Samanburður á Röst og Baldri

- enn er óvissa með samgöngur milli lands og Eyja

11.September'17 | 20:54
baldur_rost

Baldur hefur meiri flutningsgetu en Röst hefur tvær aðalvélar, er 12 árum yngra og ristir minna. Mynd/samsett.

Nú er búið að upplýsa um að afleysingaskip fyrir Herjólf mun ekki hafa leyfi til siglinga til Þorlákshafnar. Eyjar.net gerir hér samanburð á Baldri sem leysti af síðast og þeirri ferju sem væntanleg er frá Noregi. 

Þá má benda á að hafsvæðið milli Eyja og Landeyjahafnar er skilgreint sem C-hafsvæði frá 1. maí til 30. september. Ekki er ljóst hvað gerist þegar það leyfi rennur út. Einungis 13 dagar verða liðnir af viðgerðastoppi Herjólfs en gert er ráð fyrir að viðgerðin taki 19 daga. Samkvæmt heimildum Eyjar.net er ekki svefnpláss fyrir farþega í Röst og því erfitt að sjá hvernig það skip hefði átt að þjóna farþegum sómasamlega í siglingum til Þorlákshafnar.

Tölulegar upplýsingar um Baldur

Skipið er 1677 brúttótonn að stærð. Lengd þess er 68,3 metrar og breidd þess 11.6 metrar. Ganghraði skipsins er mestur 14 sjómílur (1 aðalvél). Í skipið komast 280 farþegar í hverja ferð auk 49 bíla. Smíðaár 1979. Djúprista 4.2m.

Tölulegar upplýsingar um Röst

Lengd  66,2 m, Breidd 13,4 m, Smíðaár 1991, Vélarorka  2 x 2500 hp (2 aðalvélar), Farþegar 235. Bílar 42. Djúprista 3.6m.

Ekki komi á neinum tíma til greina að fengið sé afleysingaskip fyrir Herjólf sem ekki hefur heimild til siglinga í Þorlákshöfn

Þegar Baldur var fengin sem afleysingaskip í vor þótti of dýrt að leigja ferju erlendis frá, en fram hefur komið að Vegagerðin greiddi 57 milljónir fyrir leigu á Baldri í 26 daga.

Krafa Vestmannaeyjabæjar var hins vegar að þegar að Herjólfur þyrfti að stoppa vegna viðhalds væri fengin ferja sem uppfyllti skilyrði til siglinga bæði til Landeyjahafnar sem og til Þorlákshafnar. Orðrétt í bókun bæjarráðs frá í maí segir:

„Krafa bæjarráðs og Vestmannaeyjabæjar hefur alla tíð verið skýr hvað varðar það að ekki komi á neinum tíma til greina að fengið sé afleysingaskip fyrir Herjólf sem ekki hefur heimild til siglinga í Þorlákshöfn. Til marks um það má nefna fjölmargar ályktanir og erindi sem send hafa verið samgönguyfirvöldum og vísast þar til að mynda til samþykktar bæjarráðs á 2874. fundi ráðsins þar sem segir að öllum tímum skuli „...tryggt að fullnægjandi skip leysi Herjólf af á meðan á slipptöku stendur“ 

Seinustu ár hefur ríkt samkomulag milli Vestmannaeyjabæjar, atvinnulífsins í Vestmannaeyjum, hins almenna bæjarbúa og samgönguyfirvalda um að í lengri frátöfum Herjólfs vegna slipptöku og viðhalds myndi skip sem réði við siglingar í bæði Landeyjahöfn og Þorlákshöfn annast þjónustu. Bæjarráð harmar að það samkomulag hafi nú verið rofið og hvetur þingmenn Suðurlands til að láta sig málið varða segir í bókun bæjarráðs.

Í júli sl. var aftur bókað um málið í bæjarráði:

„Bæjarráð lýsir yfir miklum áhyggjum vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem komin er upp vegna fyrirhugaðs viðhalds sem liggur fyrir að Herjólfur þurfi að fara í á haustdögum. 

Bæjarráð gerir þá kröfu til Vegagerðarinnar að hún tryggi að samgöngur verði greiðar til Vestmannaeyja á viðgerðartímanum í fjarveru Herjólfs, hvort sem siglt verði frá Landeyjahöfn eða Þorlákshöfn. Einnig er gerð sú krafa að þjónustuþegar séu upplýstir tímanlega um stöðu mála, þ.e. hvernig siglingum verði háttað milli lands og Eyja.”

Veruleg óvissa

Ljóst er að málið er grafalvarlegt og ljóst að kröfur bæjaryfirvalda eru virtar að vettugi. Að ekki fáist ferja sem getur siglt í báðar hafnir skapar verulega óvissu hjá öllum sem þurfa á að stóla. Skilningur ríkisvaldsins virðist á undanhaldi er kemur að þessum málum. Rökin að ekki finnist neitt skárra, halda varla vatni - þar sem mikið af skipum er á sölu/leigu víða um heim. Búið var að benda stjórnvöldum á hentuga ferju - sem vert hefði verið að prufa.

Eyjar.net mun leita viðbragða hjá bæjarfulltrúum Vestmannaeyjabæjar sem og þingmönnum kjördæmisins á næstu dögum.

 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.