Samgönguráðherra í viðtali við Eyjar.net

Ekki ásættanlegt ástand

Vill stuðla að því að sá Herjólfur sem nú er í siglingum verði ekki seldur þegar sá nýi kemur næsta sumar

8.Júní'17 | 06:57

„Ástandið hefur ekki verið ásættanlegt að mínu mati, þótt það hafi vissulega skánað.” segir Jón Gunnarsson samgönguráðherra um stöðu samgöngumála milli lands og Eyja. Jón er í ítarlegu viðtali við Eyjar.net um stöðu mála í dag, nýja ferju og hvað sé til ráða varðandi lagfæringu á Landeyjahöfn. 

Er staða samgöngumála milli lands og Eyja ásættanleg fyrir Eyjamenn í dag að þínu mati?

Ástandið hefur ekki verið ásættanlegt að mínu mati, þótt það hafi vissulega skánað. Með tilkomu Landeyjahafnar hefur ferðum milli lands og Eyja fjölgað frá 2 til 6 þegar siglt er Landeyjahafnar.  Ferðatíminn til Reykjavíkur hefur farið úr 4 klst. í 2,5 klst. Farþegum með Herjólfi hefur fjölgað frá tæpum 130 þúsund upp í um 310 þúsund. Því miður liggja samgöngur til Landeyjahafnar niðri yfir háveturinn og stundum gott betur en það. En þá eru þær eins og þær voru fyrir Landeyjahöfn. Samgöngur á milli lands og Eyja hafa batnað verulega og munu batna enn frekar með tilkomu nýs Herjólfs. Hjá mér er fullur vilji til þess að leita allra leiða til að samgöngur á milli lands og Eyja verði sem öruggastar og tíðastar og þjóni hagsmunum íbúa og atvinnulífs eins vel og mögulegt er.

Nú var haldinn fjölmennur borgarafundur í Eyjum þann 11. maí, þar sem fram kom töluverð gagnrýni á hluti sem hægt er að lagfæra strax. Munt þú beita þér fyrir að ráðist verði í lagfæringar á næstunni?

Ég hef mikinn skilning á óskum Eyjamanna um að tíðar ferðir verði á milli lands og Eyja og að ferðakostnaði farþega verði haldið í lágmarki. Ég hef fullan vilja til að skoða möguleika á því að rekstur ferjunnar verði í höndum heimamanna í framtíðinni, en ef af því verður þá gefst fulltrúum heimamanna tækifæri til að endurskoða atriði eins og ferðatíðni og fargjöld.

Ég hef jafnframt lýst yfir vilja mínum til þess að stuðla að því að sá Herjólfur sem nú er í siglingum verði ekki seldur þegar sá nýi kemur næsta sumar. Það er nauðsynlegt að eiga varaskip sem er til reiðu þegar nýja skipið fer í slipp eða aðrar frátafir verða.

Hefur þú trú á að nýja ferjan standi undir væntingum um tíðni ferða, ganghraða og komi til með að ná viðunandi siglingatíðni í Landeyjahöfn?

Með tilkomu nýrrar ferju og nýrri dýpkunaraðferð yfir háveturinn þá metur Vegagerðin að siglingatíðni í Landeyjahöfn verði um 76-89%.   Þó að nýja ferjan uppfyllti ekki allar þær kröfur sem gerðar voru til hennar vegna siglinga til Landeyjahafnar, þá getur hún bæði siglt til Landeyjahafnar og Þorlákshafnar. Það er mat skiparáðgjafa ráðuneytisins að nýja ferjan verði ekki síðri til siglinga til Þorlákshafnar en núverandi Herjólfur.  Að sögn Vegagerðarinnar reyndist gamli Baldur (fyrir núverandi) ráða betur við siglingar  til  Landeyjahafnar en núverandi Herjólfur þannig að gera má sér góðar vonir um að nýtingin verði betri.   

Hvað er að þínu mati viðunandi frátafir nýrrar ferju í Landeyjahöfn?

Eins litlar og aðstæður leyfa. Það er verið að vinna að því að auka notagildi Landeyjahafnar með því fá nýja ferju sem verður hentug til siglinga í Landeyjahöfn.  Svo er Vegagerðin að koma með tillögur að annarri dýpkunaraðferð en með dýpkunarskipi  yfir háveturinn. Að þeirra sögn mun það geta tryggt nægjanlegt dýpi í hafnamynni og innan hafnar en á þeim stöðum hefur dýpið oft verið flöskuháls.

Nú er til skoðunar að setja til viðbótar 800 milljónir í smíðina svo að skipið verði alfarið rafmagnsknúið. Hefði ekki verið nær að verja slíkum fjámunum til rannsókna á hvað sé hægt að gera fyrir höfnina og þá sérstaklega til rannsókna á aðkomunni að höfninni - sem er í raun vandamálið í hnotskurn?

