Hátíðarræða Þjóðhátíðar

11.Ágúst'17 | 06:54
disa_kjartans

Dísa fyrir utan Múlakot.

Arndís María Kjartansdóttir flutti fyrir réttri viku hátíðarræðu Þjóðhátíðar á setningarathöfn hátíðarinnar. Eyjar.net birtir hér ræðu Dísu Kjartans.

Yndislegu Eyjamenn, duglega þjóðhátíðarnefnd og frábæru þjóðhátíðargestir. Hvaða rugl er þetta eiginlega. Ég er sveitt í lófunum, mig svimar og langar að flytja til Færeyja akkúrat núna! 

Hver eiginlega ákvað þetta, maður bara spyr sig og hvað gæti ég mögulega haft að segja. Ég er alltof sein að byrja í átakinu ,, Í glimmergalla fyrir Palla“. Ég hef aldrei birst í Séð og Heyrt og ég er hvorki leikari né landliðsþjálfari. En ég er fabulous, því verður ekki neitað, reyndar að eigin sögn, en who cares. Og ég elska föstudaga, sérstaklega þennan frábæra föstudag, þangað til ég var beðin um að halda þessa ræðu!!!! 

Ég er ekki að dansa breikdans hérna uppi, ég titra bara svona mikið af stressi..............en ég ætla bara að ímynda mér að þið séuð öll allsber. 
Í gær fékk ég sendar 50 rósir úr Reykjavík frá góðum vini mínum, Óla Bogga. Þá áttaði ég mig á því að ég væri að verða miðaldra. Frábært móment til að uppgötva það, daginn áður en ég á að standa fyrir framan þúsundir manna og ég sem hélt að ég væri tæplega tvítug djammdrottning. 
Þannig að ég er miðaldra þjóðhátíðarsjúk, þriggja barna móðir úr Eyjum, Dísa heiti ég og er Kjartansdóttir, dóttir Kjartans og Addýjar á Múla. Eiginkona, kennari og allskonar annað. 

Ég ætla að reyna að útskýra fyrir ykkur af hverju þjóðhátíð er öðruvísi en aðrar hátíðir og hvernig minningar mínar í gegnum lífið tvinnast í þessari brjálæðisskemmtun sem hátíðin er í raun og veru. Þjóðhátíð er í raun sumar- jól fyrir okkur Eyjamenn og undirbúningurinn eftir því. 
Mín fyrsta minning um þjóðhátíð var hryllileg. Ég er ennþá að jafna mig. Þjóðhátíðarlagið var ,,Vornótt í eyjum“. Finna Vídó passaði mig svo systir mín gæti skemmt sér í dalnum, hún var þrettán ára, ég er ekki viss um að það hafi verið útivistarreglur á þessum tíma. Ég fékk 50 kall fyrir að vera stillt og drepa ekki Finnu með frekju. Ég stalst heim á hádegi daginn eftir, vakti systur mína sem virtist vera glær eftir gleðina og heimtaði að verða sótt úr þessari plebbalegu pössun. Fyrir 50 kallinn keypti ég mér nammi í blaðó. Þarna var ég 5 ára........ég hefði betur ávaxtað fé mitt eins og Stjáni Óskars gerði við fermingarpeningana sína hérna um árið.

En ég ólst ekki upp við þessa þjóðhátíðarást eins og barna er siður hérna í Eyjum. Foreldrar mínir reyndu að verða þjóðhátíðarfólk, árið var ´83 og þjóðhátíðarlagið hét ,,Gaman og alvara“. En það lýsti ástandinu í fáum en góðum orðum. Þau fjárfestu í öllum réttu græjunum, eggjabrauð og heit kókómjólk á flöskum, ásamt vínarbrauði og jafnvel snakkpoka var það sem var á boðstólnum. Það var gamanið. Á sitt frábæra koffort settust þau og biðu gestanna, sem urðu ekki margir þetta fyrsta og eina ár. Enginn vissi nefnilega að þau væru komin með tjald. Það var alvaran. Í þá daga var slæmt að vera athyglissjúkur, Halli Hannesar hefði nú átt erfitt uppdráttar á þessum tíma, já og ég reyndar líka ef því er að skipta. Það er nú skemmst frá því að segja að þau tjölduðu ekki aftur, seldu draslið og elduðu bara kjötsúpu heima fyrir okkur krakkana í mörg ár á eftir. Þar með var ég orðin munaðarlaus á þjóðhátíð þó kjötsúpuna fengi. 

