Lóa Baldvinsdóttir Andersen skrifar:

Stóra planið......

13.Júní'17 | 12:30
loa_b_mi_cr

Lóa Baldvinsdóttir Andersen

Ég hef alltaf verið alveg sérstaklega léleg í því að lifa lífinu eftir einhverjum reglum og skipulagi. Plön eru eitthvað sem henta mér alveg einstaklega illa og Guð hjálpi mér ef ég þarf að skipuleggja mig eitthvað fram í tímann. Það er aðeins þrennt sem ég geng að vísu í mínu lífi og það eru jólin, Goslokin og Þjóðhátíð, allt þar á milli er óskrifað blað.

Mig langaði einu sinni að vera rosa skipulögð og var um 10 ára aldurinn alveg búin að setja þetta upp fyrir mig. Ég ætlaði að klára 10.bekk með láði, klára framhaldsskólann á þremur árum, taka mér eitt ár í frí til að ferðast og finna framtíðar eiginmanninn minn, skella mér svo í læknisfræði, útskrifast sem barnahjartalæknir áður en ég yrði þrítug og þá kæmu börnin. Tvær stelpur og einn strákur og sex ár á milli þeirra allra.

Það er skemmst frá því að segja að þetta fór ekki aaaalveg svona. Ég var komin á fast 13 ára, ekki nema 6 árum á undan planinu. Ég útskrifaðist úr 10.bekk með ágætum árangri, ekki kannski alveg láði, en árangurinn var fínn sko. Framhaldsskólagönguna byrjaði ég svo á því að falla í tveimur áföngum um jólin þar sem  ég þurfti bara svo mikið að sinna félagslífinu að námið fór aðeins á hold. 17 ára gömul verð ég svo ófrísk af mínu fyrsta barni, 13 árum fyrr en planið sagði til en hei  hvað eru 13 ár á milli vina. Ég gekk með það fóstur í 11.vikur en missti það svo. 17 ára ég gerði mér ekki alveg grein fyrir að þetta væri áfall svo ég var bara komin á djammið helgina eftir, tók sorgina út seinna, þegar ég var aðeins eldri og vitrari.

Nákvæmlega ári seinna verð ég ófrísk aftur og til allrar hamingju hélt sú baun sér afar fast enda einstaklega ákveðin og dugleg stúlka þar á ferð. Þannig var staðan orðin, ég búin með 3 og hálft ár í framhaldsskóla, ekki útskrifuð eins og planið sagði til um, búin að vera á föstu í fimm ár og ófrísk í annað sinn. Planið eitthvað ekki alveg að gera sig en ok. Ég eignast síðan yndislegu Kamillu Rún mína í desember, tók jólaprófin afar snemma það árið, og var allt í einu orðin 19 ára mamma, búandi í einu herbergi hjá mömmu og pabba með kærasta og barn - en hamingjusöm var ég maður minn.  

Vinkonur mínar útskrifuðust allar þessi jól. Jólin sem Kamilla Rún fæddist, ég fór ekki í útskriftarpartýið þeirra þar sem ég var heima að gefa brjóst og það merkilega var að mér var næstum því alveg sama. Lífið hélt áfram, ég var í fæðingarorlofi með litlu stúlkunni minni, fór að búa í kjallaranum hjá stærðfræðikennaranum mínum með kæró og barninu mínu og bisaðist við að klára stúdentinn. Með mikilli hjálp, þrjósku og því að ég er ágætlega vel gefin útstkrifaðist ég sem stúdent í maí 2000. Hamingjan var alger og ég veit ekki hvor var glaðari, ég eða Mamma sem hafði barist með mér allan tímann  og leyfði mér aldrei að gefast upp á náminu.

