Lóa Baldvinsdóttir Andersen skrifar:

Sálarmyrkrið!

25.Ágúst'17 | 13:59

Ég hef alltaf átt ofsalega erfitt með myrkur. Ég er vandræðalega myrkfælin miðað við aldur minn og sef enn með kveikt ljós þegar ég er ein heima. Ímyndurnaraflið mitt er betra en góðu hófir gegnir og ég trúi í alvöru að það sé skrímsli undir rúminu mínu. 

Alltaf, og þá meina ég alltaf, þegar rafmagnið fer af þá er fyrsta hugsun sem skýst upp í hausinn á mér ,,Frábært,nú erum komnar geimverur að ráðast á okkur“. Það er auðvitað allt fullkomlega heilbrigt við þessar hugsanir......eða bara ekki.

Ég var náttúrulega óþolandi krakki og aumingja mamma og pabbi sváfu líklegast aldrei heila nótt. Fyrir það fyrsta var ég á milli mun lengur en flestir aðrir. Þegar því loksins lauk fór ég á dýnu á gólfið. Nú ef ég var svo huguð að sofa í mínu herbergi sem var beint á móti herbergi mömmu og pabba þá kallaði ég á sirka 5.mínútna fresti ,,Eruð þið nokkuð sofnuð“  og  Guð hjálpi þeim ef þau slökktu ljósið áður en ég sofnaði. Þannig það má segja að foreldrar mínir hafi búið við stöðugar pyntingar af minni hálfu, þau sváfu í flóðljósum sem myndu sæma sér vel á Wembley á úrslitaleik ensku deildarinnar og þau voru vakin á nokkurra mínútna fresti sem var einmitt viðurkennd pyntingaraðferð hjá nasistum í seinni heimsstyrjöldinni. Ef ég hefði átt mig þá hefði ég bara hreinlega gefið mig til ættleiðingar.

En ég hef líka glímt við annars konar myrkur,núna í bráðum 14 ár. Það myrkur á það til að setjast að í sálinni minni og hjartanu og yfirleitt þegar ég á engan veginn von á því.  Það er samt þannig að sálarmyrkrið mitt fylgir vetrarmyrkrinu og því verð ég oft hálf óróleg þegar veturinn fer að minna á sig.  Ég hef þó lært með árunum og reynslunni (hokin af reynslu sjáiði til) að passa mig að kvíða ekki fyrir kvíðanum, láta ekki hugann minn hafa yfirhöndina, ég á stjórnina. Ég ætla ekkert að ljúga að ykkur og segja að þetta gangi alltaf vel hjá mér sko.  Stundum gengur þetta rosa vel og ég læt hugann heyra það en oft gengur þetta bara ekkert vel og hugurinn minn tekur algerlega yfirhöndina. Hann segir mér að vera hrædd við allt og ekkert, hann segir mér að forðast fólkið mitt og hann segir mér líka að ég sé ljót, leiðinleg, feit og heimsk. Þessir dagar eru hörmung og það er hrikalega sárt að vera á þessum stað.

Það er nefnilega svo ógeðslega magnað að maður fer að trúa þessu.  Ég lít í spegilinn og sé einhverja stelpukonu sem ég í rauninni þekki ekki, því ég er ekki svona. Ég er yfirleitt hrikalega glöð, finnst sjúklega gaman að vera til og er bara nokkuð ánægð með mig, með öllum aukakílóum, slitum, kostum og göllum.

Það getur verið erfitt að útskýra þessa vanlíðan fyrir fólki sem er svo ótrúlega heppið að upplifa hana aldrei. Það er erfitt fyrir fólk að skilja að í gær var ég hrókur alls fagnaðar en í dag svara ég ekki í símann og það er eins og ég hafi horfið af yfirborði jarðar. Það erfitt að útskýra að ég, sem hló hæst í partýinu um síðustu helgi get ekki hitt neinn um þessa helgi því ég get ekki hætt að gráta.  