Næsta minning mín tengist Ómari á Fréttum og hans frú. Hjá þeim varð ég mjög sjúk, þjóðhátíðarsjúk, já og jafnvel hundasjúk eins og þau segja í Færeyjum. Þau tóku mig að sér sem Munaðarleysingjann frá Múla. Þjóðhátíðarlagið var ,,Ég meyjar á kvöldin ég kyssi og átti það skuggalega vel við. Einhverntímann byrja allir að keppa í sleikt og slefað. Berglind Ómars og ég tókum þátt í keppninni á þessum tíma, en í sitthvoru lagi þó. Ég held svei mér þá að hún sé eina vinkonan mín sem hringir í mig á afmælisdaginn minn,.....bara til áréttingar fyrir hina vinina.....Anna, Hanna Sigga og Gunnheiður og svo allir hinir sem mættu ekki í ár mega taka það til sín..... Þessi frábæru hjón kynntu mig fyrir einstakri þjóðhátíðarstemningu á sínu heimili, súpa í hádeginu, samlokur og söngur, en þau kynntu mig líka fyrir kokteilsósunni, en fyrir það fá þau reyndar engar þakkir. Síðast en ekki síst lærði ég að útbúa hot and sweet í kjallaranum hjá þeim, algjörlega frá grunni, það reyndist ekki mér til framdráttar á neinu sviði. Ég hef látið það vera síðan. En uppskriftina get ég selt áhugasömum á litla danspallinum í nótt. 

Svo tók Helen systir við mér, sú sama og eyðilagði fyrstu upplifun mína af þjóðhátíð. Þjóðhátíðarlagið var ,,Næturfjör“ og það stóðst, því það er stanslaust næturfjör í hennar tjaldi. Hún er fædd þjóðhátíðarmanneskja þó hún þræti fyrir það. Með risastórt tjald, stútfullt út úr dyrum og stanslaust stuð. Það eru örugglega ekki færri en 50 manns í hennar tjaldi hverju sinni og fara þar börn hennar fremst í flokki, ef þið hittið tvær systur með kalda eðlu á röltinu í nótt, þá eru það hennar dætur, enda ekki langt að sækja þjóðhátíðarástina. Hver hengir tvíreykt hangilæri í tjaldið nema hún, og þá til að gleðja tengdadóttur sína. Eða hýsir vini bróður síns sem hætta svo saman á hátíðinni og endar með kærustuna grenjandi inni hjá sér í þrjá daga meðan gaurinn kemur heim með nýja kærustu á hverju kvöldi. Við höfum lent í ýmsum hamförum saman við systur, tjaldað í suðaustan 70 metrum, nánast fokið til fjandans, næstum kveikt í næsta tjaldi og ógleymanlegt er þegar hún fór í bústað á þjóðhátíð, lýsti svo yfir grenjandi að hún ætlaði heim, hótaði skilnað, henti fjölskyldu og farangri í bílinn og brunaði í Herjólf klukkan 6 á laugardagsmorgni, ég á fleiri svona vini. Nefni engin nöfn, þið vitið vel hver þið eruð.....Bergur og Jóní. 

Nú er Kolla litla systir mín líka mætt með sína fjölskyldu og sitt Hobbitatjald, en það skemmir ekki fyrir að gæinn sem hún giftist er ekki bara endurskoðandi, heldur geggjaður gítarleikari og því velkominn í öll tjöld, Hún er ekki jafn vinsæl og hann enda pikkaði ungur maður í öxl hennar í brekkusöngnum og sagði ,,fyrirgefðu en værir þú nokkuð til í að sleppa því að syngja, þú ert að eyðileggja lagið......,common, það er 15 þús. manns að syngja og hún ein var að skemma fyrir......

Þá er Bogga systir mætt, en hún hefur ekki látið sjá sig í tólf ár, mín minning af henni á þjóðhátíð er þegar eiginmaður hennar nappaði ruslatunnu til að keyra hana heim eftir gleði næturinnar, þar sem þau tímdu ekki að taka leigubíl, mig minnir að tunnan hafi verið tekin ófrjálsri hendi á Hásteinsveginum, þeir sem töpuðu tunnunni sinni fyrir tólf árum geta rukkað hana eftir ræðuna við sjoppurnar. 

Ein skýrasta minning um hvað hátíðin táknar fyrir okkur Eyjamenn er frá þjóðhátíðinni 2002. Ég var með Bríeti fjögurra mánaða og Breka fjögurra ára. Eiginmann á sjó og með stærstu mögulegu tegund af Silver Cross barnavagni sem til var, hann var eins og geimskip. Veðrið var kolklikkað, rok og þversum rigning beint í andlitið. Án efa 70 metrar á sek. Vagninn of stór til að komast inn í bekkjarbíl, þannig að í dalinn skyldi ég labba með krakka og köku. Maður mætir á setninguna rain or shine, það er bara þannig. Guði sé lof að það sé shine í dag en ekki rain. En þessari gönguferð gleymi ég aldrei, búandi uppá fjalli og labba alla leið inní dal með helvítis rjómatertuna undir vagninum. Ég hef lítið labbað síðan. Þjóðhátíðarlagið var ,,Vinátta“ en hefði átt að vera ,,Barátta“. Með þessu gerðist þó eitt gott, ég herti Breka minn og er hann þjóðhátíðarsjúkur allar götur síðan, Bríet systir hans, sem svaf í vagninum er verri, hún lifir fyrir þjóðhátíð. Yngsta barnið hún Berta mín varð þjóðhátíðarsjúk strax við fæðingu. Hún er ekkert að lagast.