Þetta eru tvö aðskilin verkefni. Annað er að fylgja eftir nýjungum á sviði umhverfisvænna orkugjafa með því að gera ferjuna að rafmagnsferju en hitt eru rannsóknir á höfninni. Með því að nýta endurnýjanlegan orkugjafa eins og  rafmagn, er verið að nýta innlendan og umhverfisvænan orkugjafa.  Með því er líka verið að draga úr brennslu á megnandi jarðefniseldsneyti um allt að 1700 tonn á ári og draga þar með úr hlýnun jarðar. Þó að ferjan geti verið knúin með endurnýjanlegum orkugjafa þá verða einnig vélar til knýja ferjuna ef rafhlöðurnar bregðast. Það hefur hins vegar verið ákveðið að fara ekki strax í að gera ferjuna þannig úr garði að hún verði algerlega rafknúin, en þeim möguleika verður haldið opnum til framtíðar.

Hvað varðar rannsóknir þá er vandamálið tvíþætt að sögn Vegagerðarinnar. Annars vegar núverandi Herjólfur sem á erfitt með sigla til Landeyjahafnar og sandburðurinn hins vegar. Ný ferja mun verða hentugri til siglinga til Landeyjahafnar en núverandi Herjólfur og einnig mun sandburður verða minna vandamál þar sem nýja ferjan er grunnristari og þarf því minna dýpi.  Allveg frá því að erfiðleikarnir með höfnina byrjuðu  hefur Vegagerðin og áður forveri hennar, Siglingastofnun, unnið að rannsóknum á því hvort að draga megi úr sandburði og bæta aðstæður til siglinga. Ýmsar lausnir hafa verið skoðaðar til að draga úr sandburði og hreyfingu ferju m.a. að færa garða utar, dýpka meira, setja garða á rifið, breyta formi garða o.fl. Byggt hefur verið upp líkan af höfninni í rannsóknastöð Vegagerðarinnar til að rannsaka hvernig draga megi úr hreyfingu innan hafnar og liggja þær niðurstöður fyrir. Einnig hefur verið unnið að athugunum á hvernig dýpka eigi í innsiglingunni yfir háveturinn og er að vænta tillagna frá Vegagerðinni á næstu vikum.  Þessum rannsóknum verður náttúrlega framhaldið þar til að ásætanleg nýting á Landeyjahöfn næst, eða ekki verði lengra gengið til að bæta hana.

Nú berast fregnir af því að það eigi að koma fyrir föstum dælubúnaði við hafnarmynnið í Landeyjahöfn og kynna eigi þann búnað með vorinu. Getur þú sagt okkur nánar af þeim fyrirætlunum og á hvaða reynslu slík dæling byggir? 

Vegagerðin hefur verið að vinna að því að leysa það hvernig á að dýpka yfir háveturinn. Munu þær tillögur að sögn Vegagerðarinnar liggja fyrir á næstu vikum. Hún er þess fullviss að með nýrri dýpkunaraðferð, náist að halda dýpi nægu fyrir nýju ferjuna nema yfir háveturinn og þá aðeins þegar það er lág sjávarstaða og þung alda.

Liggja einhverjar kostnaðartölur fyrir og hvenær búnaðurinn verði kominn í notkun?

Eins og áður segir er Vegagerðin að vinna tillögu um dýpkunarbúnað frá landi og er von á þeim á næstu vikum. 

Varðandi rannsóknir á höfninni og þá sérílagi til að bæta aðkomuna að höfninni, hefur eithvað verið skoðað að hálfu ráðuneytisins eða undirstofnana, að fá utan aðkomandi aðila til að endurmeta hönnun hafnarinnar með tilliti til reynslunnar og til að gera tillögur um endurbætur svo höfnin standi undir þeim væntingum sem gerðar voru til hennar í upphafi?

Vegagerðin er stöðugt að vinna í því að reyna að endurbæta Landeyjahöfn. Hins vegar er sandburður flókið fyrirbrigði og háð mörgum breytum eins öldufari, ölduhæð, öldustefnu, öldulengd, formi botns, kornastærð, formi strandlengju o.s.frv., þannig að þau reiknilíkön sem stuðst hefur verið við til að meta sandburðinn, eru ekki nægjanlega þróuð eins og komið hefur í ljós í Landeyjahöfn.  Það er mat helstu ráðgjafa Vegagerðarinnar að flýta eigi sér hægt í að breyta aðstæðum fyrir utan höfnina – en þar er vandamálið – og ekki fyrr en unnt er með góðri vissu að spá fyrir um hvað muni gerast, ef gerðar verða breytingar á höfninni. Hins vegar hafa verið gerðar líkanrannsóknir á höfninni og liggja fyrir tillögur um breytingar á henni til að bæta aðstæður innan hennar, að sögn Vegagerðarinnar.

Með nýrri ferju og dýpkunaraðferðum í Landeyjahöfn vonast Vegagerðin til að nýting hafnarinnar verði ásætanleg nema yfir háveturinn, segir Jón Gunnarsson ráðherra. 

 

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).