Það er nánast ómögulegt að koma því í orð að ég geti ekki farið fram úr rúminu því hjartað er brotið, sálin er þreytt og ég er svo hrædd um að ef ég fer á fætur þá komi eitthvað hræðilegt fyrir sem verði til þess að ég deyi.  Það er nefnilega þannig að þegar maður glímir við sálarmyrkrið þá fer öll rökhugsun og skynsemi er ekki til. Hugsanir streyma stjórnlaust og fæstar eiga sér stoð í raunveruleikanum. Hugsanir sem snúast um að í hvert sinn sem síminn hringir eftir 22 á kvöldin þá sé pottþétt verið að segja mér að einhver sem ég elska sé dáin eða hafi lent í slysi. Hugsanir sem segja mér að ef ég sýni veikleikamerki þá snúi fólk við mér baki og ég missi alla frá mér. Flestar hugsanir eru svona kjánalegar og eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum....en fyrir mér eru þær raunverulegar þegar sálarmyrkrið hefur yfirhöndina.

,,Farðu bara út að labba“ ,,Komdu nú með okkur, þú hefur gott af því“ ,,Vertu ekki svona dramatísk“ ,,Þaðer nákvæmlega ekkert að, þetta er allt í hausnum á þér“ eru setningar sem hjálpa ekkert, gera ekkert og bjarga engu. Eina sem þessi orð gera eru að auka á vanlíðan, vanmátt og þær hugsanir að ég sé ekki nóg, geri ekki nóg og einnig auka þær á þá tilfinningu að ég sé með aumingjaskap. Þessar setningar eru allar sagðar af góðum hug, fólkið sem segir þær vilja mér allt það besta og bera minn hag fyrir brjósti þegar þau segja þær. En trúiði mér, er þetta væri svona einfalt þá glímdi engin í heiminum við andleg veikindi. Ef gönguferð er allt sem þarf þá værum við nú vel stödd og engin væri að berjast við þunglyndi, kvíða,  félagsfælni eða önnur andleg veikindi.

Þegar sálarmyrkrið nær yfirhöndinni er það eitt sem víst er, batinn byrjar alltaf hjá mér og ég verð að finna kraftinn til að taka af skarið og halda áfram.  Stundum nægir mér að feta bataveginn sjálf en stundum þarf ég líka fagfólk til að hjálpa mér og þá geri ég það. Þegar ég hef tekið skrefið í átt að ljósinu þá hefst uppbyggingin og þá er ég afskaplega þakklát fyrir fólkið mitt sem drífur mig út í göngu, stundum bara í 10 mínútur.  Fólkið mitt sem hringir og biður mig að koma á kaffihús, bara til að sitja þar í korter. Fólkið sem býður mér í partý en segir svo bara ,,Takk fyrir komuna, frábært að fá þig“ þegar ég fer heim eftir klukkutíma. Þetta er fólkið mitt sem tekur mér eins og ég er, skilur mig eins og ég er og gefur mér svigrúm til að takast á við lífið á minn hátt. Fólkið mitt með óbilandi trú á mér og endalausa þolinmæði þegar veikindin mín taka yfirhöndina og ég týnist í smá stund,  ég hef nefnilega borið þá gæfu til að finna mig alltaf aftur.

Nú þegar myrkrið fer að hellast yfir okkur og veturinn heilsar fljótlega í öllu sínu veldi ætla ég að reyna að hugsa jákvætt.  Fyrir nokkrum árum var ég að berjast við sálarmyrkrið mitt um miðjan vetur og myrkrið var allt um kring.  Þá sagði mamma mér frá góðri vinkonu sinni sem breytti hugsunarhætti sínum gagnvart myrkrinu.  Hún fór að líta á myrkrið sem hlýtt og alltumvefjandi.  Hún leit á myrkrið sem tækifæri til að kveikja á kertum og fallegum lömpum,  setja í hægari gír og njóta þess að kúra undir teppi með góða bók eða horfa á skemmtilega mynd.  Ég ætla að reyna að tileinka mér þennan hugsunarhátt því mér finnst hann fallegur og notalegur. Það verður verkefni vetrarins hjá mér -Að gera myrkrið að vini mínum en ekki óvini.

Elsku fólkið mitt, verum tillitsöm hvert við annað, munum að það eru allir að berjast við eitthvað og það er ekki okkar að dæma eða hafa skoðanir á öllu, alltaf.

 

Ykkar

Lóa smiley

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Vilt þú ná til Eyjamanna?

28.Júní'17

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.