Hildur Sólveig Sigurðardóttir skrifar:

Menntun í Vestmannaeyjum er öflug og góð

27.Júlí'17 | 13:44
grv_140915

Mynd/GRV.

Í nútímasamfélagi skiptir aðgengi að menntun sköpum.  Samfélagið breytist hratt og líklegt er að ráðandi hluti barna á leikskóla komi til með að vinna störf sem við eigum ekki nöfn yfir í dag.

Ábyrgð kjörinna fulltrúa hvað stefnu og stjórn í þessum málaflokki er rík og mikilvægt að hvergi sé slegið af þegar sótt er fram.  Í Vestmannaeyjum er rekið stórt og mikið fræðslukerfi sem spannar menntun frá leikskólastigi að háskólastigi og langar mig sem formanni fræðsluráðs Vestmannaeyjabæjar að stikla á stóru til að gera grein fyrir hversu víðtækt fræðslukerfi okkar Eyjamanna er.

 

 

Öflug leikskólaþjónusta hornsteinn menntunar og jafnréttis

Fjölbreytt leikskólaþjónusta er í boði en nýverið endurnýjaði Vestmannaeyjabær rekstrarsamning við Hjallastefnuna vegna leikskólans Sóla sem almenn ánægja hefur verið með. Sóli ásamt leikskólanum Kirkjugerði eru öflugar menntastofnanir þar sem yngstu nemendurnir hefja sína skólagöngu og með kærleiksríkri handleiðslu leikskólakennara tileinka þeir sér jafnt og þétt nýja þekkingu, læra umburðarlyndi og samvinnu ásamt því að efla sjálfstæði og þróa sköpunarhæfni sína. Kynjajafnrétti hefur mælst best á Íslandi til margra ára og má að mínu mati m.a. þakka öflugum leikskólum og hóflegum leikskólagjöldum íslenskra sveitarfélaga slíkan árangur, þar sem foreldrar treysta börnum sínum í höndum hæfra starfsmanna leikskóla í æ ríkara mæli. Rekstur leikskóla er síkvikur og nýjar þarfir myndast á hverju misseri.  Fræðsluráð er með þá stefnu að tryggja öllum 18 mánaða börnum leikskólapláss og til að standa undir því markmiði styttist nú í að þörf fyrir auknu plássi myndist og til að mæta þeirri þörf hefur bæjarráð samþykkt fjárframlag til stækkunar leikskólans Kirkjugerði.

 

Grunnskóli Vestmannaeyja í sífelldri sókn

     Starfsemi Grunnskóla Vestmannaeyja hefur breyst umtalsvert á undanförnum árum. Stofnuninni var aldursskipt og varð í stað tveggja sjálfstæðra skóla, ein stór heild sem telur einn fjölmennasta grunnskóla landsins. Nýlega varð 5 ára leikskóladeild Víkurinnar einnig hluti af starfsemi GRV og stækkaði hann enn frekar við þá breytingu. Mikill metnaður hefur legið hjá starfsmönnum skólans og skólayfirvöldum í að ná góðum árangri í menntun grunnskólanemenda á sama tíma og mikil áhersla er lögð á heilsu og vellíðan nemenda. Ein stærsta áskorun grunnskólans líkt og annarra menntastofnana um þessar mundir mun vera að fylgja hraðri tækniþróun samtímans. Til þess að ná árangri er nauðsynlegt að allur aðbúnaður og starfsumhverfi nemenda og starfsfólks skólans sé eins og best verður á kosið hverju sinni. Samræmdar mælingar eru nú orðnar rafrænar og með dyggri aðstoð samfélagsins í Vestmannaeyjum er tækjakostur GRV sífellt að batna. Í síðustu viku samþykkti fræðsluráð 60 milljón króna tillögur sem miðuðu m.a. að því að styrkja stoðkerfi skólans og úrbætur hvað húsnæði og aðstöðu varðar og að draga úr álagi á kennara. Einnig eru nú hafnar tímabærar endurbætur utanhúss á húsnæði Barnaskólans og verkáætlun varðandi framkvæmdir á grunnskólalóðum eru í þróun.

 

Framhaldsskólinn býður upp á fjölbreytt tækifæri til menntunar

Á síðasta ári tók gildi ný reglugerð um styttingu framhaldsskólans og hefur það verið krefjandi verkefni fyrir kennara og nemendur að aðlagast breyttu framhaldsskólaumhverfi. Fjölbreytt námsúrval er í boði við skólann þar sem val er um þrjár línur til stúdentsprófs, starfsbraut ætluð fötuðum nemendum, starfsréttindanám fyrir sjúkraliða og vélstjóra, grunnnám til iðnmenntunar í raf- og málmiðn og framhaldsskólabrú. Þess að auki er ein best útbúna FabLab smiðja landsins staðsett í húsnæði skólans og njóta nemendur góðs af. Af persónulegri reynslu er FÍV góður undirbúningur fyrir frekara nám enda hafa fjölmargir nemendur skólans haldið áfram í krefjandi háskólanám bæði hérlendis og erlendis.

 

Háskólanám stöðugt að aukast 

Viska, fræðslu- og símenntunarmiðstöð hefur verið starfandi frá árinu 2003 og boðið upp á ýmis námskeið, endurmenntun, símenntun og fjarnám í samstarfi við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Á síðasta ári hóf svo Háskólinn í Reykjavík staðbundið nám við Haftengda nýsköpun, en fyrsti nemendahópurinn úr Vestmannaeyjum stóð sig afburðarvel og fékk m.a. tvenn verðlaun fyrir lokaverkefni sitt. Ánægjan með námið var mikil og ákvað Háskólinn í Reykjavík að bæta við möguleikanum á að hefja staðarnám í viðskiptafræði með áherslu á sjávarútveg næsta haust.

 

Stuðningur foreldra lykilatriði

Líkt og sjá má er staða okkar Eyjamanna í menntamálum verulega góð. Fjölbreytnin í námsúrvali er mikil og hefur farið vaxandi, aðstæður og umhverfi skólanna eru í sífelldri þróun og kennarar og starfslið skólanna er dugmikið og metnaðarfullt í að veita nemendum sínum úrvalskennslu. Áfram þarf þó að sækja og þá ekki síst í hverskonar iðn- og verknámi enda er það sá jarðvegur sem atvinnulíf okkar þarf hvað mest á að halda.  Að lokum er vert að taka fram að á öllum þessum menntastigum skiptir áhugi og stuðningur foreldra og aðstandenda við námið verulegu máli fyrir framvindu þess. Að sama skapi hefur samfélagsleg umræða mikil áhrif á þá ímynd sem sköpuð er af náminu. Vestmannaeyingar geta og eiga að vera stoltir af þeim menntastofnunum sem við eigum yfir af búa, þar er unnin ómetanleg vinna við að móta framtíðina. ,,Það þarf heilt þorp til að ala upp barn.”

 

Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Formaður fræðsluráðs Vestmannaeyjabæjar

 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).