Stefán Ó. Jónasson um húsmæðraorlofsmál bæjarins:

Finnst forkastanlegt hvernig unnið var að þessu

18.Maí'17 | 07:40
ellidi_stebbi_2

Það fer oft vel á með oddvitunum, þó ekki hafi þeir verið sammála í þessu máli.

„Mér finnst bara forkastanlegt hvernig hefur verið unnið að þessu,“ segir Stefán Óskar Jónasson, bæjarfulltrúi minnihluta E-listans í bæjarstjórn Vestmannaeyja, um vinnubrögð meirihluta Sjálfstæðismanna varðandi útgreiðslu húsmæðraorlofs.

Kvenfélagið Líkn hafði í heilt ár reynt að innheimta lögbundnar greiðslur frá Vestmannaeyjabæ í svokallað húsmæðraorlof. Fulltrúar meirihluta Sjálfstæðismanna neituðu að borga. Þeir vísuðu meðal annars í ályktun sem gerð var á sérstökum kvennafundi bæjarstjórnar á kvenréttindadaginn 2008 um að greiðsla húsmæðraorlofs „væri ekki í anda jafnréttis“. Vísir.is greinir frá,

Meirihlutinn gaf sig ekki fyrr en í síðustu viku eftir að innheimtubréf barst frá lögmanni Líknar.

„Þetta brýtur í bága við lög frá 1972 sem eru í gildi og ég hef gert athugasemdir við það á hverjum einasta fundi í bæði bæjarstjórn og bæjarráði,“ segir Stefán sem kveðst ávallt hafa verið á móti þessari afstöðu Sjálfstæðismanna.

„Ég er svo hrifinn af konunum í Kvenfélaginu Líkn, að gefast ekki upp fyrir bæjaryfirvöldum,“ heldur Stefán áfram. „Það er ekkert grín að vera með lögfræðinga og í orðaskaki við kjörna fulltrúa í samfélagi sem maður vill eiga heima í að berjast fyrir réttindum sem maður veit að eru hundrað prósent rétt. Þær eiga þetta svo sannarlega skilið.“

Hvorki náðist tal af formanni eða lögmanni Líknar en að sögn Stefáns íhuga kvenfélagskonurnar nú stöðuna í ljósi þess að kröfur þeirra um greiðslu húsmæðraorlofs hafi verið hunsaðar árum saman, ekki bara greiðsla ársins 2016 sem endaði í 603 þúsund króna kröfu með vöxtum.

Elliði Vignisson bæjarstjóri segir að á kvennafundinum í bæjarstjórn á kvennafrídaginn 2008 hafi helsta baráttumálið verið að framlög til kvenna­orlofs yrðu afnumin. „Enda myndi þetta ganga í berhögg við þeirra hugmyndir um kvenfrelsi og jafnrétti. Og síðan þá hefur bæjarstjórn bara fylgt þeirri línu sem konur ákváðu sjálfar,“ segir hann. Málið snúist ekki um peninga.

„Konur í bæjarstjórn völdu kvennafrídaginn og eina kvennafundinn sem haldinn hefur verið í bæjarstjórn til að leggjast gegn akkúrat þessu atriði og þá finnst mér nú þurfa ansi sterk rök fyrir okkur karla sem síðar skipum bæjarstjórn til að fara gegn því,“ segir Elliði. Og þau rök séu reyndar enn ekki fundin þótt samþykkt hafi verið að greiða Líkn áðurnefndar 700 þúsund krónur.

„Við greiðum Kvenfélaginu Líkn framlög en við greiðum þau óháð því hvernig þær nota þau og hvetjum þær til að nota þetta til líknarmála,“ segir Elliði. Því hefur Edda Ólafsdóttir, formaður Líknar, þegar hafnað í samtali við Fréttablaðið með vísan í lögin.

Stefán gefur lítið fyrir að bæjarstjórinn vitni til fyrrnefnds kvennafundar. „Það var bara bæjarstjórn Vestmannaeyja að álykta. Bæjarstjórn Vestmannaeyja ræður ekki landslögum með einhverri ályktun.“

Aðspurður kveðst Stefán hins vegar telja að alveg megi endurskoða lögin um húsmæðraorlof eins og hefur ítrekað verið lagt til á Alþingi. „En á meðan lögin frá 1972 eru í gildi þá ber að fara eftir þeim.“

 

Vísir.is

N1 óskar eftir starfskrafti

12.Maí'17

N1 Verslun, Básaskersbryggju óskar eftir starfsmanni í sumarafleysingar. Upplýsingar veitir Ágúst í síma 897-1127 eða á staðnum.

Íbúð til orlofsleigu í sumar

28.Apríl'17

Stór íbúð á góðum stað í Eyjum til orlofsleigu í sumar. Gistipláss fyrir 6-8 manns. Íbúðin telur 2 svefnherbergi, 2 stofur, stórt eldhús og baðherbergi. Innan við 500 metrar í sundlaugina og fótboltavellina. Laus ennþá yfir Pæjumót og Goslok (Orkumót og Þjóðhátíð bókuð). Áhugasamir sendi fyrrirspurn á gummiv@simnet.is  

ÚV á FM 104

23.Apríl'16

Góð tónlist flesta laugardaga og sunnudaga frá 16:00. Einnig eru pistlar frá Nice. ÚV á FM 104

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).