Sigurmundur G. Einarsson skrifar:

Hið „nýja“ Ísland. Viljum við það?

- er búinn að fá nóg af hagsmunapoturunum sem kippa í spottana og telja sig geta vaðið yfir allt og alla þegar þeim hentar

9.Ágúst'17 | 15:27
Simmi_viking

Sigurmundur G. Einarsson. Mynd/TMS.

Undanfarna daga hef ég fylgst með baráttu bæjarstjórnar Vestmannaeyja, með dyggri aðstoð samgönguráherra, fyrir bættum samgöngum milli Landeyjahafnar og Heimaeyjar. 

Gaman er að sjá þegar pólitíkin fer á tilfinningasviðið og berst fyrir því sem helst mætti kalla „vind í vatnsglasi“ og hefur sigur! Eimskip er fórnarlambið sem bjarga varð. Það hafðist í gegn með „aðlögun“ fyrir séríslenskar aðstæður á Evrópureglugerð 666/2001EU sem gildir í allri Evrópu. Ráðherrann gaf leyfi til tveggja daga siglinga ferjunnar Akraness milli lands og Eyja, en ferjan kom til landsins vegna tilraunaverkefnis varðandi siglingar milli Akraness og Reykjavíkur.

Enn og aftur hefur ráðherra gengið í gegnum eldinn fyrir Eimskip. Áður var búið að berja í gegn breytingar á skilgreiningu hafsvæðisins milli lands og Vestmannaeyja. Það var fært úr B-flokki, sem nær yfir úthaf, í C-flokk en undir hann falla firðir með lygnari sjó en úthafið. Þetta var gert til þess að nokkrir milljónatugir gætu runnið í sjóði Eimskips sem leiga fyrir flóabátinn Baldur.

Leyfið fyrir Akranesferjuna til siglinga milli Landeyjahafnar og Heimaeyjar var veitt þvert á ákvörðun Samgöngustofu. Hún gaf ekki leyfi því ferjan uppfyllir ekki skilyrði reglugerðar. Samgöngustofa er fagstofnun sem hefur það hlutverk að úthluta leyfum af þessu tagi. Hún sér um faglega úttekt á loftförum, sjóförum og landfarartækjum landsmanna. Spyrja má hvort ráðherrann hafi hugsað sér að taka að sér verkefni stofnunarinnar? Ég þykist vita að á bakvið tjöldin hafi snyrtilega klæddir gæslumenn hagsmunaafla þrýst mjög á að gefinn yrði afsláttur af reglunum. Þessir hagsmunagæslumenn haga sér eins og þeir eigi Ísland skuldlaust.

Ég rek ferðaþjónustufyrirtækið Viking Tours í Vestmannaeyjum. Það gerir út tvo farþegabáta og rútur. Við keyptum stærri bátinn 2013 og hugsuðum hann m.a. til siglinga í Landeyjahöfn. Minni báturinn hafði á árum áður leyfi til siglinga milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar að sumarlagi, en var sviptur því þegar Landeyjahöfn var opnuð. Þáverandi Siglingastofnun, nú Samgöngustofa, gaf engan afslátt af kröfum um útbúnað stóra bátsins til siglinga á B-svæði og þurftum við að taka á okkur tugmilljóna króna kostnað svo báturinn uppfyllti kröfurnar. Enginn ráðherra gaf okkur undanþágu og ekki heyrðum við bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum krefjast þess að við fengjum afslátt af kröfum gildandi reglugerða. Er ekki eitthvað til sem heitir jafnræðisregla?

Sú hugsun hefur sótt á mig hvort þetta sem við höfum nýverið orðið vitni að sé það „nýja Ísland“ sem flest okkar vilja sjá? Það eru sveitarstjórnarkosningar á næsta ári. Eigum við, almenningur í landinu, ekki að láta heyra í okkur? Viljum við breyta til? Ég er búinn að fá nóg af hagsmunapoturunum sem kippa í spottana og telja sig geta vaðið yfir allt og alla þegar þeim hentar. Ég spyr: Eigum við ekki að krefjast sama réttlætis og jafnræðis fyrir alla? Græðgin er óseðjandi og mun alltaf heimta meira.

 

Sigurmundur G. Einarsson

Viking Tours Vestmannaeyjum

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.