Rödd fólksins - Grímur Gíslason

Greiðum mjög háa vegtolla

á þjóðveginum milli lands og Eyja. - Grímur ráðleggur samgönguyfirvöldum að færa rekstrarhaldið á siglingaleiðinni til heimamanna

8.Maí'17 | 06:56
CRIST-VESSEL-REV-ny_ferja_2017

Nýja ferjan á að hefja siglingar milli lands og Eyja eftir rúmt ár. Mynd/Vegagerðin.

Næstkomandi miðvikudag verður samgöngufundur í Eyjum. Eyjar.net ræðir áfram við framsögumenn fundarins. Grímur Gíslason þekkir vel til samgangna milli lands og Eyja. Hann var stjórnarformaður Herjólfs auk þess sem hann var í áhöfn skipsins til margra ára sem vélstjóri. 

Hvernig líst þér á framtíðina í samgöngum á milli lands og Eyja?

Framtíðarlausnir í samgöngum milli lands og Eyja eru því miður í talsverðri óvissu, bæði til lengri og skemmri tíma litið. Menn hefur greint á um þau skref sem rétt væri að taka en nú þarf ekki að deila um hvaða skref á að taka því búið er að ákveða smíði nýrrar ferju samkvæmt hönnun sem við höfum öll séð og því hefur engan tilgang að deila um þá ákvörun. Þessi ferja mun koma, vonandi næsta sumar og þá mun reyna á hvort að hún verður sú lausn sem væntingar eru gefnar um. Þegar farið var af stað með Landeyjahafnarverkefnið var okkur lofað því að hægt yrði að sigla milli Eyja og Landeyjahafnar í yfir 90% tilfella og að mig minnir gerðu bjartsýnustu spár ráð fyrir 95 – 97% af dögum ársins yrði fært þangað.

Raunin hefur orðið allt önnur og hefur því verið kennt um að núverandi Herjólfur væri óhentugur til siglinganna. Ekki ætla ég að draga það í efa en hitt sem slær mig meira er að nú þegar að verið var að kynna nýsmíðina þá var farið að tala um allt aðrar nýtingu á höfninni en í upphafi og þegar maður er farinn að heyra talað um allt niður í 60% nýtingu á henni með nýju skipi þá hefur maður auðvitað áhyggjur. Ég ætlast til þess að þegar ný ferja kemur að þá verði hægt að sigla milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar amk. 90 – 95% af dögum ársins. Ef að raunin verður 70% - 80% þá bera þeir sem að þessari ákvörðun og hönnun standa mikla ábyrgð á því hvernig samgöngur og þá um leið byggðaþróun verður hér í Eyjum til framtíðar.

Það er alveg ljóst að þessi nýja ferja mun ekki sigla til Þorlákshafnar með sömu gæðum fyrir farþega og núverandi skip gerir, það segir sig algjörlega sjálft og þarf ekki annað en að skoða fjölda klefa, koja og staðsetningu þeirra í skipinu til að átta sig á því. Hvort að ný ferja mun sigla til Þorlákshafnar í jafn erfiðum aðstæðum og núverandi Herjólfur gerir mun reynslan leiða í ljós en ég óttast að svo verði ekki, því miður.

Ég vona aftur á móti að ótti minn sé ástæðulaus og að nýja ferjan geti siglt flesta daga til Landeyjahafnar og þá með góðum árangri til Þorlákshafnar þá daga sem ekki gefur í Landeyjahöfn. Það er lykilatriði til framtíðar fyrir Vestmannaeyjar.

 

Ef samgönguyfirvöld myndu leita til þín á morgun - hvað myndir þú ráðleggja þeim í sjósamgöngum milli lands og Eyja?

Það er búið að taka stórar ákvarðanir til framtíðar í samgöngumálum milli lands og Eyja með samningi um smíði ferjunnar þannig að ef að að samgönguyfirvöld leituðu til mín með þetta þá yrði þeirri ákvörðun ekki hnekkt. Ég myndi samt ráðleggja samgönguyfirvöldum að skoða vel stöðuna í Landeyjahöfn og reyna að draga fram hvað er raunhæft að ætlast til að nýtingin verði á höfninni og hvort hægt er að gera einhverjar lagfæringar á henni strax. Fyrir mig er það óásættanlegt að þeir sem eru talsmenn þessara mála komist upp með það að geta ekki sagt til um það með nokkurri nákvæmni hversu mikil nýting verður á siglingaleiðinni milli Eyja og Landeyja þegar að það skip kemur sem að er, undir þeirra leiðsögn og eftirliti, sérhannað til siglinga á þeirri leið. Kannski 90% eða kannski 70% eða kannski meira eða minna eru bara engin svör í mínum huga.

Ég myndi síðan eindregið ráðleggja samgönguyfirvöldum að færa rekstrarhaldið á siglingaleiðinni til heimamanna. Núverandi fyrirkomulag í rekstri er algjörlega óviðunandi. Þetta er þjóðvegurinn milli lands og Eyja og rekstur hans á að vera í samræmi við aðra grunnþjónustu. Ég þori að fullyrða að núverandi rekstraraðili, sem þyggur hundruðu milljóna af skattfé til rekstrar er að hagnast vel á rekstrinum og þeim milljónum væru mun betur varið til lækkunar fargjalda heldur en í vasa eigenda rekstraraðilans. Ég tel að framlag ríkisins til rekstrar Herjólfs sé mun meira í dag en það var þegar Herjólfur hf rak þetta á sínum tíma en tilgangurinn með útboðinu var sagður að spara ríkinu útgjöld vegna þessa rekstrar. Ég held að það hafi farið á allt annan veg, því miður. Ég held einnig að það sé bara engan veginn gott að fyrirtæki sem eru í flutningastarfsemi, vöruflutningum, séu aðilar að þessum rekstri því að þeir horfa auðvitað fyrst og fremst til þess sem hagstæðast er fyrir þá í öllum efnum en ekki til þess hvað kemur sér best fyrir fólkið sem að þarf að nýta þjóðveginn.

