Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU skrifar

Rekstarfé á föstum fjárlögum dugar ekki

Heilbrigðisráðherra og ráðuneyti hans hefur verið gert viðvart um áskoranirnar í rekstri HSU

28.Ágúst'17 | 06:33
herdis_gunn_hsu_eyjar

Herdís Gunnarsdóttir. Mynd/samsett.

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU skrifar pistil inná heimasíðu Heilbrigðisstofnunnar Suðurlands. Þar segir hún frá því að mikið og vaxandi álag hafi verið á starfsfólki HSU á þessu ári. 

Hún segir starfsemina á stofnunni samt sem áður í heildina gengið mjög vel.

Aðgengi hefur verið gott á heilsugæslustöðvum HSU á Suðurlandi nú í sumar og biðtími stuttur 

„Afar vel gekk að ráða í afleysingarstöður á starfstöðvum okkar um Suðurlandið.  Ég hef gert mér ferð til að hitta starfsfólk og stjórnendur nú í lok sumars á flestum starfstöðvum og ánægjulegt er að fá að hitta nýtt fagfólk sem hefur gengið til liðs við okkur.  Aðgengi hefur verið gott á heilsugæslustöðvum HSU á Suðurlandi nú í sumar og biðtími stuttur, en víða er vaxandi þyngd í heimahjúkrun. Slys, alvarleg og bráð veikindi koma daglega inn á borð okkar á smærri heilsugæslustöðvum HSU.  Það er aðdáunarvert hversu faglegt samstarf hefur gengið vel og allir hafa lagt sig fram um að samvinnan skili sem bestri þjónustu fyrir þá sem til okkar leita. Ég vil því sérstaklega þakka fyrir góða frammistöðu nú í sumar.” segir Herdís.

Ein stærsta áskorun sumarsins

”Ein stærsta áskorun sumarsins var þann 10. águst s.l. þegar alvarleg veikindi og fjöldasýking kom upp í sumarbúðum Skáta á Úlfljótsvatni.  Þar dvaldi fjöldi erlendra ungmenna á aldrinum 10-25 ára og kallað var eftir aðstoð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.  Læknir og sjúkraflutningalið frá HSU var sent á vettvang á Úlfljótsvatni til að kanna aðstæður og þá kom í ljós hve gríðarlega stórt umfangið var.  Í kjölfarið var viðbragðsstjórn HSU virkjuð.   Ákveðið var í samráði við viðbragðsaðila á Suðurlandi, björgunarsveitir og Rauða Krossinn, að opna upp fjöldahjálparstöð vegna sýkingarinnar í grunnskólanum í Hveragerði. Allir 181 einstaklingarnir sem dvöldu á Úlfljótsvatni voru fluttir til dvalar á fjöldahjálparstöðina og er um að ræða stærstu sjúkraflutninga sem þekkst hafa hér á landi. Tæplega helmingur þessa stóra hóps veiktist af Nóru veirusýkingu sem veldur alvarlegri og bráðsmitandi magapest.  Framkvæmdastjórn HSU sendi hjúkrunarfræðinga, lækna og sjúkraflutningamenn til að meta og meðhöndla hina veiku. 

Vel gekk að ráða við ástandið og að kalla út nauðsynlegan  liðsauka vegna hinna veiku.  Þeir sem ekki voru veikir voru fljótlega útskrifaðir en þeir sem sýktust voru lengst um 4 sólarhringa í fjöldahjálparstöðinni. Undirbúningur að þrifum og sótthreinsun fjöldahjálparstöðvarinnar í grunnskólanum gekk vel og starfsemi hófst þar með eðlilegum hætti. Í heildina gekk vel að ráða niðurlögum sýkingarinnar og má fullyrða að hópslysaæfingar og þétt og gott samstarf allra viðbragðsaðila skipti sköpum í að ráða við umfang krefjandi verkefna af þessari stærðargráðu.  Því vil ég fyrir hönd okkar á HSU hrósa öllum þeim sem að máli þessu komu fyrir fagleg og góð viðbrögð og þakka góðu samstarfi árangurinn og að allt vel.

Vöxturinn í starfsemi og aðsókn að þjónustu hjá HSU vex miklu hraðar en föst fjárframlög

Það verður þó ekki hjá því komist að greina frá því að hjá okkur eru blikur á lofti í rekstrinum. Ég hef áður greint frá því að tekist hefur að greiða úr rekstarar- og skuldavanda eldri stofnanna HSU.  Staðreyndin er hins vegar sú, sem blasir við okkur að vöxturinn í starfsemi og aðsókn að þjónustu hjá HSU vex miklu hraðar en föst fjárframlög.  Það er stöðugt verkefni að gæta aðhalds á öllum sviðum og nýta sem best það almannfé sem okkur er falið að ráðstafa til heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi. Hins vegar er ljóst að aðgerða er þörf til að bregðast við auknum verkefnum á bráðamóttöku og sjúkrahúsi á Selfossi.  Því til stuðnings ber að nefna að á bráðmóttökunni á Selfossi hefur fjöldi koma vaxið á 2 ára tímabili frá 2014 til 2016 um 34%.  Það er augljóst að rekstarfé á föstum fjárlögum dugar ekki fyrir mönnunarþörf sem fylgir viðlíka aukningu. Heilbrigðisráðherra og ráðuneyti hans hefur verið gert viðvart um áskoranirnar í rekstri HSU.

Ég vil leggja áherslu á nú í september og október að hitta sem flesta starfsmenn og stjórnendur.  Eins er áætlaður hjá okkur ársfundur HSU eftir miðjan september mánuð. Það verður í fyrsta sinn sem við höldu ársfund frá því HSU sameinaðist í ársbyrjun 2015.” segir Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

15.Janúar'18

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

24.Desember'17

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2017.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is