Lóa Baldvinsdóttir Andersen skrifar:

Til hamingju - Þú ert að verða mamma......

8.September'17 | 16:26

Að vera mamma er erfiðasta hlutverk sem ég hef fengið.  En að vera mamma er líka skemmtilegasta, mest gefandi og frábærasta hlutverk sem ég hef fengið. Ég var bara 19 ára þegar hlutverkið varð mitt og hef ég elskað það frá upphafi. 

Ég ætla ekkert að koma með einhverja helgislepju um að ég hafi verið fædd í þetta hlutverk og ég hafi notið hverrar mínútu frá því Kamilla Rún kom í heiminn og síðar Emma Rakel.  Ef ég myndi gera það þá væri ég að ljúga og því bara nenni ég alls ekki.  Þetta hefur bara oft verið hrikalega erfitt og krefjandi og mömmur sem halda öðru fram eru bara ekki að segja satt.

Verandi B-týpan sem ég er þá var ég ekkert að drepast úr hamingju þessar 10 nætur sem dætur mínar slepptu því að sofa(já samanlagt voru það 10 nætur hjá þeim). Mér fannst líka ógeðslega leiðinlegt þegar ég var  búin að plana eitthvað og komst ekki vegna þess að þær voru veikar.  Ég held að mér finninst Húsdýragarðurinn leiðinlegasti staður í byggðu bóli og mig langar frekar að hlaupa maraþon en að fara í berjamó og þið sem þekkið mig vitið að ég hleyp ekki nema einhver sé að elta mig.  Báðar stelpurnar mínar æfðu fótbolta um stund og voru feikna góðar þó ég segi sjálf frá.  Fótboltaiðkun fylgir að foreldrar þurfa að vera styðjandi og hafa brennandi áhuga á rangstæðu, innköstum og hornspyrnum.  Ég þurfti stundum að vera mætt á völlinn fyrir klukkan 8 á morgnana(vil minna aftur á að ég er B-týpa), í minningunni er alltaf rigning og mér finnst fótbolti sjúklega leiðinlegur. En á hliðarlínuna var ég mætt, skildi hvorki upp né niður í leiknum, talaði svo mikið við hina foreldrana að ég fagnaði yfirleitt öllum mörkum, líka hjá hinu liðinu og vildi svo fara heim þegar mínar stelpur voru ekki inná vellinum því mér fannst ekkert gaman að horfa á annarra manna börn.  Þannig að þessu leyti var ég ekki og verð seint valin mamma ársins.

En ég elska að hlægja með stelpunum mínum og við erum blessunarlega allar með sama, kaldhæðna, svarta húmorinn.  Ég hef eytt ómældum tíma í að knúsa og kyssa stelpurnar mínar og fæ hlýtt í hjartað í hvert sinn.  Ég segi þeim á hverjum einasta degi að ég elski þær og þær vita svo sannarlega að þær eru heimurinn minn.  Við höfum átt óteljandi gæðastundir í sófanum heima, þar sem við horfum á skemmtilegar myndir, hlæjum saman, knúsumst og kjöftum.

Gönguferðirnar okkar eru margar, jafnt sumar, vetur, vor og haust og höfum við notið þess út í ystu æsar að rölta um, skoða umhverfið okkar og njóta þess að vera saman. Samvera þarf nefnilega ekki alltaf að kosta handlegg af því þetta snýst jú um samveruna en ekki hvað er endilega verið að gera.

Okkar sameiginlegu áhugamál eru tónlist, Þjóðhátíð, Jólin, FRIENDS, kósýkvöld, dýramyndbönd, íslenskt rapp, Depill Máni, nammi, bitafiskur, facebook, fjölskyldan okkar, bíltúrar (það er samt bara mitt áhugamál en þær neyðast til að vera með því ég er ekki með bílpróf) og svo ógnar margt fleira.

Stelpurnar mínar hafa fengið ís í kvöldmat, þær hafa farið út í skítugum fötum einu sinni fór Kamilla með snúð í nesti því ég gleymdi að kaupa brauð.  Emma elskar kók jafn mikið og mamma hennar og pizza er uppáhalds maturinn hennar Kamillu. Ég held ég hafi aldrei keypt lífrænt ræktað eitthvað og stelpurnar mínar búa svo vel að eiga Afa sem er snilldar kokkur og hefur séð um þeirra matarlega uppeldi þar sem hæfileikar mínir í eldhúsinu eru á við ekkert. Ég baka helst ekki og því ólust þær ekki upp við heimabakað á sunnudögum og ný-bakað í nesti. Ég hef einstaka sinnum hent í eina Betty og einu sinni hef ég bakað vöfflur úr tilbúnu vöffludeigi. Þær virðast samt alveg vera nokkuð óskaddar og eru bara afspyrnu vel gerðar,hamingjusamar og kátar...........þrátt fyrir óbakandi og kókdrekkandi mömmu J

Þeim hefur aldrei vantað neitt, þær eiga þak yfir höfuðið, mat á borðinu(þó það séu stundum unnar kjötvörur því ég elska unnar kjötvörur með hjartanu), þær eiga hlý rúm, föt til að vera í og þær fá alla þá ást um umhyggju sem hægt er að veita-Líf mitt hefur nefnilega snúist um þær frá því þær fæddust og ég myndi aldrei vilja skipta á því og öllum heimsins auðæfum.  Að eiga líf sem snýst um þessar tvær ungu konur er eitthvað sem ég mun aldrei taka sem sjálfsögðum hlut.