Í þriðja lagi myndi ég ráðleggja samgönguyfirvöldum að horfa til þess að styrkja frekar flugsamgöngur milli lands og Eyja meðan að ástandið í siglingum er ekki tryggara en raun ber vitni.

 

Hvernig má bæta þjónustuna og verðlagið sem best fyrir heimamenn?

Ég hef svo sem að hluta til svarað þessu hér að framan en lykillinn að bættri þjónustu fyrir heimamenn er að færa resturinn í annan farveg. Til heimamanna sem myndu reka þetta fyrst og fremst sem þjónustufyrirtæki og þá er ég algjörlega viss um að um leið gæfist tækifæri til lækkunar fargjalda á sama tíma og gæði þjónustunnar myndu aukast.

Að mínu mati á að stokka algjörlega upp gjaldskrárkerfið og horfa til þess að þetta er þjóðvegurinn milli lands og Eyja. Ef að við værum að tala um að hér væru göng á milli yrði örugglega innheimt veggjöld á annan hátt en nú er gert í Herjólfi. Í mínum huga er enginn munur á þjóðvegi á flatlendi eða fjalllendi, í göngum eða í ferju. Það þarf að vera samræmi í þessum efnum.

Ég útiloka alls ekki þær hugmyndir srem settar hafa verið fram af núverandi samgönguráðherra um að innheimta vegatolla til að fjármagna vegaframkvæmdir, það þekkist um allan heim, en gjalddtakan verður þá að vera sanngjörn. Við Eyjamenn erum vanir að greiða vegtolla í formi fargjalda með Herjólfi og við greiðum mjög háa vegtolla á þjóðveginum milli lands og Eyja. Ég held að umræðan í samfélaginu færi á hvolf ef að íbúar Reykjavíkur, Reykjaness, Árnessýslu, Akureyrar eða hvers annars svæðis þyrftu að borga tugi eða frekar hundruði þúsunda á ári í vegtolla til að fá að komast inn á þjóðveg 1. Það er einmitt það sem íbúar í Eyjum gera og hafa gert gegnum árin eins og auðvitað líka þeir sem að sækja Eyjarnar heim. Þessu er hægt að breyta og þessu á að breyta. Það er ekkert jafnræði eða sanngirni í öðru.

 

Framfarir í flutningum, (Herjólfur sem kom í desember 1959 og gekk 12 sjómílur en sá nýjasti sem kemur á næsta ári gengur 13 sjólmílur.) Er þetta ásættanleg framþróun á samgöngum milli lands og Eyja?

Varðandi síðustu spurninguna þá má kannski aðeins horfa til þess sem er sagt hér að framan. Ef að sú ferja sem að nú er í smíðum mun geta siglt til Landeyjahafnar í yfir 95% tilfella þá erum við að tala um mikla framþróun, þó að skipið sé ef til vill ekki eins stórt og við vildum sjá nýtt skip vera. Ég hef þá trú að stærra skip með meiri flutningsgetu þýði einfaldlega meiri flutninga. Ég var í áhöfn Herjólfs 2 þegar að hann kom til landsins 1976 og ég minnist þess alltaf að þegar skipið var sýnt almenningi við komuna þá spurðiu einhverjir með hneykslunartón: “Hvenær haldið þið svo að þið fyllið þetta dekk af bílum?” og aðrir sögðu: “Haldið þið að Eyjamenn ætli bara ekki að gera annað en ferðast?”

Það leið ekki langur tími þar til þetta bíladekk var meira og minna fullt og þegar Herjólfur 3 kom árið 1992, enn stærri, þá varð hann strax eiginlega of lítill. Þetta eru bara staðreyndir sem vert er að horfa til.

Ef að raunin verður sú að ný ferja getur ekki siglt til Landeyjahafnar nema 70% - 90% af árinu þá erum við alls ekki að tala um framþróun og ef að raunin verður að nýtingin verður nær neðri mörkunum þá erum við að tala um mikla afturför að mínu mati. Framþróunin ræðst algjörlega af því hver nýtingin verður á Landeyjahöfn með tilkomu nýju ferjunnar.

 

Rödd fólksins - opinn fundur um samgöngumál

Grímur Gíslason er einn nokkura frummælanda á samgöngufundi sem verður í Akóges næstkomandi miðvikudag kl. 18.00. Erindi Gríms á fundinum nefnist: „Þjóðvegurinn til Eyja í fortíð, nútíð og framtíð.”

Auk Gríms verða frummælendur:

  • Ásmundur Friðriksson; Framlag ríkisins, afkoma Herjólfs og ferðakostnaður íbúa.
  • Elliði Vignisson; Sýn bæjarsjórnar.
  • Jóhann Jónsson; Væntingar og vonir íbúa um betri og ódýrari samgöngur.
  • Sigþóra Guðmundsdóttir; Samgöngur í augum húsmóður með börn í íþróttum.
  • Pallborð; Framsögumenn, fulltrúar Eimskips og Vegagerðar.

Fundarstjórar; Tryggvi Már Sæmundsson og Ómar Garðarsson.

Það eru Eyjar.net, Eyjafréttir og Ásmundur Friðriksson sem standa að fundinum.

Sjá einnig: Óvissuþáttum þarf að fækka

 

 

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.