Bæjarstjórn:

Fara fram á opinbera rannsókn

28.September'17 | 19:42
rost

Röst náði einungis að fara 26 ferðir af 47 sem áætlaðar voru. Mynd/TMS.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja ályktaði á fundi sínum nú í kvöld um samgöngumál milli lands og Eyja. Í ályktuninni segir að bæjarstjórn Vestmannaeyja lýsi yfir miklum vonbrigðum með þær óboðlegu aðstæður í samgöngumálum sem Vestmannaeyingum, gestum þeirra og atvinnulífi hefur verið boðið upp á undanfarna daga. 

45% ferða Rastar felldar niður

Af þeim 47 áætluðu ferðum afleysingaferjunnar Rastar voru einungis farnar 26 ferðir og því 45% ferða ferjunnar felldar niður. Þrjá heila daga lágu ferjusiglingar milli lands og Eyja alfarið niðri á því 10 daga tímabili sem Röstin var við þjónustu í Vestmannaeyjum. Slíkar samgöngutruflanir eru stórskaðlegar samfélaginu í Vestmannaeyjum, atvinnulíf hefur beðið mikinn fjárhagslegan skaða og orðið fyrir miklum óþægindum, lífsgæði íbúa hafa verið verulega skert, borið hefur á vöruskorti og hefur samfélagið beðið hnekki.

Tilmæli bæjarstjórnar virt að vettugi með kostnaðarsömum afleiðingum

Samgöngur í Vestmannaeyjum eru nægilega erfiðar í stöðugri baráttu við náttúruna, válynd veður og sandburð að það er þyngra en tárum taki að samgönguyfirvöld og aðrir aðilar sem eru ábyrgir fyrir samgöngum milli lands og Eyja auki enn frekar á þá erfiðleika sem eru við að halda uppi ásættanlegum samgöngum við Vestmannaeyjar. Bæjarstjórn Vestmannaeyja ítrekaði á síðasta fundi sínum að ekki kæmi á neinum tíma til greina að skip leysti Herjólf af sem ekki hafi fullt haffæri á siglingaleiðinni milli lands og Eyja og ef ekki fyndist skip sem gæti þjónustað í báðar hafnir yrði athuguð hagkvæmni þess að seinka slipptöku fram á vetur og fá til þjónustu stórt og öflugt skip sem gæti haldið uppi háu þjónustustigi í siglingum til Þorlákshafnar. Þau tilmæli voru því miður virt að vettugi með kostnaðarsömum afleiðingum.

Hörmuleg niðurstöða fyrir samfélagið í Eyjum og ómældur kostnaður fyrir ríkissjóð

Bæjarstjórn Vestmannaeyja harmar að samgönguyfirvöld hafi sýnt aðstæðum Vestmannaeyinga og samgönguþörf þeirra jafn lítinn skilning og raun ber vitni og er þetta enn ein staðfestingin á nauðsyn þess að bæjaryfirvöld hafi með einhverjum hætti beina aðkomu að þessu stærsta hagsmunamáli sveitarfélagsins.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja beinir því til samgöngunefndar Alþingis að fram fari opinber rannsókn á þeim ákvörðunum sem leiddu til þessarar hörmulegu niðurstöðu fyrir samfélagið í Eyjum og ómælds kostnaðar fyrir ríkissjóð.

Ályktunin var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.