Hildur Sólveig Sigurðardóttir skrifar:

Kröftug barátta heldur áfram

4.Apríl'17 | 06:34
sjukrahus_Ve

HSU - Vestmannaeyjum.

Að gefnu tilefni vill undirrituð svara grein Ragnars Óskarssonar sem birtist í síðustu Eyjafréttum. Þar segir: ,,Í mótmælunum bar mest á hetjulegri framgöngu margra forystumanna Sjálfstæðisflokksins í bænum og í máli sínu hlífðu þeir ekki ríkisstjórninni sem þá sat við völd.”

Og ,,Þeir sem hæst töluðu í mótmælunum hafa einhverra hluta vegna hvorki haft hátt síðan né mótmælt framkomu stjórnvalda nú eins kröftuglega sköruglega sem þá.” Þar er Ragnar væntanlega að vitna í ræður undirritaðrar og bæjarstjórans, Elliða Vignissonar. Ég þakka Ragnari hólið en vill vingjarnlega benda honum á eftirfarandi atriði:

Fulltrúar bæjarins ítrekað fundað með heilbrigðisyfirvöldum

Bæjarstjóri og bæjarfulltrúar hafa ítrekað fundað með starfsfólki heilbrigðisráðuneytis og nú síðast á þessu ári með nýjum heilbrigðisráðherra Óttari Proppé til að reyna að koma embættismönnum í skilning um að þær aðstæður sem við búum við hvað þessi málefni varðar séu með öllu óásættanlegar og sérstaklega í ljósi niðurstöðu faghóps sem skipaður var af þáverandi heilbrigðisráðherra sem komst að þeirri einu samróma niðurstöðu að halda ætti úti sólahringsvakt skurðþjónustu í Vestmannaeyjum.

 

Bæjarstjórn hefur mótmælt ástandinu kröftuglega

Bæjarstjórn og bæjarráð Vestmannaeyja hafa barist hatrammlega gegn lokun skurðstofunnar og hafa ítrekað sent frá sér ályktanir um stöðu heilbrigðisþjónustu í sveitarfélaginu og þær hörmulega aðstæður að ekki sé tiltækur svæfingarlæknir né skurðlæknir á sólahringsvakt líkt og í tugi ára áður.  Þetta höfum við gert óháð því hvernig ríkisstjórn hefur verið skipuð enda berjumst við fyrir hagsmunum Eyjamanna fyrst og fremst.

 

Vestmannaeyjabær bauðst til að reka heilbrigðisþjónustuna

Vestmannaeyjabær bauðst fyrir sameiningu Heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmannaeyjum við HSU að taka yfir rekstur stofnunarinnar og tryggja hagræðingu og þannig rekstur skurðstofunnar. Þeirri viðleitni sveitarstjórnarinnar til að viðhalda ásættanlegu heilbrigðisþjónustustigi var því ver og miður hafnað af þáverandi heilbrigðisráðherra Kristjáni Þór Júlíussyni.

 

Opinber gagnrýni bæjarfulltrúa óháð stjórnarflokkum

Undirrituð hefur persónulega sent frá sér fjölda greina og fyrirspurnir á ýmsa fjölmiðla þar sem mótmælt hefur verið og gagnrýndar harðlega þær aðstæður sem okkur er boðið upp á og þar skiptir ekki og mun ekki skipta máli hvaða ríkisstjórn er við völd. Hagsmunir sveitarfélagsins og íbúa þess munu ávallt og eiga ávallt að vera bæjarfulltrúum, hverjir svo þeim eru hverju sinni, efst í huga en ekki flokkspólitískar taugar. Ekki rekur mig minni til þess að hafa heyrt Ragnar gagnrýna niðurskurð ríkistjórnar VG og Samfylkingarinnar en engin ríkisstjórn síðustu tíma hefur gengið harðar fram í niðurskurði í heilbrigðiskerfinu en sú ríkisstjórn.

Því er sú staðhæfing Ragnars að bæjarfulltrúar hafi hvorki haft hátt né mótmælt framkomu stjórnvalda með öllu kolröng. Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur og mun halda áfram sínum hörðu mótmælum gegn þessu óviðunandi ástandi á hvaða vettvangi sem er. Það kann að koma Ragnari á óvart en í dag er það frekar algengt að fólk sinni sveitarstjórnarmálum fyrst og fremst til að bæta hag bæjarbúa frekar en að berjast fyrir hagsmunum síns flokks. Það á við bæði um meiri- og minnihluta núverandi bæjarstjórnar.

 

Ábyrgðin er ríkisvaldsins

Bæjarstjórn ber illu heilli ekki ábyrgð á né hefur valdsvið yfir heilbrigðismálum sveitarfélagsins. Heilbrigðisþjónusta er alfarið á ábyrgð ríkisvaldsins.  

Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur hinsvegar boðið í rekstur bæði samgangna og heilbrigðismála sveitarfélagsins, sem eru vissulega þeir málaflokkar sem mest á hallar og eiga það sammerkt að vera á ábyrgð ríkisins, og þar með reynt að fara langt umfram sínar opinberar skyldur en ekki fengið erindi sem erfiði. Það er sárgrætilegt að þeir aðilar sem bera ábyrgð á þessum málaflokkum hafa að mörgu leyti ekki haft skilning á þeirri þjónustu sem er sveitarfélaginu nauðsynleg. Bæjarstjórn Vestmannaeyja mun hvergi hvika frá þeim kröfum að skurðstofa verði aftur starfrækt í Vestmannaeyjum.

Vestmannaeyjabær mun halda áfram að mótmæla því þegar hið opinbera skerðir þjónustu við sveitarfélagið sem því er nauðsynleg, líkt og það gerði nýlega þegar ISAVIA ohf. sagði upp 2 stöðugildum á Vestmannaeyjaflugvelli, og skerti þar með þjónustu við bæjarbúa og enn einu sinni skal opinberum störfum fækkað á landsbyggðinni. Þessu mótmælti Ragnar Óskarsson einnig í grein á eyjar.net þó hann hafi reyndar látið vera að taka það fram að hann átti sæti í stjórn ISAVIA ohf. þegar ákvörðun um þessa aðgerð var tekin.

 

 

Virðingarfyllst

Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fjölskylda óskar eftir gistiaðstöðu á Þjóðhátíð

13.Júní'19

Fjögurra manna fjölskylda með djúpar Eyjarætur óskar eftir gistiaðstöðu frá fimmtudegi til mánudags á Þjóðhátíð. Um er að ræða hjón með tvö ung börn. Nánari upplýsingar hjá Þórlindi í síma 822 8968.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is