Atli Rúnar Halldórsson brá sér á Fiskidaginn mikla og sendi okkur þennan pistil

Geir Jón fór á kostum í Dalvíkurkirkju

12.Ágúst'17 | 10:06
IMG_6490

Geir Jón messar hér yfir söfnuðinum. Ljósmyndir/ARH.

Það er sjálfsagt mál að hlæja mikið, innilega og lengi í guðsþjónustu Fiskidagsins mikla á Dalvík. Hláturinn lengdi sannarlega lífið þegar Eyjamaðurinn Geir Jón Þórisson ávarpaði gesti í Dalvíkurkirkju við upphaf Fiskidagsins mikla í ár, þess sautjánda í röðinni frá upphafi. 

Gesturinn úr Eyjum fór nefnilega á kostum. Geir Jón var ræðumaður dagsins við guðsþjónustuna. Hann kom fyrst á Fiskidagssamkomu árið 2006 og hefur verið fastagestur ár eftir ár síðan þá.

Hann rifjaði upp að í fyrstu heimsókninni tók hann með sér að sunnan lager af nýjum geisladiski Lögreglukórsins og seldi til hægri og vinstri þar til allur farmurinn hafði skipt um eiganda.  Meira að segja Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra kunni ekki við annað en að kaupa disk af himingnæfandi yfirlögregluþjóni að sunnan.

Nokkrum dögum síðar barst Geir Jóni bréf frá Dalvík, undirritað af Júlíusi Júlíussyni fiskidagsstjóra. Hann benti yfirlögregluþjóninum á að í boðorðum Fiskidagsins væri kveðið skýrt á um að sölustarfsemi á hátíðarsvæðinu væri stranglega bönnuð. Þar skal allt ókeypis vera en einn maður sinnti ekki boðorðinu og seldi Lögreglukórinn á báða bóga.

Geir Jón var allt í senn; löghlýðinn borgari, yfirmaður í lögreglunni og kristilega þenkjandi langt yfir meðallag. Honum varð hverft við erindið frá Dalvík og svaraði Júlla til baka með ósk um fyrirgefningu synda. Fiskidagsstjórinn gaf yfirlögregluþjóninum upp sakir og fyrirgaf syndir. Sama gerði Magnús Gunnarsson sóknarprestur í Dalvíkurkirkju.

Geir Jón er með tandurhreint syndaregistur á Dalvík og hjartanlega velkominn á Fiskidaginn um alla framtíð og reyndar velkominn alla hina daga ársins líka ef  svo ber undir.

Hann sló í gegn í guðsþjónustu og lauk máli sínu með því syngja þjóðsöng Eyjamanna yfir söfnuðinum. Söngurinn sá hefur aldrei verið fluttur fyrr í guðshúsi Dalvíkinga og elstu menn í Dalvíkursöfnuði minnast þess reyndar ekki að fyrr hafi verið sungið í sjálfum prédikunarstólnum. Svipurinn á sóknarprestinum benti fyrst í stað til þess að hann íhugaði hvort endurvígja þyrfti kirkjuna vegna óvænts Eyjasöngs í stólnum en svo áttaði prestur sig auðvitað fljótt á því að Geir Jón Þórisson er í reynd framlenging á almættinu. Þegar slíkir menn hefja upp raust sína í kirkju hvarflar ekki að nokkrum manni að endurvígja, allra síst almættinu.

Diskur Löreglukórsins heitir Hæfileg refsing. Yfirlögregluþjóninum var refsað alveg hæfilega og hann hefur tekið gleði sína á ný og rúmlega það. Þegar rökkva tók á Dalvík voru syndir gleymdar og grafnar. Geir Jón söng með glöðum Dalvíkingum og gestum þeirra á götum úti. Ekki langt þar frá sló Grímur kokkur taktinn. Eyjamenn eru góðir og afar velkomnir gestir Fiskidagsins mikla nú sem fyrr og alla tíð.

Hér að neðan má sjá fleiri myndir frá Fiskideginum mikla.

IMG_6546

Geir Jón í góðum félagsskap.

IMG_6552

Eyjamenn eru duglegir að sækja hátíðina.

IMG_6553

Smelltu á til að stækka.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.