi, ég hef fulla trú á ykkur og veit að þið getið þetta ef þið virkilega viljið. Guð hvað ég vona að þið viljið þetta því trúið mér, börnin ykkar geta líka veikst af geðrænum sjúkdómum og þá veit ég að þið viljið að þau fái þá allra bestu heilbrigðisþjónustu sem kostur er á.....án þess að  þið þurfið að missa húsnæðin ykkar við að borga þessa þjónustu.

Ég veit að nú á ég bara að vera glöð og kát, smjör drýpur af hverju strái, kavíarinn vellur upp úr niðurföllunum og peningarnir vaxa í veskinu samkvæmt því sem margir stjórnmálamenn segja mér. Verð þó að viðurkenna að ég er ekkert endilega að finna svona svakalega fyrir þessu góðæri en hei kannski er ég bara að gera eitthvað vitlaust og les vitlaust í aðstæður. 

 

Lóa smiley

 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%