Fullkomin mamma er ég ekki, langt frá því, en ég hef alltaf gert mitt allra besta. Stundirnar okkar saman eru ótrúlega margar og fallegar, minningarnar eru óteljandi og við elskum að skapa nýjar. Ég bý við þau forréttindi að vera vinkona stelpnanna minna jafnt sem mamma þeirra og sá vinskapur er sá dýrmætasti sem ég hef nokkuð tímann átt og mun nokkurn tímann eiga.

Við höfum rifist eins og hundur og köttur, grátið saman af sorg en oftar grátið saman af gleði. Ég hef huggað þær, skammað þær, beðist fyrirgefningar, látið þær biðjast fyrigefningar, fundist þær leiðinlegar en oftast finnst mér þær skemmtilegastar af öllum. Ég hef kennt þeim margt en þær hafa kennt mér ennþá meira.  Við elskum að vera saman en ég hef  beðið þær um að gefa mér ,,speis“ því mig vantar smá tíma fyrir mig eina.  Þær hafa líka beðið mig um að fara út úr herberginu þeirra og lokað svo á eftir mér því þær nenna mér ekki meira.  Við höfum stundum orðið svo geðvondar hvor á annarri að við endum allar á sitthvorum staðnum í litla kotinu okkar og alger þögn ríkir í smá tíma.  Þögnin varir þó stutt því okkur finnst svo sjúklega gaman að tala að það nær engri átt.

Stelpunum mínum finnst mamma þeirra oft afar spes og þær segja mér reglulega að ég sé skrýtnasta manneskja sem þær þekkja.  Þeim finnst ekkert rosa gaman þegar ég byrja að syngja í búðinni eða hlæ ógeðslega hátt í bíó.......mér er slétt sama, ég er mamma þeirra og þær verða bara að harka af sér.  Þær kalla mig ,,fashion killer“ og hrista oft hausinn yfir fötunum sem ég skelli mér í þegar við erum að fara eitthvað. En það breytir því ekki að þær taka mér eins og ég er og láta það yfir sig ganga þegar ég fer út á náttfötunum og inniskóm eða þegar ég kaupi mér hauskúpuföt sem þeim finnst ég allt of gömul fyrir.

Þær búa við það þessar elskur að mamma þeirra er tattú sjúk og safnar þeim grimmt og þær hafa verið glaðari en þegar ég fékk mér flúr af einhyrningi á handlegginn.  Einnig þurfa þær að þola það að ég er hárperri sem elskar að skipta um háralit og þegar við vorum að plana fermingu Emmu núna í sumar var eina skilyrðið sem þær settu að ég myndi ekki vera með bleikt hár þegar hún fermdist-Ég varð við þeirri bón.

Það fylgdi nefnilega engin handbók þegar ég varð mamma. Ég bara varð að taka slaginn, gera það sem mér fannst réttast og fylgja hjartanu. Ég hef alltaf lagt mikla áherslu á að dætur mínar séu alltaf þær sjálfar, fylgi hjartanu og geri það sem gerir þær hamingjusamar.  Ég stend við hliðina á þeim í hverju því sem lífið hendir í okkur og mun alltaf grípa þær.  Þær hafa fengið að finna það á eigin skinni að lífið er ekki alltaf sanngjarnt, enda lofaði því engin. Verkefnin hafa verið erfið og flókin en í sameiningu tökumst við á við þau og gerum okkar besta til að komast heilar frá þeim.

Það er engin formúla yfir það hvernig maður á að vera ef maður er mamma. Fyrir mér er það að vera mamma að elska börnin sín skylirðislaust, virða þau fyrir það sem þau eru, fagna fjölbreytileikanum, styrkja þau í því sem þau vilja standa fyrir, kenna þeim að koma vel fram við alla, skapa þeim líf sem býður upp á alls konar og hjálpa þeim að feta veginn í átt að hamingju. Tökum hlutverkinu alvarlega en gleymum ekki húmornum, gleðinni, fíflaskapnum og hamingjunni.  Eins og ég segi alltaf við stelpurnar mínar þá eigum við bara vissu um þetta eina líf og það er einfaldlega of stutt fyrir fýlu, samstæða sokka og einn háralit.

 

Til lífs og til gleði

Ykkar Lóa smiley

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.