Vinnslustöðin:

Kaupin á Glófaxa samþykkt á hluthafafundi

- gegn atkvæðum næststærsta hluthafans, Brims hf.

23.Ágúst'17 | 19:37
glofaxasamth_vsv.is

Frá hlutahafafundinum í dag. Mynd/vsv.is.

Samningur um kaup Vinnslustöðvarinnar á öllum hlutabréfum í Útgerðarfélaginu Glófaxa ehf. í Vestmannaeyjum var samþykktur á hluthafafundi VSV í dag gegn atkvæðum næststærsta hluthafans, Brims hf.

Deilur um upplýsingagjöf

Kaupin á Glófaxa voru tilefni hluthafafundarins í dag. Brim hf. á um þriðjungshlut í Vinnslustöðinni og Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims á sæti í stjórn VSV. Hann lýsti yfir á fundinum að meirihluti stjórnar VSV hefði neitað að veita sér nægjanlegar upplýsingar um kaupin á Útgerðarfélaginu Glófaxa. Því myndi hann leggjast gegn kaupunum við afgreiðslu málsins. Greint er frá málinu á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

Guðmundur Örn Gunnarsson, stjórnarformaður Vinnslustöðvarinnar, mótmælti ummælum nafna síns frá Brimi og sagði að stjórnarmenn og hluthafar hefðu fengið allar upplýsingar sem máli skiptu um kaupsamninginn á stjórnarfundi í gær og í kynningu Þorvarðar Gunnarssonar löggilts endurskoðanda á hluthafafundinum í dag. Guðmundur Örn vísaði því á bug að Guðmundur Kristjánsson hefði verið leyndur einhverjum upplýsingum sem tengdust kaupum á Glófaxa. 

Bæta við sig liðlega 900 þorskígildistonnum

Kaupin á Glófaxa voru samþykkt að umræðum loknum og hluthöfum síðan boðið að skoða nýja uppsjávarvinnslu Vinnslustöðvarinnar.

Vinnslustöðin eignast nú stærstan hluta fiskveiðiheimilda Glófaxa, liðlega 900 þorskígildistonn (meirihlutann í þorski), netabátinn Glófaxa VE-300, fasteign að Strandvegi 89 í Vestmannaeyjum, veiðarfæri og ýmsa aðra lausafjármuni.

Stefnt að afhendingu 1. október

VSV fær Útgerðarfélagið Glófaxa afhent að óbreyttu 1. október 2017 en í kaupsamningi, sem undirritaður var fyrr í sumar, eru hefðbundnir fyrirvarar um áreiðanleikakönnun, fjármögnun, samþykkti Samkeppniseftirlits og samþykki stjórnar og/eða hluthafafundar.

Seljendur eru eigendur alls hlutafjár í Útgerðarfélaginu Glófaxa, Bergvin Oddsson og fjölskylda.

Seljendur halda eftir línu- og netabátnum Glófaxa II VE-301 og 50 þorskígildistonnum og hyggjast stunda útgerð áfram. Þá halda seljendur eftir Glófaxanafninu og verður því breytt um nafn á bæði Útgerðarfélaginu Glófaxa og Glófaxa VE-300 við eigendaskiptin í haust.

Bergvin Oddsson, Hrafn Oddsson og Sævaldur Elíasson keyptu Glófaxa VE-300 á árinu 1974 og stofnuðu útgerðarfélagið Snæfell sf. um reksturinn. Bergvin keypti Hrafn og Sævald út 1986 og árið 1994 var nafni félagsins breytt í Útgerðarfélagið Glófaxi.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

24.Desember'17

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2017.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

15.Janúar'18

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.