Auður Vilhjálmsdóttir, bæjarfulltrúi:

Gagnrýnir stóru fjölmiðlana fyrir skilningsleysi á stöðu Eyjamanna

er kemur að samgöngum

30.September'17 | 09:17
audur_rost_2

45% ferða féll niður er Röst leysti Herjólf af. Samsett mynd.

„Mig langar að byrja á því að ávarpa fjölmiðla upp á landi. Hvernig standi á því að meðal fyrstu frétta á netmiðlum séu ekki umfjallanir um það að samgöngur milli lands og Eyja hafi legið niðri svo dögum skipti?” sagði Auður Ósk Vilhjálmsdóttir, bæjarfulltrúi í upphafi ræðu sinnar á bæjarstjórnarfundi á fimmtudaginn.

„Fréttaskýringar um að heimamenn séu ekki að komast af eyjunni og upp á land í bókaðar aðgerðir, læknistíma, missa af utanlandsferðum sínum, fundum vegna vinnu eða önnur aðkallandi mál. Að Vestmannaeyjingar hafi verið strandaglópar upp á landi með tilheyrandi fjárhagslegum kostnaði svo þeir þurfi ekki að sofa á götunni, að vera fjarverandi frá vinnu og standa í reddingum í stresskasti yfir öllu því sem fer aflaga fer vegna þess að þeir áttu að vera komnir heim til sín fyrir mörgum dögum síðan. Hinir erlendu sem og íslensku ferðamenn, sem annaðhvort voru innlyksa í Eyjum eða voru búnir að áætla Vestmanneyjar í ferðaplön sín en komust ekki yfir.

Hundruða milljón króna tjón sem fyrirtækin verða fyrir

Fréttir um það hundruða milljón króna tjón sem fyrirtæki hér í Eyjum hafa orðið fyrir vegna þessa samgöngurofs. Hér hefur átt sér stað á síðustu dögum óbætanlegt tjón vegna þess að ekki hefur verið hægt að koma afurðum af eyjunni frá framleiðslufyrirtækjum, óbætanlegt tjón hjá fyrirtækjum sem hafa ekki fengið hráefni eða vörur til sín svo þau geti haldið uppi sölu sinni sem og vörur og afurðir sem liggja undir skemmdum og áttu að fara í vinnslu eða sölu í Eyjum. Framleiðslufyrirtækin neyðast til þess að stoppa framleiðslu sem þýðir að leggja þarf niður vinnu starfsfólks. Stopp í fólksflutningi ferðamanna sem og heimamanna hefur ennfremur aukið óbætanlegt tjón í sölu vara og þjónustu fyrirtækja hér í Eyjum. 

Engar fréttaskýringar á afbókunum ferðamanna og hópa á hótelum, hostelum og öðrum gististöðum í Vestmannaeyjum eða afbókanir ferðamanna og hópa á veitingastöðum á eyjunni sem hefur ollið þessum stöðum gífurlegu tjóni. Auk þess sem skortur á hráefnum og varningi til að standa undir þjónustu sinni veldur enn frekari tapi. Einnig líður almenn verslun, ferðaþjónustufyriræki og ýmiss önnur smáfyrirtæki fyrir þetta samgöngurof og verða fyrir tapi sem seint er hægt að bæta.

Fjölmiðlar upp á landi gera sér engan veginn grein fyrir því hversu umfangsmikið það efnahagslega tjón sem þetta tæplega 5000 manna samfélag er að verða fyrir

Það tjón sem neikvæð ummæli þessa túrista sem þekja bókanasíður erlendis eftir ömurlega upplifun og skort á upplýsingum vegna þessa samgöngurofs er ennfremur óbætanlegt og grafalvarlegt. Verið er að skerða samkeppnishæfni flestra fyrirtækja hér í Eyjum með þessum samgöngurofum en einnig ímynd Vestmannaeyja sem eftirsóknarlegan stað fyrir innlenda sem erlenda ferðamenn til að heimsækja. 
Mér er það óskiljanlegt af hverju helstu vefmiðlar landsins loga ekki í fréttaskýringum um þessa sorglegu, ömurlegu og hreint út sagt óskiljanlegu aðstöðu sem komin er upp, enn og aftur í samgöngum milli lands og Eyja. Ég neita að trúa að það sé vegna algjörs áhuga- og afskiptaleysis. Það eina sem mér kemur til hugar er að fjölmiðlar upp á landi gera sér einfaldlega engan veginn grein fyrir því hversu umfangsmikið það efnahagslega tjón sem þetta tæplega 5000 manna samfélag er að verða fyrir, og það ekki í fyrsta skipti.

Erum bókstaflega að leggja líf okkar og aleigu undir og þetta eru vinnubrögðin sem við þurfum að súpa seyðið af

Ég vil biðla til fjölmiðla að líta sér nær og sjá þá neyð sem er að skapast hér í Vestmannaeyjum og það gífurlega tjón sem hefur orðið. Ykkar umfjöllun hefur áhrif, hér er fólk og fyrirtæki sem hafa lagt allt í sölurnar til þess að byggja hér upp blómlegt samfélag við það að gefast upp. Hér er fólk að leggja eignir sínar að veði til að halda úti rekstri fyrirtækja sinna sem búa ekki við sömu samkeppnishæfni og fyrirtæki upp á landi. Við hér í Vestmannaeyjum erum bókstaflega að leggja líf okkar og aleigu undir og þetta eru vinnubrögðin sem við þurfum að súpa seyðið af.” segir Auður Ósk bæjarfulltrúi Eyjalistans.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...