Ásmundur Friðriksson skrifar:
Starfið er opin bók
1.September'17 | 08:37Eftir Töðugjöldin á Hellu finnst mér stutt í sumarlokin. Skólarnir byrja og fjölskyldulífið hjá flestum fær stundatöflu, allir ganga í halarófu og lífið færist aftur í fastar skorður. Börnin og dýrin í sveitinni, við öll höfum fengið okkar frelsi í sumar til að þroskast og dafna en nú er enn og aftur sleginn nýr taktur í allt samfélagið.
Þannig er sumarið líka í þingmannsstarfinu. Þinginu líkur í byrjun júní og hefst að nýju í september. Ég hef frá því að ég var kosinn á þing 2013 lagt mig fram um að tengjast fólkinu í kjördæminu, kynna mér atvinnulífið, nýsköpun og fjölmarga nýstárlega hluti sem fara ekki eins hátt. Þá bregst ég við fjölmörgum óskum um að vera viðstaddur fjölmörg mannamót, opnanir og bæjarhátíðir. Þá hef ég lagt mig fram um að mæta í jarðarfarir þegar sorgin nýstir samfélagið, en næ þó aðeins broti af því sem ég vildi sinna.
Eins og landafjandi um allt
Það skiptir máli að fólkið í landinu viti hvað þingmennirnir þeirra er að aðhafast og hverju þeir er að sinna. Frá upphafi hef ég mætt þessari sjálfsögðu skyldu með því að nánast opna allt mitt líf á fésbókarsíðu minni. Þar má sjá í máli og myndum umfjöllun um allar mínar ferðir sem þingmaður um kjördæmið og víðar um land. Ég segi frá fundarhöldum, heimsóknum í fyrirtæki, stofnanir og ýmiskonar spjalli og verkefnum sem ég tek þátt í með einstaklingum og félagasamtökum um allt kjördæmið. Þannig má fletta upp ferðum mínum á fésbókinni frá haustinu 2012 er ég hóf kosningabaráttu mína fyrir þingsæti og allt til dagsins í dag. Ég hef heimsótt fjölmarga en ég á marga eftir, eins eru margir sem hafa samband og spyrja hvort ég ætli ekki að mæta hjá þeim og segja frá því á fésbókinni minni hvað þeir eru að gera. Ég vil einmitt að þeir sem lengja eftir mér hafi samband, en ég bara mannlegur og næ ekki að fanga allt á stuttum tíma. Þá þekki ég ekki alla, en vil þjóna öllum og hitta sem flesta og tengjast sem best. Ég svara öllum símtölum og tölvupóstum, alltaf. Það má vera að ekki sé allt nauðsynlegt sem ég segi frá á fésbókina, en ég vill að fólkið upplifi daginn minn, vikurnar og mánuðina. Hvernig þeir ganga fyrir sig og starfið mitt sé opin bók fyrir öllum, hvar og hvenær sem er. Ég sé á fésbókinni að sumum finnst lítið til þess koma þegar ég greini frá gönguferðum, kirkjuheimsóknum eða verkefnum sem ég sinni, mála hús, aðstoða fólk eða standa fyrir styrktar og skemmtikvöldum víða í kjördæminu. En það er mín trú að með því að tilgreina flest allt sem ég geri þá sé ég að varpa ljósi á starf mitt flesta daga í almannaþágu. Starfið í þinginu, nefndum og þingflokki er þó undanskilið fésbókinni en fjölmiðlar sjá um þann þátt. Það sama á við um fjölmörg erindi sem fjöldi einstaklinga leitar til þingmannsins síns um eru persónuleg trúnaðarmál.
Bara kominn í frí?
Þrátt fyrir að vinnustaðurinn minn sé jafnstór að flatarmáli og Danmörk heyri ég oft og margir segja við mig, ja eru menn bara komnir í frí í allt sumar. Nei sem betur fer er það ekki svo því þá hefst líka frjálsi og skemmtilegi tíminn í starfi þingmannsins, sem er að sinna kjördæminu, tengjast fólkinu og allri gerjuninni sem sprettur upp þegar sól hækkar á lofti. Þarna kemur upplýsingaveitan á fésbókinni sér líka vel og þar má fletta upp heimsóknum mínum um í kjördæminu sl. sumar. Ég hafði reyndar lofað fjölskyldunni að nú í sumar færum við í frí utan kjördæmisins, en við höfum frá því að ég var kosinn á þing eingöngu eytt sumarfríum okkar innanlands í kjördæminu, en það varð ekki breyting á því í sumar þrátt fyrir gefni loforð.
