Lóa Baldvinsdóttir Andersen skrifar:

Til lífs og til gleði

2.Júní'17 | 12:10

Ég las þessi orð í minningargrein sem skrifuð var um eina mína helstu fyrirmynd, Jóhönnu Kristjónsdóttur rithöfund, baráttukonu og töffara. Þessi orð hafa setið í mér síðan ég las þau, þetta eru einfaldlega fallegustu orð sem ég hef lesið.

Eflaust er hægt að túlka þessi orð á margan hátt en fyrir mér merkja þau að við eigum alltaf að lifa lífinu sem okkur er gefið til fulls og fylla líf okkar af gleði. Við þurfum að finna hvað það er sem gleður okkur og gera milljón sinnum meira af því heldur en því sem gerir okkur geðvond. Hver og einn þarf að finna hjá sér hvað veitir mesta gleðina, mestu hamingjuna og vinna svo að því öllum árum að stunda það sem mest.

En hvað er það sem gleður og veitir hamingju?  Samkvæmt samfélagsmiðlum er það að flatmaga á ströndinni með kokteil í hönd, baka fullkomnar afmæliskökur og skarta dýrustu og fallegustu fötunum. Ég hef einhvern veginn ekki samsamað mig þessari gleði og hamingju. Jú ég elska að ferðast, elska útlönd og elska kokteila. Ég get ekki fyrir mitt litla líf bakað köku án þess að hún líti út eins og ruslabíll hafi keyrt yfir hana. Ég hef aldrei getað fylgt tískustraumum neitt sérstaklega vel, er ýmist nokkrum mánuðum á eftir eða nokkrum mánuðum á undan. Fyrir utan það að ég fæddist á vitlausu tímabili og hefði best átt heima í San Fransisco á hippatímabilinu, íklædd víðum pilsum, njótandi frjálsra ásta og borðandi kandíflos í hvert mál. Þannig þröngar gallabuxur með gati og gegnsæir blúndutoppar veita mér ekki gleði eða hamingju.

Ég verð fáránlega glöð og hamingjusöm þegar ég næ að eyða góðum tíma með fólkinu sem ég elska mest, þegar ég drekk hvítt og verð glöð í öxlunum, þegar ég kaupi mér fullan poka af bland í poka og horfi á FRIENDS, þegar ég fæ svo mikið hláturskast að ég enda í keng með tárin rennandi niður kinnarnar, þegar dætur mínar ná markmiðum sínum, þegar ég borða góðan mat, þegar ég skoða gamlar myndir, þegar ég les góða bók, þegar ég heyri fallegt lag og og og.................. Það er svo ósköp margt sem veitir mér gleði og hamingju en fæst er eitthvað sem ég á - Í mínu tilfelli felst gleðin mín og lífið mitt yfirleitt alltaf í upplifunum og fólkinu mínu.

Það er eins misjafnt og við erum mörg hvað það er sem veitir okkur hamingju, það eins sem skiptir máli er að finna sína gleði, sitt líf og njóta þess án þess að meiða, særa eða troða á öðru fólki. Það sem veitir mér hamingju finnst öðrum leiðinlegt en það þýðir ekki að hamingja mín eða þeirra sé eitthvað minni eða minna mikilvægari en annarra. Hamingja og gleði er einstaklingsbundin og ekkert rétt eða rangt í þeim efnum.

Hamingjan er okkar og hana verðum við að skapa sjálf, gleðin er líka okkar og hana þurfum við að finna upp á eigin spýtur. Við getum aldrei ætlast til þess að aðrir skapi okkar hamingju og gleði, vinnan er alltaf okkar og sú vinna er svo dásamlega frábær ef við leyfum okkur að njóta hennar.

En án sorgar og erfiðleika væri aldrei nein hamingja og engin gleði. Það er mér enn í fersku minni þegar ég fékk fyrsta hláturskastið þremur vikum eftir að ég skildi. Ég hélt ég myndi aldrei brosa og hvað þá hlæja aftur en Guð hjálpi mér hvað ég hló og almáttugur hvað ég var hissa að ég kynni ennþá að gleðjast og hafa gaman. Húmorinn hefur komið mér vandræðalega oft í gegnum erfiðar aðstæður og ég hef prédikað yfir stelpunum mínum að þegar þær lenda í erfiðum verkefnum þá skulu þær alltaf reyna að sjá eitthvað fyndið við þær. Það er nefnilega svo ótrúlega heilandi og læknandi að hlæja og það er engin skömm og ekkert rangt við það að hlæja eins og brjálæðingur þegar manni langar frekar að gráta. Erfiðar, þrúgandi aðstæður verða oft svo miklu auðveldari ef maður bara leyfir sér aðeins að brosa, jafnvel hlæja smá. Svo getur vel verið að stundum breytist hláturinn í grátur og það er líka bara allt í lagi.

Elsku fólkið mitt, ég óska þess að þið finnið ykkar hamingju og ykkar gleði, leyfið ykkur að dvelja þar og njótið þess þegar hamingjustundirnar banka upp  á. Þá er bannað að hugsa um yfirdráttarheimildina, rykið undir stofusófanum, allann þvottinn sem er í þvottakörfunni og mjólkina sem þú gleymdir að setja inn í ísskáp. Það má bara sitja, brosa, hlæja, elska og hafa gaman smiley

Til lífs og til gleði

Ykkar Lóa smiley

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.