Borun í Surtsey lokið - markmiðum náð

- holan 354 metra djúp

5.September'17 | 21:29
surtsey_cr

Surtsey. Mynd/úr safni.

Í gærmorgun kl. 10:30 lauk borun í Surtsey. Þá var holan orðin 354 metra djúp, sem samsvarar því að borinn hafi verið á 290 metra dýpi beint undir gígnum Surti I. Gangurinn í boruninni í þessari seinni holu, skáholu niður undir eystri gíg Surtseyjar, hefur verið ævintýralegur. 

Að meðaltali náðist um 60 metrar af kjarna á dag. Bormenn DES borfyrirtækisins eiga skilið mikið hrós fyrir þrautseigju, áhuga og vinnugleði þar sem þeir lögðu sig alla fram við að ná markmiðum verkefnisins.

Talið er að holan hafi snert gamla sjávarbotninn á kafla kringum 230 m dýpi í holu (um 195 m undir yfirborði) en síðan farið inn í gosrásina úr sprengigosinu sem þarna var í nóvember og desember 1963. Borinn fór niður um 100 m í viðbót áður en hann lenti í aðfærsluæð hraungossins sem var í gígnum 1966-67. Borun var hætt þegar borinn náði í gegnum aðfærsluæðina.

Þessi skáhola mun varpa nýju ljósi á hegðun sprengigosa þar sem vatn og kvika blandast saman. Slík gos eru mjög algeng hér á landi, t.d. eru Grímsvatnagos og Kötlugos að verulegum hluta þeirrar ættar. Þá verður hægt að mæla hita í nýju holunum og skilja betur jarðhitasvæðið í Surtsey, hvaðan hitinn er kominn og hvernig hann tengist móbergsmyndun og innskotavirkni meðan á gosinu stóð.

Framundan eru spennandi rannsóknir á sýnum og öðrum gögnum. Á myndinni eru sniðin af Surtsey sem birst hafa nokkrum sinnum á þessari síðu. Hér er búið að leiðrétta tímasetningu hraunstaflans í Surti I, en fyrst flæddi inn í hann hraun úr vestri frá Surti II áður en gosvirkni hófst á ný í Surti I í ágúst 1966.

Svo er að sjá að hvorug þeirra mynda sem hér eru settar fram séu fyllilega réttar. Sannleikurinn virðist liggja á milli þeirra, en e.t.v. nær þröngu gosrásinni en þeirri víðu. Fara þarf betur yfir niðurstöður áður en meira er fullyrt á þessum vettvangi, segir á facebook-síðu Jarðvísindastofnunnar Háskólans.

 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.