Árið fyrir samgöngur
En hvað er þá helst á baugi í kjördæminu? Það er æði margt og mismunandi áherslur eftir landshlutum. Samgöngur, vegir, brýr, flug, ferjur og hafnir er rauði þráðurinn í gegnum kjördæmið en 2,5 milljónir farþega koma til landsins. Nær allir keyra Reykjanesbrautina og síðan fara langflestir um Suðurland, Mýrdal og Skaftafellssýslur. Verkefnin sem við verðum að leysa í samgöngum hverfa ekki frá okkur, þau eru aðkallandi og nauðsynleg um allt kjördæmið. Staða bænda er óviðunandi og mjög mikilvægt að leysa þann hnút sem nú er fastur, ná sátt um framleiðsluna og tryggja kjör þeirra sem yrkja og halda landinu okkar í byggð. Við viljum líka gera betur í heilbrigðis og menntamálum en við verðum að forgangsraða verkefnum og getum ekki lofað öllu. Í mínum huga er árið 2018 árið sem við hefjum grettistak í bætum samgöngum og þá skiptir mestu máli að byrja á að tryggja umferðaröryggi á fjölförnustu vegum, byggja brýr og nýja vegi og bæta viðhald.
Ég þakka fyrir sumarið og hlakka til haustsins með ykkur öllum.
Ásmundur Friðriksson alþingismaður.
Höfundur: Ásmundur Friðriksson.
F. í Reykjavík 21. jan. 1956. For.: Friðrik Ásmundsson (f. 26. nóv. 1934) skipstjóri og skólastjóri og Valgerður Erla Óskarsdóttir (f. 24. maí 1937). M. Sigríður Magnúsdóttir (f. 26. jan. 1958) matráður. For.: Magnús G. Jensson og Kristín Guðríður Höbbý Sveinbjörnsdóttir. Börn: Ása Hrönn (1982), Erla (1984), Magnús Karl (1991). Sonur Ásmundar og Sigurlaugar Sigurpálsdóttur: Friðrik Elís (1975). Stjúpdóttir, dóttir Sigríðar: María Höbbý Sæmundsdóttir (1977).
Gagnfræðapróf Skógaskóla 1973.
Stundaði netagerð og sjómennsku 1970-1972. Vann við hreinsun Heimaeyjar sumarið 1973. Verkstjóri hjá Viðlagasjóði við hreinsun og endurreisn og uppgræðslu Heimaeyjar 1974-1978. Framleiðslu- og yfirverkstjóri hjá Vinnslustöð Vestmannaeyja 1978-1986. Sjálfstætt starfandi blaðamaður 1980-2003. Framkvæmdastjóri Samkomuhúss Vestmannaeyja 1986. Rak fiskvinnslufyrirtækið Kútmagakot ehf. 1988-2003. Framkvæmdastjóri Knattspyrnudeildar Keflavíkur 2004. Verkefnastjóri Ljósanætur 2006. Verkefnastjóri í atvinnu- og menningarmálum hjá Reykjanesbæ 2008. Bæjarstjóri Sveitarfélagsins Garðs 2009-2012.
Í þjóðhátíðarnefndum Vestmannaeyja 1974-1996. Formaður handknattleiksdeildar Þórs 1974-1978. Formaður Eyverja, félags ungra sjálfstæðismanna, 1981-1984. Í stjórn SUS 1983-1987. Í flokksráði Sjálfstæðisflokksins og í stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Eyjum 1982-1986.Formaður íþrótta- og tómstundaráðs Vestmannaeyja 1982-1986. Formaður ÍBV 1994-1999. Formaður knattspyrnudeildar ÍBV 1999-2002. Stofnandi og formaður hollvinasamtaka Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði, NLFÍ, 2005-2011. Í stjórn Félags myndlistarmanna í Reykjanesbæ 2007-2008. Stofnandi Lista- og menningarfélagsins í Garði 2009. Stjórnandi listaverkefnisins Ferskir vindar í Garði 2010. Formaður Sjálfstæðisfélagsins í Garði frá 2012.
Alþm. Suðurk. síðan 2013 (Sjálfstæðisflokkur).
Atvinnuveganefnd 2013-, velferðarnefnd 2013-.
Ritstjóri: Fylkir, málgagn sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum (1986-1988).
Heimsmet í eymd
1.September'21 | 09:31Orkan og tækifæri komandi kynslóða
25.Ágúst'21 | 10:28Minning: Bragi Júlíusson
1.Júlí'21 | 06:56Á staðnum með fólkinu
24.Maí'21 | 22:19Gerum flott prófkjör!
4.Maí'21 | 14:22Geldingadalur tækifæri nýrra starfa á Suðurnesjum
1.Apríl'21 | 10:03Minning: Þórður Magnússon
18.Mars'21 | 07:30Minning: Ingimar Ágúst Guðmarsson
16.Janúar'21 | 11:51Minning: Páll Árnason
15.Janúar'21 | 10:15Á að loka framtíðina inni?
15.Desember'20 | 07:45Má bjóða þér að auglýsa hér?
15.Janúar'18Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð
10.September'18Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp
2.Mars'21Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...