Aníta Jóhannsdóttir:

„Ég er svekkt og pirruð“

Vonar innilega að yfirvöld fari að sjá sóma sinn í því að bæta þessa þætti, samgöngur og heilbrigðisþjónustu, sem fyrst fyrir okkur Vestmannaeyinga

11.Maí'17 | 13:15
barn_nyfaett

Mynd/úr safni.

Aníta Jóhannsdóttir spyr á facebook-síðu sinni hvort þetta sé virkilega sú upplifun sem yfirvöld vilja að maður hafi eftir barneignir, ótti, hræðsla og þreyta yfir því að komast heim til sín eftir rúmlega tveggja vikna bið eftir barninu? 

Allan pistill Anítu má lesa hér að neðan:

Ég get ekki annað en tjáð mig um síðasta sólahring hjá okkur fjölskyldunni. Ég er svekkt og pirruð yfir stöðu okkar Vestmannaeyinga hvað varðar heilbrigðiskerfi og samgöngur.

Ég og unnusti minn fórum uppá land að bíða eftir öðru barni okkar þegar ég var komin 39 vikur á leið. Tíminn leið og lítið skeði, en svo í gær 9. maí þegar ég var gengin 41 viku og einn dag kom prinsinn okkar, yndislegur í alla staði. Við vorum sem sagt búin að bíða eftir honum á höfuðborgarsvæðinu í rúmlega tvær vikur, frá okkar heimili og eldri syni okkar sem var í góðum höndum hjá ömmu og afa á meðan biðinni stóð.

Ástæða þess að við fórum upp á land að bíða er vegna þess að við teljum að fæðingarþjónustan og aðstaðan sem okkur býðst hér í Eyjum ekki vera nægilega örugg vegna vöntunar á skurð- og svæfingarlækni. Ekki nóg með það þá eru samgöngurnar held ég bara verri. Strax eftir að fæðingin var afstaðin fórum við foreldrarnir að pæla í því hvernig við ættum að ferðast heim, eitthvað sem nýbakaðar foreldrar í Reykjavík kannast ekki við. Ölduspá og vindaspá gáfu ekki góð fyrirheit um að við myndum komast heim bráðlega. Þegar líða fór á kvöldið fannst okkur eina rétta að vonast til að Baldur færi fyrstu ferð og drífa okkur í hana því útlit var fyrir að það yrði ófært til Landeyjahafnar næstu 2-3 daga og einnig röskun á flugsamgöngum.

Nóttin gekk vel með prinsinn en svefninn var lítill hjá okkur foreldrum vegna áhyggja um að komast ekki heim í okkar umhverfi og knúsa eldri strákinn okkar eftir langa fjarveru. Við ýttum á ljósmæður á LSH að fá barnalækni til að skoða peyjann svo við gætum útskrifast sem fyrst. Barnalæknir kom rúmlega sex í morgun og skoðaði hann, en tekur hann með sér á vökudeild til nánari skoðunar. Fimm mínútur í sjö kemur sms um að Baldur fari ekki og þá var farið í að tékka á fluginu. Á sama tíma skilar barnalæknirinn peyjanum og gefur okkur grænt ljós á útsrkift.

Á hlaupum fórum við að græja peyjann og okkur út á flugvöll, við rétt svo náðum flugi sem fór 07:15. Blóðþrýstingurinn fór upp úr öllu valdi og við önduðum léttar þegar við vorum sest upp í vélina og á leiðinni HEIM!! Eftir er bíllinn okkar með farangrinum okkar og Guð má vita hvenær við getum fengið hann þar sem útlit er ekki fyrir að Baldur sigli fyrr en í fyrsta lagi um helgina.

Nú spyr ég, er þetta virkilega sú upplifun sem yfirvöld vilja að maður hafi eftir barneignir, ótti, hræðsla og þreyta yfir því að komast heim til sín eftir rúmlega tveggja vikna bið eftir barninu? Vona innilega að yfirvöld fari að sjá sóma sinn í því að bæta þessa þætti, samgöngur og heilbrigðisþjónustu, sem fyrst fyrir okkur Vestmannaeyinga. Því nákvæmlega sama staða var hjá okkur fjölskyldunni þegar eldri strákur okkar kom í heiminn en þá vorum við útskrifuð allt of fljótt af LSH því útlit var fyrir Þorlákshöfn og við vildum ferðast í Landeyjahöfn með nýfædda barnið okkar, það var árið 2014, og ekkert hefur breyst síðan þá nema kannski til hins verra!

Vil enda á að þakka flugfélaginu Erni og þeirra starfsfólki fyrir að koma okkur heim, þeir eiga hrós skilið fyrir góða þjónustu þar!

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%