Formaður skipulagsráðs:

Lítið svigrúm fyrir persónulegar skoðanir

Útilokar ekki að þetta mál verði til þess að farið verði enn betur yfir það hvernig staðið er að deiliskipulagi

10.Maí'17 | 12:56
IMG_2901

Hér má sjá uppsláttinn að nýbyggingunni.

Töluverð umræða hefur skapast á samfélagsmiðlum vegna leyfisveitingar skipulagsyfirvalda Vestmannaeyjabæjar til húsbyggingar á lóðum á Vestmannabrautinni. Eyjar.net ræddi málið við formann ráðsins, Margréti Rós Ingólfsdóttur.

Hvernig var ferlið í þessu máli?

Skipulagsmál stýrast fyrst og fremst af lögum og reglugerðum.  Sem betur fer er lítið svigrúm fyrir persónulegar skoðanir og frjálsræðið mjög skert. Okkur er gert að vinna eftir sömu forskrift í öllum málum og það gerum við.  Ferlið í þessu tilgreinda máli var einfaldlega þannig að lóðir voru lausar til umsóknar og umsækjandi sækir um og fær þeim úthlutað. Byggingaráform umsækjanda falla undir deiliskipulag sem samþykkt var árið 2015 og ráðið samþykkti þau áform og síðar var það staðfest af bæjarstjórn. Ferlið var því með sama hætti og í öllum sambærilegum málum.

Var farið í einu og öllu að öllum ferlum (s.s grendarkynning, andmælaréttur o.s.frv)?

Já auðvitað, það var farið eftir þeim lögum og reglugerðum sem í gildi eru, s.s byggingarreglugerðum og skipulagslögum. 

Í ferlinu - voru gerðar skuggamyndir til kynningar fyrir nágranna?

Nei, enda er slíkt alla jafna ekki gert og þetta mál var unnið eins og sambærileg mál.  

Hvernig er byggingarmagnið á þessum lóðum ákveðið, er tekið mið af húsum í nágreninu?

Við gerð deiliskipulaga er ætíð tekið mið af nágrenni og umhverfi.  Það var að sjálfsögðu einnig gert í þessu tilviki.

Nú segir í markmiðum deiliskipulagsins ,,Tryggja skal að viðbyggingar og nýbyggingar falli sem best að umhverfinu." - Finnst þér þessi bygging falla að því markmiði og eins húsið sem deiliskipulagt er á Vestmannabraut 61?

Sem betur fer þá höfum við lög og reglugerðir, deiliskipulög og aðalskipulag til að vinna eftir og þurfum því ekki, og eigum ekki, að taka ákvarðanir út frá persónulegum skoðunum. Það væri ófaglegt að persónulegar skoðanir nefndarmanna eða þeirra sem vinna skipulögin væru ráðandi.   Að því sögðu, þá er það mín persónulega skoðun að heildarmynd skipulagsins falli vel að því umhverfi sem er þar fyrir.  Þakgerð, mænishæð ofl. er í takt við það sem þarna gerist og áfram má telja.

Það virðist vera talsverð óánægja hjá nágrönnum þarna í kring vegna málsins. Var ráðinu ekki kunnugt um þá óánægju áður en byggingarleyfi var veitt?

Ráðið hafði ekki neina forsendu til að telja að málið yrði umdeilt enda deiliskipulagið samþykkt mótbárulaust eftir að hafa verið í almennri auglýsingu í amk. 6 vikur.  Ég varð hinsvegar vör við þá óánægju sem þú nefnir eftir framkvæmdir hófust og þykir leitt hvernig komið er.  Það er auðvitað sárt ef einhver telur á sér brotið og ekkert er fjær mér og sjálfsagt öllum öðrum gera slíkt. Ég tók þetta því eðlilega nærri mér og eftir að ég varð óánægjunni áskynja hef ég farið yfir alla ferla máls með starfsfólki ráðsins til að ganga úr skugga um að öllu hafi verið fylgt rétt eftir og niðurstaðan er að svo sé. 

 

Ég hefði gjarnan viljað að umræðan um deiliskipulag þessa reits hefði farið fram þegar skipulagið var í vinnslu og þannig hefði verið hægt að kanna betur hvort sætt hefði mátt sjónarmið.  Eftir sem áður fagna ég allri umræðu um Umhverfis -og skipulagsmál og hef á því fullan skilning að við sem hér búum erum ekki alltaf sammála um þær leiðir sem eru farnar.  Sem formaður ráðsins hef ég margoft kallað eftir því að bæjarbúar nýti rétt sinn til athugasemda við gerð skipulaga og láti rödd sína heyrast, en það þarf að gerast á réttum tíma í ferlinu.  Ég útiloka heldur ekki að þetta mál verði til þess að við förum enn betur yfir það hvernig staðið er að deiliskipulagi og hvort að staðhættir og eðli samfélagsins í Vestmannaeyjum sé þannig að við þurfum að fara aðrar leiðir í kynningu, segir Margrét Rós að endingu.

Vilt þú ná til Eyjamanna?

17.Ágúst'19

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).