Dýpkun Landeyjahafnar hefur kostað 1,8 milljarða króna

Ný ferja væntanleg næsta sumar – Vestmannaeyingar bíða óþreyjufullir

5.Apríl'17 | 11:14
galilei_landey

Dýpkunarskipið Galilei 2000 í Landeyjahöfn.

Ríflega 1,8 milljarða króna hefur kostað að dýpka Landeyjahöfn frá því hún var opnuð. Vestmannaeyjaferjan Herjólfur hentar illa til siglinga milli Eyja og Landeyjahafnar sökum þess hversu djúpt ferjan ristir.

Því hefur kostnaður við dýpkun verið meiri en skyldi og fleiri dagar þar sem ekki hefur verið hægt að sigla til Landeyjahafnar. Ný ferja verður tekin í notkun í júní á næsta ári ef að líkum lætur. Sú ferja ristir mun grynnra og ætti að geta nýst betur í siglingum. Ferjan áttin hins vegar að vera tilbúin þegar höfnin var opnuð, árið 2010, en smíði hennar var frestað vegna efnahagshrunsins. Bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar segir að allt of langan tíma hafi tekið að koma smíði nýrrar ferju á koppinn og á meðan hafi miklir fjármunir tapast. DV.is greinir frá.

422 milljónir í fyrra

Framkvæmdir við Landeyjahöfn hófust haustið 2008 og lauk þeim árið 2010. Síðan þá hefur Landeyjahöfn orðið Vestmannaeyingum og gestum þeirra mikil samgöngubót, þegar hægt hefur verið að sigla þangað og þaðan. Bæði hefur veður og mikil söfnun sands hamlað því oft og tíðum. Á verðlagi dagsins í dag hefur kostnaður við dýpkun hafnarinnar numið ríflega 1,8 milljörðum króna og hefur kostnaðurinn aldrei verið meiri en í fyrra, 422 milljónir króna. Þar fyrir utan kostaði 280 milljónir króna að dýpka höfnina árið 2010 en stærstur hluti þess kostnaðar var byggingarkostnaður en ekki viðhaldskostnaður.

Ferjan nýja sem taka á við af Herjólfi sumarið 2018 kemur til með að kosta rúma þrjá milljarða króna miðað við núverandi gengi. Miklar vonir eru bundnar við að hún muni breyta samgöngum til og frá Eyjum verulega.

Herjólfur dugað betur en búist var við

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir að nýja ferjan muni valda straumhvörfum í Eyjum. Herjólfur hafi þó nýst betur en við hefði mátt búast. „Herjólfur hefur í raun siglt meira en talið var í upphafi að yrði hægt, í Landeyjahöfn. Siglingamálastofnun hafði efasemdir um að það yrði yfirhöfuð hægt að halda nægu dýpi fyrir Herjólf þannig að það sem hefur gerst hefur raunar verið vonum framar.“

„No-season“ í ferðaþjónustunni

Engu að síður hafi þeir verið margir dagarnir sem ekki var hægt að sigla, bæði vegna sandburðar og einnig vegna ölduhæðar, en nýja ferjan á að ráða betur við ölduna en Herjólfur gerir. Elliði segir tímann í bið vera orðinn langan. „Það var hætt við smíði nýju ferjunnar út af efnahagshruninu og síðan höfum við beðið. Á sama tíma og störfum í sjávarútvegi hefur fækkað mjög hratt með aukinni tæknivæðingu þá eigum við gríðarleg tækifæri í ferðaþjónustu. Þau getum við hins vegar ekki nýtt nema með tryggum samgöngum. Víðast hvar á landsbyggðinni er talað um, ef ég má sletta, „high-season“ og „low-season“ í ferðaþjónustunni. Við aftur á móti erum bara með „high-season“ og no-season“. Hingað kemur bara enginn á meðan siglt er í Þorlákshöfn.“ 

Þola ekki kyrrstöðuna lengur

Elliði segir að miklar vonir séu bundnar við nýja ferju í Vestmannaeyjum. „Öryggi í siglingum verður allt annað því ferjan nýja á að ráða mun betur við ölduhæð. Við vonumst til að tíminn sem hægt verður að sigla í Landeyjahöfn gæti lengst verulega, níu til tíu mánuðir á ári gætu bara verið góðir með litlar sem engar frátafir, en tveir til þrír mánuðir yrðu erfiðari. Þá mun ekki þurfa að dýpka jafn mikið og frátafir, sem og kostnaður, verða minni.“ 

 

Nánar má lesa um málið á dv.is

 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla.