Lóa Baldvinsdóttir Andersen skrifar:

Tilfinningalegt harðlífi

25.Apríl'17 | 14:58

Að vera tilfinningarússíbani er ekkert auðvelt skal ég segja ykkur. Ég er svo vandræðalega hrifnæm að ég skammast mín næstum því fyrir það, samt bara næstum því. Það eru ótrúlegustu hlutir sem hreyfa við mér og ég hef farið að gráta við hin ýmsu tækifæri án þess að nokkur annar sé að gráta. 

Þetta truflar mig ekki neitt en  þegar dætur mína hafa verið unglingaskrímsli þá hafa þær stundum alveg farið í keng þegar móðir þeirra byrjar að væla ,,yfir engu“ að þeirra mati.

Þær ganga úr skugga á hvaða mynd við erum að fara áður en við förum í bíó og velja rosalega oft að vera heima ef myndin lítur úr fyrir að framkalla tár. Ef svo ólíklega vill til að þær fást í bíó með mér og ég byrja að gráta bregst ekki að þær líta á mig og segja ,,Bara í alvöru mamma, þú ert ekki að grenja yfir þessu“. Ég verð alltaf jafn geðvond og svara ,,Jú ég er kannski bara að gráta, það eru ekki allir með hjarta úr steini eins og þið“.  Þegar ég skrifa þetta núna rennur upp fyrir mér að fjölskyldustund okkar mæðgna er kannski ekkert sérstaklega gefandi en hei ég elska að fara í bíó og þær bara fylgja með. Ég hef oftar en einu sinni og oftar er tvisvar þurft að sitja leeeeeeengi í bíósal eftir að myndin klárast því ég er með svo mikinn ekka og  svo hrikalega grátbólgin að ég myndi hræða börn og fullorðna ef ég færi strax út úr salnum.

En það eru ekki bara bíómyndir og þættir sem framkalla grátur. Ég hef margoft grátið yfir bókum, auglýsingum í sjónvarpi, sögum af fólki og látið mig ekki byrja með tónlist. Í hvert einasta skipti sem ég hlusta á lagið Góða nótt eftir Oddgeir, Ása og Árna úr Eyjum þarf ég einhverskonar áfallahjálp, þetta er fallegasta lag sem samið hefur verið við fallegasta ljóð í heimi. Þau eru fleiri lögin sem kalla á að flóðgáttirnar opnist og Guð veri með okkur öllum ef ég kemst einhverntímann á tónleika með Pink eða Coldplay, það er ávísun á grátur í heilt kvöld.....og vel það.

En gráturinn hefur líka oft hjálpað mér heilan helling því það er heilandi að gráta. Þegar ég græt þá losnar ósjálfrátt um streitu og ég finn hvernig slæmar tilfinningar renna út með tárunum þegar ég á erfiða daga. Þegar lífið er erfitt og alls konar leiðindi að bögga mann er rosa gott að láta það eftir sér að gráta vel og vandlega. Ég hef aldrei skilið það að fara allt á hnefanum, það er engin skömm fólgin í því að gráta þegar manni líður illa. Auðvitað setur maður undir sig hausinn og tæklar vandamálin þegar þeim er hent í mann en það þýðir ekkert að maður þurfi að taka töffarann á þetta alla leið og láta eins og áhrifin af vandamálinu séu engin. Ég er þess fullviss að í hvert sinn sem við þegjum eitthvað í hel þá séum við að gera vandann helmingi stærri. Það er svo sjúklega margt sem  leysist á farsælan hátt ef við bara tjáum okkur um það, vandamálin eru oft svo miklu stærri í hausnum á okkur en þau eru í raun og veru.

Ég hef oft talað um tilfinningalegt harðlífi þegar fólk er að bögglast eitt í sínu horni með eitthvað vandamál, heldur að það sé eina fólkið í heiminum sem hefur glímt við eitthvað. Verður svo bara biturt, reitt og geðvont því það er engin að hjálpa þeim, engin sem sýnir þeim áhuga eða les ekki hugsanir þeirra. Svo þegar einhver spyr hvort eitthvað sé að þá svarar það með þjósti ,,Nei það er ekkert að, allavega ekkert sem þú getur gert eitthvað í“ Og þetta gerir nákvæmlega ekkert nema láta öllum í kring líða skelfilega, elur á samviskubiti og meðvirkni. Í stað þess að segja bara ,,Hei mér líður bara drullu illa, ég veit ekkert hvernig ég á að vera og vona að ég finni leið út úr þessari vanlíðan“. Þegar fólk er heiðarlegt og segir hlutina eins og þeir eru þá er svo magnað að yfirleitt á einhver frábær ráð í pokahorninu og ef ekki þá eru allavega faðmlög, hlýjar hugsanir og samkennd sem streyma til manns og trúið mér, lækningarmátturinn í því er mikill.