Ég lagði drauminn um læknisfræði á hilluna, aðallega vegna þess að ég er svo vandræðalega léleg í raungreinum, ákvað að verða leikskólakennari og sótti um í KHÍ. Haustið 2001 flytjum við litla fjölskyldan til Reykjavíkur, kaupum okkur fyrstu íbúð og baslið í borginni tók við. Ég elskaði þetta líf, skólinn á daginn og fjölskyldulíf á kvöldin. Reyndar var það meira svona ég og Kamilla Rún því lífið í borginni var dýrt og því þurfti sambýlismaðurinn að vinna meira en allir til að við myndum ná endum saman. En við lifðum á 2000 krónum á dag og undum vel við okkar.

Snemma árs 2003 kemst ég síðan af því að í bumbunni minni óx lítið líf. Eins og svo margt annað var þetta litla líf ekki alveg á planinu en það vita allir sem vilja vita að velkomið var það. Ég var ekki gengin nema 7 vikur með barnið þegar ég veikist og er lögð inn á spítala, þar átti að taka litla barnið okkar. Sem betur fer greip Hróðmar okkar inn í og hélt nú ekki. Þessi meðganga yrði látin ganga með hans aðstoð og stjórnun. Þetta þýddi reyndar að ég mátti ekkert gera nema fara í skólann og heim. Mátti ekkert reyna á mig og engan æsing. Með góðri hjálp yndislegra skólafélaga tókst mér að ljúka önninni í skólanum áður en ég var kyrrsett fram að fæðingu. Og eins og áður var þetta kannski ekki alveg planið.

Emma Rakel kom svo í heiminn í byrjun september og það sagði sig eiginlega sjálft að námið mitt í KHÍ fór á hold en eins og áður var mér eiginlega slétt sama því lífið snérist um stelpurnar mínar og ég elskaði það. Þegar litla dýrið er 5 mánaða veikist ég af miklu fæðingarþunglyndi og þá hófst baráttan fyrir alvöru og hún stóð lengi. Allir dagar fóru í það að sannfæra sjálfa mig um að allt yrði í lagi og það kæmi sá tími þar sem ég hætti að vera hrædd og kvíðin.  En með tímanum urðu dagarnir bjartari, ég fór að brosa oftar og lífið varð auðveldara. Þetta fæðingarþunglyndi kveikti þó í andlegu veikindunum mínum sem ég barðist við lengi en hef í dag ansi hreint góða stjórn á. Það sem hjálpaði mér í baráttunni þarna og gerir enn eru stelpurnar mínar og fólkið mitt..............ekki stúdentsprófið.

Vorið 2008 útskrifaðist ég loksins sem leikskólakennari, milljón árum á eftir mínum árgangi en vá hvað mér var sama. Réttindin voru komin í hús og hamingjan yfir því að vera orðin leikskólakennari var mikil og er enn.

En þá kom að einn einu sem ekki var á planinu góða, í desember þegar ég var ný orðin þrítug, tók hjónaband mitt enda og á einni svipstundu stóð ég uppi fráskilin tveggja barna móðir-Sjitt hvað þetta var ekki á helvítis planinu en andskotinn ég þurfti bara að setja undir mig hausinn og halda áfram með lífið.

Já elsku fólkið mitt, plön henta ekki stelpukonunni mér og hafa aldrei gert. Lífið aftur á móti hentar mér ansi vel og ég nýt þess að vera til í allri óreiðunni og óskipulaginu. Þetta planleysi(já það er orð) og óskipulag hefur fært mér tvær dásamlegar dætur sem gera lífið mitt svo innilega þess virði alla daga. Óplanaða lífið mitt hefur líka kennt mér að það eins sem skiptir máli er fólkið mitt, án þeirra væri ég ekkert og án þeirra væri þetta svo sjúklega leiðinlegt-Þó svo að ég væri með allt skipulagt í Exel-skjali.

Verum glöð, sleppum aðeins tökunum og njótum þess að vera kærulaus og óskipulögð-Það er svo mikið æðis smiley

Ást, hamingja og gleði út í kosmósið

Lóa smiley

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.