Ef maður giftist Eyjamanni þá getur vel verið að maður eignist hlut í tjaldi í kjölfarið sem er mikill kostur. Þjóðhátíðarlagið var ,,Ástfangin í þér“ og ég sver það, ég er viss um að öll þessi lög hafi verið samin um mig!!!!. Addi í London og systkini áttu tjald með Ómari mínum. Ég var með þeim í nokkur ár, en varð að eignast tjald...alein.....og því fór sem fór, ég fór og fékk forláta gúmmíhanska í gjöf að skilnaði......þeir nýtast nú lögreglunni við líkamsleit. 

Tóku Svanhildur og Addi Palli við mér í eitt ár til prufu. Páll Óskar söng, ,,La Dolce Vita“ og líklega þess vegna gekk sambúðin svona glimrandi vel, enda ekkert nema glimmer og gleði þessa þjóðhátíð. Eftir þessa stuttu sambúð vissi ég hvað ég vildi, ég var tilbúin að fara að heiman og kaupa mér tjald, þarna er ég 42 ára. 

Þegar ég hugsa tilbaka þá er ég Elizabeth Taylor þjóðhátíðartjaldanna. Ég hef skipt jafn oft um tjöld og hún um eiginmenn. 
Ég hef stundum beðið um furðulegar afmælisgjafir. Ég hef óskað eftir bæði flaggstöng og þjóðhátíðartjaldi í afmælisgjöf. Íris vinkona segir að ég sé ekki nógu smækó og smart í þessum beiðnum en Gugga granna skilur mig. Auðvitað fæ ég allt sem ég vil, svona oftast, það er ekki alltaf auðvelt fyrir Ómar að vera giftur frú fabulous. Sem minnir mig á þegar ég sagði honum að ég hefði verið ánægð að fara erlendis yfir þjóðhátíð í þessi tvö skipti sem við fórum til Mallorca hérna um árið, ég laug.......sorry elskan. 

Tjaldið var keypt. Ég skyldi meika það sem fyrsta freyja í dalnum. Nafnaveisla var haldin, tjaldið var skírt og blessað af Guðmundi Erni presti og uppistandara og ég bakaði örugglega meira en Anna Lilja Tómasar þetta árið. Það hefur ekki gerst síðan. The rest is history eins og þeir segja í hamingjusömu Hollywood, það hefur verið sól síðan ég keypti tjaldið, við erum all in. Þjóðhátíðarlagið var auðvitað ,,þar sem hjartað slær“ og það var akkúrat þannig. Ingunn og fjölskylda elska mig. Allavega erum við ennþá saman í tjaldi, en það gæti breyst eftir þessa ræðu.

Börnin mín elska þjóðhátíð aðeins meira en ég. Þau fara að grenja ef ég minnist á að bjóða þeim erlendis í byrjun ágúst. Þau hóta að flytja að heiman og Pallíettu Páll Óskar og Sexýsjarminn Sverrir Bergmann eru í græjunum allt sumarið. Ég baka, smyr, græja og geri. Ég keypti mér þjóðhátíðarfána á afmælisflaggstöngina. Mér er ekki viðbjargandi. Ég skreyti tjaldið eins og fyrir fermingarveislu og er að fíla það. Ég er með frábæra nágranna í efri byggð, Ernu Sævalds og fleiri stuðbolta, en ég frétti að það væri kallað snobbhill, mér er slétt sama, ég kalla þetta Hollywood hæðir og í gær heyrðist mér Jói Pé skíra þetta Irish hæðir. Ég elska hefðir, ég elska að gefa fólkinu mínu gott að borða, ég elska að allir skuli hittast oft á dag í heila þrjá daga, ég elska brasið, hláturinn, tjöldin, brennuna, flugeldana, lyktina, söngin og steminguna sem myndast í dásamlega dalnum okkar. Ég vil þakka fyrir að það er til fullt af fólki sem vinnur þrotlaust að því að gera þjóðhátíðina sem mesta og besta úr garði fyrir okkur. En Þjóðhátíð er líka það sem VIÐ gerum úr henni, hún lýsir okkar innri manni, fögnum henni og upphefjum hana og um leið fögnum við lífinu og okkur sjálfum. Ég ætla að enda þetta á góðum málshætti, en hann segir;

Sumir menn elska fagra konu, meðan aðrir menn elska kjötsúpu.

Eigið algjörlega fabulous þjóðhátíð og takk fyrir mig.

 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Meiraprófsbílstjóri óskast til starfa

29.Apríl'21

Óska eftir meiraprófsbílstjóra í vinnu sem fyrst - tímabundin vinna til 1. september.  Kranapróf kostur. Upplýsingar í síma 6600250, Magnús.

Tungumálafólk óskast til vinnu sem túlkar

10.Maí'21

Alþjóðasetur leitar að fólki í Vestmannaeyjum til starfa sem túlkar.  Góð kunnátta á móðurmáli og íslensku er skilyrði, auk góðrar færni í mannlegum samskiptum, stundvísi, háttvísi og trúnaður.  Starfið er unnið í verktöku og ráðast laun af fjölda verkefna. Vinnutími er frjáls og sniðinn að óskum hvers og eins.  Boðið er upp á gjaldfrjálst starfsþjálfunarnámskeið áður en störf hefjast. Umsókn ásamt ferilskrá sendist á asetur@asetur.is