Þegar ég ákvað að hætta að fela mig, mína og vandamálin sem við glímum við fékk ég oft að heyra ,,Finnst þér bara í lagi að bera tilfinningar þínar og barnanna þinna svona á torg og troða því upp á annað fólk“. Ég hugsaði þetta lengi og vel og velti fyrir mér hvort að það væri það sem ég væri að gera, troða tilfinningum mínum upp á aðra? Jú, eflaust hef ég gert það einhverntímann og jú ég veit að það er fullt af fólki sem fer í keng og kleinu þegar ég tjái mig um andleg veikindi. En vitiði mér er bara drull, mér er bara slétt sama hvort fólki líkar þetta eða ekki. Ef þetta truflar fólk þá þarf það bara ekkert að hlusta, það þarf ekkert að lesa það sem ég skrifa og það þarf svo sannarlega ekki að vera í samskiptum við mig. Eins og ég hef sagt áður og þreytist aldrei á að segja þá eru andleg veikindi jafn mikil dauðans alvara og önnur veikindi og ég mun aldrei hætta að tala um þau. Þessi veikindi verða tabú ef við ætlum að þegja þau í hel og ég ætla ekki að taka þátt í því.

Bataferlið mitt hófst ekki fyrir alvöru fyrr en ég fór að horfast í augu við sjálfa mig á heiðarlegan hátt, viðurkenna það að ég glímdi við andleg veikindi, hætti að biðjast afsökunar á því og fór að tala upphátt um veikindi mín. Guð á himnum hvað framfarirnar urðu miklar og fljótar þegar ég sagði upphátt ,,Æ ég er ekkert rosalega skemmtileg í dag því ég finn svo til í sálinni minni og hjartanu“. Og af þeim 10 sem hlustuðu voru alltaf 9 sem gáfu knús, struku hendi, gáfu góð ráð eða sögðu einfaldlega ,,Lóa ég veit ekki hvað þú ert að ganga í gegnum en ef það er eitthvað sem ég get gert til að láta þér líða betur láttu mig þá vita“. Ég ályktaði sem svo að þessi eini sem gerði ekkert eða sagði ekkert væri einfaldlega smeykur við þennan nýja hlut sem opnun á andleg veikindi er og ég dæmdi hann ekki heldur gaf honum séns á að átta sig. Í 99% tilfella kom þessi eini til mín seinna og þakkaði mér fyrir að tala upphátt um þetta því hann væri í sömu sporum en vissi ekki hvernig hann ætti að bera sig að. Þessu eina prósenti sem enn er fast í torfkofanum árið 1900 er að mínu mati ekki viðbjargandi, það eru alltaf einhverjir sem sjá ekki út fyrir kassann sinn og vilja ekki sjá heiminn eins og hann er.

Ég fór með yngri dóttur mína til sálfræðings í gær, við höfum ekki hitt þessa frábæru konu áður þannig þetta var langt viðtal þar sem ég var áhorfandi nánast allan tímann. Ég hef sjaldan verið eins stolt (og já ég fór aðeins að gráta, hamdi mig samt) þegar dóttir mín sagði ,,Ég er nú bara alin þannig upp af mömmu minni að vera nákvæmlega sama um hvað öðrum finnst. Ég reyni bara að vera hamingjusöm, hugsa um mig og passa að meiða ekki neinn eða særa á leiðinni“ Já krakkar mínir helvítis dropinn holar steininn og stundum heldur maður að krakkagrísirnir manns séu ekkert að hlusta en svo detta svona móment inn og foreldrahjartað hoppar af fögnuði.

Eldri dóttir mín  hefur ekkert alltaf fetað sömu braut og aðrir og lengi vel kallaði ég hana Tasmaníudjöfulinn minn því skapið var þvílíkt í bland við ADHD að þessi elska hefði getað heilmálað blokk á hálfum degi. Ég hafði alltaf nettar áhyggjur af henni (lesist miklar), var viss um að hún færi að drekka 12 ára, reykja 13 ára og yrði orðin fastagestur á meðferðarstofnunum upp úr fermingu. En nei það var nú öðru nær, eftir alls kyns áföll, vandamál, verkefni og bardaga stendur þessi unga kona með pálmann í höndunum. Fór að heiman rúmlega 17 ára, bjó sér fallegt heimili í borginni með kærastanum sínum, vinnur 100% vinnu, er í skóla og sér algerlega um sig sjálf. Nánast alla daga er hún að brjálast úr hamingju og elskar að vera til.  Nú síðast tók hún systur sína til sín í 5 daga, hugsaði um hana og fannst þetta nú ekki mikið mál. Hún hefur sömu sögu að segja ,,Mamma þú sagðir mér alltaf að vera ég sjálf og þannig kæmist ég þangað sem ég vildi, svo ég bara fór að gera það“. Og já ég fór aftur að gráta og hjartað fylltist af hamingju.

Þetta er nefnilega mergur málsins, verum við sjálf, pössum að meiða engan eða særa, tölum upphátt um alla hluti, köllum hlutina réttum nöfnum og í guðanna bænum pössum okkur á að fá ekki tilfinningalegt harðlífi.

Ykkar Lóa smiley

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.